20. desember 2017

Bakarísglæpir um jólin

Þau hafa ekki dregið veitingarnar frá skatti
Við sonur minn höfum fallið kylliflöt fyrir sænskri bókaseríu sem Forlagið hefur gefið út undanfarin ár eftir rithöfundinn Martin Widmark og myndskreytinn Helenu Willis. Bakarísráðgátan er fjórða bókin í æsispennandi flokki um spæjarana og vinina Maju og Lalla en þau leysa hvert glæpamálið á fætur öðru í heimabæ sínum, Víkurbæ. Um þessa seríu er ekkert nema gott að segja, þetta eru bráðfyndnar bækur og mjög hvetjandi fyrir litla lestrarhesta sem og þá sem ekki eru byrjaðir að lesa sjálfir. Letrið er stórt, myndirnar mjög skemmtilegar og efnið afar spennandi. Þá spilla ekki fyrir litrík götukort af Víkurbæ og teikningar af aðalpersónum en við flettum mikið fram og tilbaka – bæði til að athuga hvert söguhetjurnar voru að fara eða hvaðan þær voru að koma á kortinu og líka til að skoða myndir af hinum grunuðu og athuga hvort þar leyndust einhverjar vísbendingar um innra atgervi (svo var ekki).