14. apríl 2017

Stírur, hárflækjur, hrukkur og sviti

Það er alltaf gaman þegar skáld gefur út sína fyrstu ljóðabók. Ég er hálfgerður þjóðernissinni fyrir hönd ljóðsins (ég veit það blasir við að skrifa ljóðernissinni en kommon, maður hefur smá sjálfsvirðingu) og gleðst jafnan yfir nýjum fylgismönnum við málstaðinn. Enn meiri er þó gleðin þegar skáld sendir frá sér ljóðabók númer tvö, sem sýnir fram á ákveðið þolgæði og gefur til kynna að viðkomandi hyggist halda þessu tímafreka rugli til streitu.

Eitt af þeim fjölmörgu skáldum sem gáfu út sína fyrstu ljóðabók árið 2015 var Vilborg Bjarkadóttir, sem sendi frá sér bókina Með brjóstin úti og var meðal þeirra sem sat fyrir rafrænum svörum í ljóðaviðtalaseríu Druslubóka og doðranta af því tilefni. Eins og fram kemur í viðtalinu – og titill bókarinnar sjálfrar gefur raunar vísbendingu um – er Með brjóstin úti mjög líkamleg bók, nánar tiltekið kvenlíkamleg. Hún fjallar um getnað, meðgöngu, fæðingu og fyrstu vikurnar í lífi nýrrar manneskju, um það hvernig móðir býr til barn og barn býr til móður. Rétt fyrir jól 2016 sendi Vilborg síðan frá sér aðra ljóðabók, Líkhamur, sem á það meginþema sameiginlegt með fyrri bókinni að fjalla um líkamann, en er að öðru leyti töluvert ólík henni.

[Innskot: Ég var búin að skrifa heilt bókablogg um ljóðabókina Líkham þegar ég fór að skoða facebooksíðu útgefandans Sæhests og komst að því að þar er hún kölluð örsagnasafn. Ég tek þessu hins vegar bara sem dæmi um hið sveigjanlega eðli ljóðsins og held mínu striki.]

10. apríl 2017

Óvinsæl kona

Þessa dagana er ég með vinnuaðstöðu í bókmenntahúsinu í Åmål, tíu þúsund manna bæ í Dalslandi í Svíþjóð. Við hliðina á dyrunum að skrifstofunni minni hangir plakat í ramma sem auglýsir viðburð sem átti sér stað á hótelinu hér í bænum í september 2014. Þar kynnti rithöfundurinn Sigrid Combüchen bók sem hún skrifaði um umdeilda konu frá Åmål. Ég kannaðist við höfundinn en ekki við umdeildu konuna Idu Bäckmann frá Åmål. Á plakatinu er mynd af alvarlegri konu með hönd á hægra brjósti, stellingin minnir smávegis á Napóleon og er líklega mjög óvenjuleg fyrir miðaldra konu á ljósmynd frá því snemma á síðustu öld. Forvitni mín kviknaði, ég fór að gúggla og fann ýmislegt á netinu og hlustaði á útvarpsþátt þar sem Ida Bäckmann kemur við sögu og svo náði ég mér í bókina og las hana í einum rykk (ég fann hana í hillu hér í við dyrnar hjá mér, rétt hjá plakatinu í rammanum).

Ida Bäckmann var óvenjuleg og illa liðin kona. Hún fæddist 1867 í Åmål og dó ekki langt hérna frá árið 1950. Ida var dóttir málarameistara, hún fékk að mennta sig, fór til Stokkhólms í stúlknaskóla og tók stúdentspróf. 22ja ára gömul, árið 1889, rakst hún á skáldið Gustaf Fröding í lystigarði í Karlstad. Þau hittust varla, hún sá hann bara, en þessi viðburður sneri lífi konunnar algjörlega á hvolf. Fröding hafði á þessum tíma ekki gefið út ljóðabók, hann var 29 ára og þekktur blaðamaður í Karlstad og það var slúðrað um ólifnað hans, en unga stúlkan heillaðist og varð ekki söm.

Árið 1890 gerðist Ida barnakennari og næstu fimmtán árin eða svo stundaði hún kennslu og skólastjórn og var óvinsæll kennari. Hún virðist algjörlega hafa verið með Fröding á heilanum, hún tók upp bréfasamband við hann og fór síðan að umgangast hann og var stöðugt með hann í sjónlínunni og skiptandi sér af honum. Hún gaf út bók árið 1898 sem virðist vera einhvers konar lykilskáldsaga um drykkjubolta sem líkist Fröding mjög en bókin varð upphafið að höfundarferli Idu Bäckmann.

Árin 1891 og 1894 komu út ljóðabækur eftir Gustaf Fröding sem slógu í gegn og fleiri bættust við næstu árin. Síðan hefur hann haft þjóðskáldsstatus og var orðaður við Nóbelsverðlaun skömmu áður en hann dó. Fröding dvaldi langtímum saman á hælum og stofnunum og var augljóslega vanhæfur til margs sem venjulegt fólk þarf að sinna, hann dó árið 1911 rétt fimmtugur. Ida gerðist hins vegar fréttaritari víða um heim, hún skrifaði smám saman margar bækur, var hædd og smáð af mörgum og endaði sem hænsnabóndi í sænskri sveit og dó, eins og fyrr sagði, árið 1950.

Gustaf Fröding. Hann dó fimmtugur.
Ida Bäckmann þótti laus við þá eiginleika sem álitnir eru hæfa músum listamanna. Hún var hvorki kvenleg, fögur né leyndardómsfull, heldur var hún sögð forljót, uppáþrengjandi og nöldurgjörn. Hún þótti allt of ófríð og óskáldleg til að verjandi væri að hún elskaði stórskáld og séní. Það kemur víða fram í heimildum samferðamanna að hún var lítil, rauðhærð og þótti almennt óaðlaðandi. Gustaf Fröding líkti henni við afa sinn, sem þótti minna á álf eða furðudverg. Hrifning Idu af Fröding virðist merkilega lítið upphafin, hún var ekki skáldlegur skýjaglópur eða bókmenntagreinandi heldur praktískt þenkjandi kona sem kunni að taka til hendinni. Ida Bäckmann var ástfangin af skáldinu og hún ætlaði að bjarga honum með skynsemi sinni, redda honum úr ógæfunni með umhyggjusemi og góðu atlæti. Hún virðist hafa álitið að hún gæti komið Fröding af geðveikrahælinu, læknað hann af lífsstílstengdum kvillum og óviðeigandi greddu til vændiskvenna og haldið honum réttu megin við strikið ef hún fengi til þess tækifæri. Hún ætlaði sem sagt að bjarga tilfinningalega vanhæfri fyllibyttu sem skrifaði pornógrafísk ljóð – kannski ekkert mjög óvenjulegt við það? Einu sinni játaði Ida Bäckmann meira að segja bónorði plantekrueiganda frá Suður-Afríku með því skilyrði að hún eignaðist hús í Afríku og fengi að halda Fröding uppi. Að þessu gekk vonbiðillinn en hann dó úr taugaveiki áður en kom til brúðkaups og Ida fékk ekki tækifæri til að láta reyna á björgunarhæfileika sína. Að endingu þótti hún til svo mikilla vandræða að læknar Gustafs Frödings og systir hans, sem hafði verið vinkona hennar, harðbönnuðu henni að umgangast stórskáldið. Frá 1904 var henni alfarið bannað að koma á geðdeildina í Uppsölum.

6. apríl 2017

Það er svo sannarlega eitthvað sem stemmir ekki

Ég skammast mín dálítið fyrir að skrifa aldrei um neitt annað en sænskar bækur inn á þessa síðu. Þegar ég lauk við sænsku skáldsöguna Det är något som inte stämmer eftir Martinu Haag fyrir örfáum dögum var ég því fljót að ákveða að ég myndi ekki skrifa bókablogg um hana. Ekki bara vegna þess að bókin er sænsk og ég ímynda mér að allir séu búnir að fá nóg af pistlum um sænskar bækur - heldur líka vegna þess að ég ímyndaði mér að akkúrat þessi tiltekna bók ætti sérlega lítið erindi við íslenska lesendur. Það kom mér því ekki lítið á óvart þegar ég átti erindi í bókabúð daginn eftir að lestrinum lauk og sá að einmitt þessi bók er nýkomin út á íslensku. Það er eitthvað sem stemmir ekki heitir hún í þýðingu Kristjáns H. Kristjánssonar og það er MTH útgáfa á Akranesi sem gefur út.

Bókin segir frá rithöfundinum Petru sem tekur að sér að vera skálavörður í óbyggðum nyrst í Svíþjóð. Það kemur fljótlega í ljós að hún hefur flúið til fjalla í kjölfar erfiðs skilnaðar og eftir því sem frásögninni vindur fram taka að fléttast inn í hana minningar Petru um andarslitrur hjónabandsins og tímabilið eftir að Anders, maðurinn hennar, fór frá henni fyrir aðra konu.