19. mars 2016

Umfjöllun um kvenlíkamann er ennþá pólitísk: Viðtal við Vilborgu Bjarkadóttur

allir vilja snerta kúluna

leggja blessun sína yfir lífið
leggja blessun sína yfir barnið

stundum koma gamlar konur
og tárfella - hugsa
um börnin sín
þegar þau voru nýfædd

Þetta ljóð er úr einni af hinum fjölmörgu „fyrstu ljóðabókum“ sem komu út á Íslandi í fyrra. Bókin heitir Með brjóstin úti, höfundurinn heitir Vilborg Bjarkadóttir og þetta er semsé hennar fyrsta bók en hún hefur áður starfað við myndlist. Líkt og Þórður Sævar Jónsson, sem var hér í viðtali síðast, mun Vilborg verða meðal upplesara í ljóðapartíi Samfélags ungra skálda (SUS) sem hefst á Gauknum í Tryggvagötu í kvöld klukkan 20:00. Druslubækur og doðrantar gáfu sig á rafrænt tal við Vilborgu í vikunni.

Hæ Vilborg, takk fyrir að vera til í að koma í viðtal! 

Takk fyrir að bjóða mér í viðtal!

Ljóðin í Með brjóstin úti fjalla um sameiginlega vegferð móður og barns frá getnaði og fram yfir fæðingu. Bókin hefur sterka heildarmynd og fjallar um tilurð nýrrar manneskju sem hluta af hringrás, frá því eggjastokkarnir klingja í fyrsta hlutanum Upphafið, líkami móðurinnar tekur breytingum í Hamskiptunum, klippt er á naflastrenginn í Nýburanum - og að lokum er móðirin, ljóðmælandi, byrjuð aftur á blæðingum, tunglið er aftur orðið fullt og „á sérhverri mínútu fæðast / óteljandi börn í sama stjörnumerkinu“. Hefurðu verið að skrifa ljóð lengi?

Já, líkt og fleiri notaði ég ljóðagerð mikið á þerapískan hátt á gelgjunni. Þegar mér fannst enginn skilja mig og fann hræringar innra með mér, sem ég vissi ekki hvað ég ætti að gera við, þá orti ég ljóð. Þannig varð ljóðið leið fyrir mig til að komast í gegnum unglingsárin og finna tilfinningum mínum farveg. Það má segja að ég hafi fjarlægst ljóðið eftir tvítugt þegar ég var í Listaháskólanum því þá var ég spenntari fyrir sagnaforminu. En mér finnst eins og ég sé núna að uppgötva ljóðið aftur - en á nýjum forsendum.

Hvernig kviknaði hugmyndin að því að gefa út bók - var hún bundin upplifuninni af meðgöngu og fæðingu sérstaklega eða hófst meðganga ljóðanna áður?

Mig hefur lengi langað til að gefa út bók og það var því ekki bundið við upplifunina að vera barnshafandi. En þegar ég varð ólétt tók hugsanagangur minn að breytast. Ég sagði skilið við barnæskuna og ákvað að láta verða að því að gefa út mína fyrstu bók. Strax á meðgöngunni varð ég innblásin af þeim líkamlega sköpunarkrafti og þeim breytingum sem urðu á hugsun minni þegar ég vissi að ég væri verðandi móðir. Að vissu leyti liggur meðganga og fæðing beint við sem viðfangsefni í listaverk. Allavegana hef ég sjálf sjaldan fundið fyrir eins miklum sköpunarkrafti í eigin líkama. Mér fannst einhvern veginn magnað að flétta saman líkamlegan sköpunarkraft, tilkomu barns og gerð bókarinnar.

Í síðustu viku spurði ég Þórð Sævar Jónsson hvort hann fyndi fyrir einhverjum baggaþegar hann skrifaði náttúruljóð, ljóð sem á sér svo langa sögu. Nú varpa ég spurningunni til þín öfugri, því hin mjög svo líkamlega upplifun móðurinnar á meðgöngu og fæðingu og líf nýburans er efni sem á sér öllu styttri sögu innan ljóðlistarinnar (og þú ert líka gagnrýnin á ýmislegt sem viðkemur viðhorfum til mæðra, kvenna og meðgöngu í samfélaginu almennt). Fannstu á einhvern hátt fyrir því, þegar þú varst að skrifa bókina eða eftir að þú gafst hana út, að þetta væri óvenjulegt eða jafnvel pólitískt umfjöllunarefni? Myndirðu til dæmis segja að bókin væri feminísk á grundvelli umfjöllunarefnisins eða erum við komnar á þann stað að það liggi jafn beint við og hvað annað? 

Trúarbrögðin karlvæða oft sköpunina og oftar en ekki afmá þau konuna úr sköpunarferlinu og gefa skrítna mynd af því. María gengur með barn fyrir Guð almáttugan og er hrein mey og móðir í sömu setningu sem gefur dálítið skrítna mynd af sköpuninni. Konur, sem hafa verið innblásnar af móðurhlutverkinu við listsköpun, hafa vissulega ekki alltaf verið teknar alvarlega því það hefur sennilega fátt þótt púkalegra en að stilla upp listamannsímyndinni og móðurinni hlið við hlið.

Ég held að ljóðabók mín, Með brjóstin úti, sé að sumu leyti tilraun mín til að vinna með eigin fordóma og samfélagsins um að ljóðabók sem fjallar um meðgöngu, fæðingu og börn gæti verið listaverk. Ég held að ég hafi strax verið meðvituð um það og fann fyrir því að fólki þótti meðganga, fæðing og nýbökuð móðir fremur óvenjulegt viðfangsefni í ljóðlist. Það var satt að segja ein af ástæðum þess að ég skrifaði bókina; mér finnst það raunalegt hvað þetta viðfangsefni hefur lítið ratað inn í ljóðlistina. Það eitt og sér segir mér að umfjöllun um kvenlíkamann er ennþá pólitísk.

Auðvitað eru samt margar ástæður fyrir því af hverju þetta umfjöllunarefni á sér stutta sögu sem þema í ljóðum. Þetta hefur ekki alltaf verið hátt skrifaður heimur, eitthvað sem þykir tilheyra heimilinu en ekki því háleitna eins og t.d. náttúruljóð. En það mætti svo sem flokka þessi ljóð undir náttúruljóð þar sem þetta tekur vissulega á náttúrunni í manninum í öllu sínu veldi. Svo ég held að fordómar fyrir svona ljóðum muni minnka þegar maðurinn hættir í tvíhyggjunni: maður - dýr, maður - náttúra.

Bókin er vissulega feminísk þar sem hún byggir á þeirri líkamlegu reynslu að vera þunguð, þ.e. ganga með barn, upplifa líkamlegar breytingar, fæða barn og gefa brjóst. Bókin er einnig um manneskjuna fyrir fæðingu því hvort sem við erum karl eða kona höfum við einhvern tímann verið í móðurkviði. Því er þessi reynsla sem ég lýsi í bókinni ekki einskorðuð við mæður heldur fólk almennt. Tilgangur bókarinnar var auðvitað að skoða þá miklu félagsmótun sem hefst strax á meðgöngunni en einnig hvernig samfélagið setur oft hlutverk í þröngar skorður, þar á meðal móðurhlutverkið. Um sumar konur er talað eins og þær séu fæddar inn í þetta hlutverk, þ.e. að verða mæður, á meðan aðrar passa illa inn í ímynd hinnar fullkomnu móður. Þannig er bókin tilraun til að búa til breiðari, dýpri sýn á móðurhlutverkið og aukið umburðarlyndi fyrir margbreytileika innan þessa hóps.

Hvað er það við ljóðformið sem höfðar til þín? Hvað er líkt og ólíkt með því og myndlistinni? 

Það sem hrífur mig við ljóðlistina er hversu nálægt hún er hugsuninni. Mér finnst ég sjaldan kynnast eins vel þeim sem skrifar texta eins og í gegnum ljóð. Það sem hrífur mig ekki síst við formið er hvernig miðillinn með töfrum tungumálsins nær að búa til gervirými og leiða lesandann inn í ástand með því að teikna upp myndir, aðstæður eða einhvers konar ástand. Ljóðabækur eru hálfgerðar nautnabækur; bækur sem eru nátengdar skynjuninni. Þá á ég við pappírinn, uppsetningu ljóðanna, letrið og myndirnar. Að mörgu leyti má segja að myndlistin sé bæði líkt og ólík ljóðlistinni. Sérstaklega finnst mér teikning og ljóðlist vera nátengd. Hefst oftar en ekki á hvítu blaði og er þannig nátengd hugsuninni líkt og ljóðið. En vissulega er myndin og orðið ólík táknkerfi sem notast við ólíkar nálganir; myndlíking sem virkar í myndlist virkar ekki í orðsins list og öfugt.

Með brjóstin úti er reyndar ekki bara ljóðabók þótt það sé fjallað um hana hér á þeim forsendum heldur samanstendur hún jöfnum höndum af ljóðum og myndum eftir þig, sem einnig snúast um getnað, meðgöngu, fæðingu og frumbernsku. Hvernig finnst þér sem myndlistarkonu að gera myndir í samhengi við ljóð? Hvaða augum lítur þú samspilið þarna á milli? 

Samspil mynda og orða er eitthvað sem mér finnst bæði hrífandi og erfitt á sama tíma. Ég leit ekki á myndir mínar í ljóðabókinni sem skreytingu heldur að myndirnar væru einhvers konar myndljóð; myndirnar tækjust á við textann, væru jafnvel í þversögn við hann, þetta tvennt afhjúpaði hvort annað o.s.frv. Þó vildi ég að myndirnar og textinn væru í sama stíl til að lesendur fengju þá tilfinningu að um að heild væri að ræða. Ég vildi til dæmis ekki notast við myndina sem uppfyllingarefni eða einhvers konar hlutlaust uppbrot á textanum heldur sem miðil sem kemur upplýsingum og áhrifum til lesanda.

Þú skrifar mjög blátt áfram stíl, talmálslegan, beinskeyttan. Hvernig ljóðlist höfðar mest til þín? Áttu þér einhver uppáhaldsskáld eða uppáhaldsljóð?

Alls konar ljóðlist höfðar til mín. Það fer einnig eftir því í hvaða skapi ég er þá stundina. Ég held að ég eigi hvorki uppáhaldsskáld né ljóð. Mér finnst margt skemmtilegt sem er að gerast í ljóðlist á Íslandi og hef að undanförnu verið dugleg að lesa íslenska höfunda. Líklega finnst mér samt Bók spurninganna eftir Pablo Neruda ein skemmtilegasta ljóðabók sem ég hef lesið, ekki síst vegna þess að mér finnst hugmyndaramminn og myndmálið svo fallegt.

Geturðu sagt mér eitthvað um útgefandann þinn, Útúr, og hvernig samstarf þitt við hann kom til og hvernig það fór fram? Hvernig reynsla fannst þér sjálft útgáfuferlið? Var eitthvað sem kom þér á óvart? 

Það sem kom mér mest á óvart var hvað það er auðvelt að gefa út bók í sjálfu sér, það getur í raun og veru hver sem er gert það. Eins og bókamarkaðurinn er í dag er þetta frekar sálræn hindrun. Í sambandi við útgáfuna hafði ég fylgst bæði með bókabúðinni Útidúr og útgáfunni Útúr og fannst þetta grasrótarstarf mjög merkilegt. Mér þótti útgáfan vera góður stökkpallur fyrir unga höfunda. Ég þekkti Ingvar Högna hjá Útúr frá því í Listaháskólanum þar sem við vorum saman í bekk svo samvinnan við hann var frekar auðveld. Okkar samskipti gengu mjög vel fyrir sig og voru hvetjandi, við hittumst gjarnan með kaffibolla til að ræða um hin ýmsu mál sem snertu útgáfuna. Auk þess var ég einnig svo heppin að vera umkringd fólki sem var viljugt til að hjálpa mér í útgáfuferlinu. Þar á meðal kom faðir minn, Bjarki Bjarnason, með mikið af listrænum ábendingum og sá um prófarkalestur en æskuvinkona mín, Gunnhildur Edda Guðmundsdóttir, setti bókina upp og sá um grafískt útlit hennar sem mér finnst hafa heppnast mjög vel.

Situr þú núna við skriftir? 

Já, og ég held áfram að skrifa ljóð. Ég er alltaf að sjá það betur og betur að ritlist og myndlist vinna furðuvel saman, ég sé marga möguleika í þeirri blöndu. Að undanförnu hef ég verið að skrifa örsögur sem eru innblásnar af líkamanum í mismunandi birtingarmyndum. Sumar sögurnar mætti örugglega kalla ljóð – enda gjarnan ansi mjó lína milli prósaljóðsins og örsögunnar.

Druslubækur og doðrantar þakka Vilborgu kærlega fyrir viðtalið og hlakka til að lesa fleiri ljóð og örsögur í fyllingu tímans. Við ljúkum viðtalinu á öðru ljóði, fyrsta ljóðinu úr bókarhlutanum Hamskiptin.

ljósmóðir réttir
mér bjarndýr
sem klifrar upp á kviðinn
til að komast á brjóst

feldurinn er blautur
við horfumst í augu

rétt áður en bjarndýrið
bítur af mér geirvörtuna
vakna ég

Engin ummæli: