27. mars 2016

Allt innan fjölskyldunnar: „Biblía 21. aldarinnar“

Þann 19. október 2007 var ný biblíuþýðing, hin svokallaða „biblía 21. aldar“, kynnt fyrir Íslendingum á miðopnu Morgunblaðsins, sem þá var enn víðlesin meðal landsmanna. Þar söfnuðust saman ýmsir framámenn til að lofsama hina nýju útgáfu – biskupinn Karl Sigurbjörnsson, útgefandi hinnar nýju biblíuþýðingar fyrir hönd JPV forlags, Jóhann Páll Valdimarsson, og loks tveir nefndarmenn í þýðingarnefndum testamentanna, Sigurður Pálsson og Guðrún Kvaran. Það var auglýst að þennan sama dag skyldu eintök nýju þýðingarinnar afhent forseta, ráðherra og þingmönnum, fyrstum Íslendinga, við hátíðlega athöfn; að vanda gekk íslensk yfirstétt fyrir. Biskup lýsti því yfir að vel hefði tekist við þýðinguna, þótt hann viti að „áreiðanlega muni einhverjir hnjóta um eitthvað í þýðingunni sem þeir hefðu viljað hafa öðruvísi“.

Biskup talaði af reynslu; það var ekki vanþörf á þessari miklu opnuauglýsingu í Morgunblaðinu. Sex dögum áður hafði birst í Lesbók Morgunblaðsins (bls. 10) stórmerkileg grein eftir Jón Sveinbjörnsson prófessor og fyrrum formann þýðingarnefndar Nýja testamentisins. Þar rekur Jón atburðarásina í kringum þýðingarstarf sitt og nefndarinnar og kemur þar margt merkilegt í ljós sem hefur ekki farið hátt síðan, þótt 2007-þýðingin hafi orðið umdeild fyrir aðrar sakir. Raunar er nær ekkert minnst á deilurnar um þýðinguna 2007 í neinu af því mikla kynningarefni sem gefið var út í tilefni af 200 ára afmæli Hins íslenska biblíufélags 2015. Það hvarflar að manni að þær séu eitthvað sem Biblíufélagið vill síst minnast.

Og það skiljanlega. Jón Sveinbjörnsson rekur í greininni hvernig það var stofnað til nýju þýðingarinnar með það að markmiði að nútímavæða tungutak biblíunnar og halda uppi vísindalegum vinnubrögðum: Þýtt skyldi upp úr frummálunum hebresku og grísku og það af fræðimönnum í þeim málum. Gamla testamentið skyldi þýtt allt upp á nýtt, enda hafði það ekki hlotið endurskoðun lengi, en staðan var aðeins flóknari hvað varðaði Nýja testamentið. Með biblíuútgáfunni 1981 höfðu komið út nýjar þýðingar á guðspjöllunum og postulasögunni en bréfin og Opinberunarbókin voru gamlar þýðingar. Eðlilegast hefði verið að gera einfaldlega nýjar þýðingar á þeim og gefa þannig út vel uppfærða biblíu, en Hið íslenska biblíufélag ákvað að fara einfaldari leið: Endurskoða 1981-útgáfuna frekar en að frumþýða, og sérstaklega þá hluta 1981-útgáfunnar sem elstir voru – Pálsbréfin og Opinberunarbókina. Þrátt fyrir þessa ákvörðun var 2007-biblían allstaðar kynnt sem glæný heildarþýðing, sem var ekki allskostar rétt.

Jón var skipaður formaður þýðingarnefndar Nýja testamentisins árið 2001, en með honum þar sátu Guðrún Kvaran og Árni Bergur Sigurbjörnsson, sonur Sigurbjörns Einarssonar fyrrverandi biskups og bróðir Karls Sigurbjörnssonar þáverandi biskups. Árni Bergur veiktist síðan og við tók af honum bróðir hans, Einar Sigurbjörnsson. Sú ætt var vel tengd ferlinu: Sá sem skipaði þýðingarnefndina var formaður Hins íslenska biblíufélags, sem var enginn annar en þriðji bróðirinn, biskupinn Karl Sigurbjörnsson. Boðleiðirnar voru því stuttar milli kirkju, Biblíufélags og þýðingarnefndar.

19. mars 2016

Umfjöllun um kvenlíkamann er ennþá pólitísk: Viðtal við Vilborgu Bjarkadóttur

allir vilja snerta kúluna

leggja blessun sína yfir lífið
leggja blessun sína yfir barnið

stundum koma gamlar konur
og tárfella - hugsa
um börnin sín
þegar þau voru nýfædd

Þetta ljóð er úr einni af hinum fjölmörgu „fyrstu ljóðabókum“ sem komu út á Íslandi í fyrra. Bókin heitir Með brjóstin úti, höfundurinn heitir Vilborg Bjarkadóttir og þetta er semsé hennar fyrsta bók en hún hefur áður starfað við myndlist. Líkt og Þórður Sævar Jónsson, sem var hér í viðtali síðast, mun Vilborg verða meðal upplesara í ljóðapartíi Samfélags ungra skálda (SUS) sem hefst á Gauknum í Tryggvagötu í kvöld klukkan 20:00. Druslubækur og doðrantar gáfu sig á rafrænt tal við Vilborgu í vikunni.

Hæ Vilborg, takk fyrir að vera til í að koma í viðtal! 

Takk fyrir að bjóða mér í viðtal!

Ljóðin í Með brjóstin úti fjalla um sameiginlega vegferð móður og barns frá getnaði og fram yfir fæðingu. Bókin hefur sterka heildarmynd og fjallar um tilurð nýrrar manneskju sem hluta af hringrás, frá því eggjastokkarnir klingja í fyrsta hlutanum Upphafið, líkami móðurinnar tekur breytingum í Hamskiptunum, klippt er á naflastrenginn í Nýburanum - og að lokum er móðirin, ljóðmælandi, byrjuð aftur á blæðingum, tunglið er aftur orðið fullt og „á sérhverri mínútu fæðast / óteljandi börn í sama stjörnumerkinu“. Hefurðu verið að skrifa ljóð lengi?

Já, líkt og fleiri notaði ég ljóðagerð mikið á þerapískan hátt á gelgjunni. Þegar mér fannst enginn skilja mig og fann hræringar innra með mér, sem ég vissi ekki hvað ég ætti að gera við, þá orti ég ljóð. Þannig varð ljóðið leið fyrir mig til að komast í gegnum unglingsárin og finna tilfinningum mínum farveg. Það má segja að ég hafi fjarlægst ljóðið eftir tvítugt þegar ég var í Listaháskólanum því þá var ég spenntari fyrir sagnaforminu. En mér finnst eins og ég sé núna að uppgötva ljóðið aftur - en á nýjum forsendum.

14. mars 2016

Ljóð geta staðið og fallið með einu orði: Viðtal við Þórð Sævar Jónsson

ek yfir pípuhliðið framhjá
skaftafellsskiltinu þegar tor
kennilegt hljóð rýfur þögnina
ekki ósvipað því þegar aurskriða
fellur eða tré rifnar upp með rótum
lít í baksýnisspegilinn og sé að malbikið
hefur tekið á rás og vefst nú upp einsog
papýrusrolla og á augabragði verður allt svart
og ég fyllist djúpri
innilokunarkennd

Á síðasta ári gaf grasrótarútgáfan Meðgönguljóð út fimm nýjar ljóðabækur. Ein þeirra var Blágil eftir Þórð Sævar Jónsson og úr henni er ljóðið sem birtist hér á undan, bíltúr. Druslubækur og doðrantar halda ljóðskáldaviðtölum sínum áfram og ræða nú við Þórð Sævar um fyrstu bókina hans og framhaldið.

Sæll, Þórður! Eins og í viðtalinu við Öldu hérna í síðustu viku langaði mig að byrja á að spyrja þig út í titilinn á bókinni, Blágil. Er þetta eitthvert ákveðið gil, raunverulegt eða ímyndað? 

Sæl og blessuð! Þegar ég vann sem landvörður á Lakagígum sumarið 2013 bjó ég í Blágiljum. Þar lifði ég einsog blóm í eggi í tæpar tíu vikur. Sannast sagna átti ég í talsverðum vandræðum með titilinn, ég var búinn að fá þónokkrar misgáfulegar hugmyndir áður en mér duttu Blágil í hug. Annars er ég ósköp ánægður með útkomuna, svona eftir á að hyggja, Blágil er fallegt orð, látlaust og myndrænt, og það hefur auðvitað þessa persónulegu skírskotun.

Hefurðu verið að skrifa lengi? Það er mikill heildarbragur á bókinni, sástu hana fyrir þér sem eitt heildarverk frá upphafi? Sums staðar eru tvö ljóð á síðu - er það vegna þess að þú varst með fleiri ljóð sem þú vildir birta en blaðsíðurnar eru í Meðgönguljóðabók eða er það partur af heildarpælingunni?

Ég byrjaði að fikta við ljóðagerð af einhverju ráði þegar ég byrjaði í MR. Ætli flest ljóðin séu ekki skrifuð á sirka tveggja ára tímabili, sem hlýtur að teljast tiltölulega stuttur tími, a.m.k. í stóra samhenginu! En svo slæddust auðvitað inn eitt og eitt ljóð meðan á ritstjórnarferlinu stóð. Okkur Kára (ritstjóranum mínum) var ofarlega í huga að bókin yrði heilsteypt, að það væri gegnumgangandi rauður þráður í henni. Blaðsíðurnar í meðgöngubókunum eru af skornum skammti, þannig að ég brá á það ráð að smella sumsstaðar tveimur ljóðum á sömu síðuna, einfaldlega til að nýta plássið til hins ítrasta!

Ljóðin í Blágiljum eru náttúruljóð. Þú vitnar raunar í Kristján Fjallaskáld í upphafi: „Náttúran er ávallt eins / aldrei sér hún breytir“. Það eru sennilega fáar tegundir ljóða sem koma með jafn mikinn „pakka“ og náttúruljóð, nema kannski ástarljóð. Hvernig fannst þér að takast á við þetta form? Fannst þér hefðin íþyngjandi eða inspírerandi eða hugsaðirðu kannski ekkert um hana í samhengi við þín eigin ljóð? Er náttúran þér sérstaklega hugleikin sem umfjöllunarefni eða er tilviljun að þín fyrsta bók skyldi fjalla um hana?

9. mars 2016

Plöntur, landakort og einmana sálir

Í handahófskenndu grúski á Borgarbókasafninu rakst ég nýlega á íslenska bók sem vakti forvitni mína og fékk að fljóta með heim. Plantan á ganginum kom út í hittifyrra og er fyrsta bók systranna Elínar Eddu og Elísabetar Rúnar Þorsteinsdætra. Þær systur eru báðar teiknarar og saga þessi varð fyrst til sem vefmyndasaga í nokkrum köflum en kom svo út sem grafísk nóvella. Hér má lesa örlítið um bókina og meðal annars horfa á myndband um tilurð hennar. Ég kom sumsé að bókinni "kaldri" og las hana án þess að vita nokkuð um höfundana eða söguna, og var verulega heilluð. Það kom mér þar af leiðandi mjög á óvart þegar ég fletti upp systrunum og komst að því að þær voru báðar á menntaskólaaldri þegar sagan varð til.

Plantan á ganginum fjallar hins vegar ekki um ungt fólk heldur skyggnumst við inn í reykvískt hús þar sem búa tvær fremur einmana, miðaldra sálir, Geirþrúður og Örvar Þór. Geirþrúður starfar í ræktunarstöð og hvers kyns plöntur eru hennar líf og yndi, Örvar vinnur hjá Póstinum og ástríða hans í lífinu er landafræði heimsins, þótt sjálfur hafi hann aldrei ferðast utan landsteinanna. Hvorugt þeirra er sleipt í félagslegum samskiptum og þau hafa leitað skjóls í áhugamálum sínum. Á baksíðu bókarinnar er eftirminnileg mynd sem lýsir vel aðstæðum Geirþrúðar og Örvars í upphafi bókar, þar sem þau standa í sitt hvorum glugganum, sitt í hvorri íbúðinni, og stara út í loftið. Það sem verður kveikjan að samskiptum þeirra á milli er fágæt planta sem Geirþrúður stillir upp á ganginum í sameigninni og verður Örvari ástæða til að senda passív-agressívt nágrannabréf eins og svo margir kannast við úr fjölbýlishúsum. Geirþrúður hins vegar tekur þann pól í hæðina að svara honum einlæglega og útskýra ástríðu sína fyrir plöntulífi. Upphefjast bréfaskriftir á milli nágrannanna og smám saman myndast tenging sem verður þeim báðum hjartfólgin. Bæði lifa þau lífinu í þröngum ramma og stærsta spurningin er hvort þau megni að koma sér út úr þeim ramma og láta drauma sína rætast.

Aðferðin sem Elín og Elísabet beita er áhugaverð; þær teikna á víxl og hafa að flestu leyti ólíkan stíl og tækni, en það er engu að síður sterk samfella í sögunni þannig að lesandinn flæðir óhindrað gegnum söguna og hættir fljótlega að taka eftir því þegar skipt er um teiknara, eða þannig var því að minnsta kosti farið með mig. Plantan á ganginum hefur ljúfsáran, nærgætinn og verulega sjarmerandi tón, persónurnar eru skemmtilegar og takturinn í frásögninni sannfærandi. Elín og Elísabet nota myndasögumiðilinn á frjóan hátt eins og sést m.a. á uppbyggingu ramma og samspili texta og mynda. Myndheimurinn er úthugsaður og fjölbreyttur. Í stuttu máli sagt kolféll ég fyrir þessari íslensku myndasögu og er ekki frá því að hún sé meðal þess besta sem gert hefur verið í þeim geira hérlendis. Það verður því vægast sagt spennandi að fylgjast með áframhaldandi verkum Elínar og Elísabetar.

Áhugasömum er bent á forkunnarfagra heimasíðu Elínar Eddu og þar kemur meðal annars fram að ný myndasaga, Gombri, er væntanleg á næstu vikum. Ég ætla sannarlega að tryggja mér eintak af henni. Og hér má lesa pistil um íslenska myndasagnagerð eftir Grétu Sigríði Einarsdóttur þar sem meðal annars er rætt við Elísabetu Rún. Plantan á ganginum kom aðeins út í 71 eintaki en hana er sem fyrr segir hægt að finna á Borgarbókasafninu og ég mæli með því að unnendur góðra myndasagna leiti hana uppi þar.

6. mars 2016

Það sem rífur okkur út úr vélrænunni: Viðtal við Öldu Björk Valdimarsdóttur

Úr hverju er tungumálið? 

Er það gert úr holóttu konunni 
sem stendur alltaf á bak við hurð 
eða er það gert úr ótta? 

Á meðan hún talar 
viðheldur hún blekkingunni 
um að hún sé heil. 

Munnurinn tælir hjartað. 

Orðin laðast að henni 
eins og skortur. 

Á meðan hún talar er annað ljóðið í fyrstu ljóðabók Öldu Bjarkar Valdimarsdóttur, Við sem erum blind og nafnlaus, sem kom út hjá JPV síðasta vor. Í kjölfar vel heppnaðs viðtals við Kára Pál Óskarsson sem birtist hér á vefnum um síðustu helgi ákváðu Druslubækur og doðrantar ehf. að halda ljóðaviðtölunum áfram og ræða við eitthvert þeirra fjölmörgu skálda sem gáfu út ljóðabækur á síðasta ári.

Sæl, Alda, takk fyrir að vera til í að koma í viðtal! Mig langaði til að spyrja þig fyrst út í titil bókarinnar – Við sem erum blind og nafnlaus. Titilljóðið er úr fjórða hluta bókarinnar af fimm, sem ber nafnið Minnisblöð óþekktu húsfreyjunnar. Í því virðist karlinum lýst sem handhafa raddar, nafns og sjónar en konan er í hlutverki þiggjanda, hún er án nafns og orða. Hvaðan kemur þetta fyrrnefnda ljóð og hvers vegna valdirðu þennan titil á bókina? 

Ljóðið „Við sem erum blind og nafnlaus“ er kannski svolítið í anda annarrar kynslóðar femínisma. Konan er í sjónmáli karlsins, hún á sér ekki sína eigin rödd. Hann skilgreinir hana og gefur henni nafn. Hún speglar sjálfa sig í honum og hann gefur henni í raun sjálfsmynd. Þetta má allt tengja við rótgrónar femínískar kenningar sem passa vel við þennan hluta ljóðabókarinnar.