29. febrúar 2016

Sögunni er alls ekki lokið: Viðtal við Kára Pál Óskarsson

stóri g var fjarstaddur
en heilagur andi á stjákli
margnotuð orð reyndust nothæf
um hríð
myrkur kuldi eldur
straumurinn rofnaði
ég er í þvögunni miðri
en samt til hliðar
fyrst sætt bragð
síðan beiskt
gluggi opnast
gluggi lokast
troðið aftur í hversdaginn
hægt en örugglega létu dagarnir sína nýfengnu liti
hægt en örugglega gömlu fleygarnir reknir á milli
óbærilegt
ormur í heilanum
eins langt aftur og ég man
tungumál óvinarins
allsstaðar
eins og táragashylki
í gluggalausum klefa

Ljóðið Mannshöfuð er nokkuð góð fæða fyrir orma er úr splunkunýrri ljóðabók eftir Kára Pál Óskarsson, Ekkert tekur enda. Bókin kom út á dögunum hjá forlaginu Deigma, hún er komin í verzlanir og það er óhætt að mæla með því að ljóðaunnendur tryggi sér eintak. Þetta er þriðja bók Kára Páls, en hann hefur áður gefið út Með villidýrum hjá Nýhil árið 2008 og Oubliette sem kom út hjá Nykri 2007. Útsendari Druslubóka og doðranta tók viðtal við Kára í tilefni af útgáfu nýju bókarinnar.

  
Til hamingju með bókina! Ekkert tekur enda er þín þriðja ljóðabók, síðast gafstu út Með villidýrum árið 2008. Það eru ákveðin stef sem má sjá í báðum þessum bókum; pælingar um vald og ofbeldi og valdaleysi, um „sársauka annarra“ og það að þola, fylgjast með og taka afstöðu gegn misrétti og kúgun og hverju ef nokkru er hægt að áorka með því. Það sem er sérstaklega áberandi í nýju bókinni er áherslan á tungumálið sjálft og hlutverk þess í þessu valdakerfi - eða eins og þú hefur eftir sitúasjónistunum: „Orð vinna, í þágu hins ríkjandi skipulags lífsins.“ Hvernig getur ljóðskáld tekist á við það að verkfæri þess, tungumálið, er jafnframt alltumlykjandi „tungumál óvinarins“?

21. febrúar 2016

Franskur glaðningur í myndasöguformi

Á dögunum áskotnaðist mér sérlega áhugaverður gripur - franska myndaskáldsagan You Are There eftir þá Jacques Tardi og Jean-Claude Forest. Ég sumsé eignaðist hana í enskri þýðingu Kim Thompson en enska útgáfan kom út hjá Fantagraphics Books fyrir nokkrum árum, forlagi sem hefur gefið út gríðarlega mikið af góðum myndasögum, bæði seríum og stökum bókum. Mér til ævarandi skammar hafði ég aldrei heyrt af þessari tilteknu bók en kannaðist aftur á móti við Jacques Tardi sem er með þekktari teiknurum Frakka. Franska myndasöguhefðin er að sjálfsögðu stórmerkilegt form og Tardi skipar mikilvægan sess í þeirri menningu. Hann er fæddur árið 1946 og þekktastur fyrir sögurnar um Adèle Blanc-Sec, sem hafa notið gríðarlegra vinsælda í hinum frönskumælandi heimi og víðar. Á íslensku kom fyrsta sagan í seríunni um hina knáu Adèle út árið 1978 hjá Iðunni og kallaðist Birna og ófreskjan, í stíl við nafnaþýðingar þess tíma.

Jean-Claude Forest sem lést undir lok síðustu aldar var þekktastur fyrir sögur af allt annars konar kvenhetju - vísindaskáldsagnapersónunni Barbarellu. Hér eru þeir félagar þó á allt öðrum slóðum. You Are There, sem á frummálinu nefnist Ici Même og kom út í Frakklandi árið 1979 sem sería, mætti líklega helst kenna við absúrdismann; sögusviðið er landsvæðið Mornemont sem áður heyrði undir There-ættina sem hefur þó þegar sagan hefst tapað öllum eignarrétti sínum til gráðugra granna - fyrir utan veggina sem skilja að garða og hús. Eini eftirlifandi afkomandinn, Arthur There, er nú orðinn að tollheimtumanni sem gengur um veggina og hirðir toll af þeim sem fara um hliðin í veggjunum. Hann er hæddur og hataður af flestum íbúum Mornemont og á sjaldnast raunveruleg samskipti við aðra en skipstjóra fljótabáts sem siglir með vörur til Mornemont yfir stöðuvatnið sem lokar svæðið af. Hann fyllist þó óttablandinni hrifningu af Julie Maillard, dóttur ógeðfelldra hjóna, og samband þeirra verður þungamiðja í sögunni. Á sama tíma fylgjumst við með forseta landsins búa sig undir að missa völdin í yfirvofandi kosningum og lesandinn áttar sig fljótt á því að Arthur There og nágrannar hans eiga á hættu að verða leiksoppar valdastéttarinnar - peð á borði þeirra sem gera hvað sem er til að bjarga eigin skinni.