21. nóvember 2015

Sleipiefni glansmyndanna

Úlfhildur Dagsdóttir sendi Dungeons and Dragons þessa umfjöllun um bókina Velúr (sem kom út árið 2014) en af óviðráðanlegum orsökum fékk hún ekki inni á sínum upphaflega ætlaða samastað.

Á vef mbl.is er mest lesna fréttin að þekkt hjón úr miðbæjarlífinu séu að selja glæsihýsi sitt og flytja í ‚höll Guðjóns Samúelssonar‘ í Vesturbænum. Svo vill til að ég hef séð þetta glæsihús út um gluggana hjá mér undanfarin átta ár eða svo og forvitnaðist því í myndirnar sem fylgdu fréttinni (en hún var sumsé fasteignaauglýsing). Og sat svo með hrukkað ennið eins og múmínálfurinn og reyndi að átta mig á öllum glæsileikanum.

Líklega á ég betur heima í ljóðabók Þórdísar Gísladóttur, Velúr, en í glæsihýsinu, en innan veggja hennar ríkir hversdagsleikinn – sá sem lætur það stundum eftir sér að hnýsast í glansmyndir og veltir fyrir sér hinu fullkomna lífi, en er þó ekki alveg viss hvað í því felst. Svona álíka og hún Margrét, sem í samnefndu ljóði reynir að fylgjast með fjölmiðlum og fésbókinni, en finnst hún samt „dálítið utangátta“: Hún kannast ekki við marga Grímuverðlaunahafa, skilur takmarkað í ýmsum sjónvarpsþáttum, þekkir ekki hráefnið í uppskriftum sem hún les á netinu og hefur aldrei þorað að smakka sushi.

Velúr er önnur ljóðabók Þórdísar en hún er einnig afkastamikill þýðandi og hefur skrifað barnabækur. Einhverjir þekkja hana einnig úr heimi netsins, en hún hélt lengi út bloggi og færir fjasbókinni reglulegar fréttir. Í þeim skrifum birtast sömu einkenni og í ljóðabókunum, íhugul kímni og snörp sýn á samfélag og samtíma, auga fyrir hinu furðulega og venjulega – jafnvel hinu furðulega venjulega – og hæfileikinn til að súmma þetta allt upp í ljóslifandi myndum. Ljóðin hreinlega kvikna á síðunum og tilvera persóna þeirra breiðir úr sér í leikþáttum, jafnvel sjónvarpsþáttaseríum.

Konur eru áberandi, og hugarheimar þeirra, allt frá kynlífsfantasíum yfir í ástríðufulla söfnun á rándýru matar- og kaffistelli sem aldrei er notað. Margrét, til dæmis, er enn með kynhvötina „á sínum stað þó að það sé ekkert til umræðu“ og þrátt fyrir að „Svala Ósk“ sé gift ágætis manni getur hún ekki alveg látið hjá líða að láta sig dreyma um að eignast son með Degi borgarstjóra. Söfnun Sonju frænku á Villeroy & Boch stelli sem hún notar aldrei af því að hún býður aldrei neinum heim myndu heimspekingarnir Bísamrottan og Nietzsche sjá sem fullkomið dæmi um ‚tilgangsleysi allra hluta‘, en þó ber þess að geta að haustlitamynstrið í stellinu fellur fullkomlega að litgreiningu hennar, en hún er rauðhærð og gekk „oftast í fötum í jarðlitum, aðallega mosagrænu og rauðbrúnu“.

Karlmaðurinn er almennt frekar jaðarsettur í ljóðunum og í einu tilfelli tákngerður sem „Dauðinn“ í ljóði sem hangir brosandi á börum og pikkar upp óöruggar konur sem hann fer svo illa með. Þó fer því fjarri að karlmönnum sé almennt útskúfað, lífið bara snýst ekki um þá – utan í ljóðinu „Kvöldbæn konu með of hátt kólesteról“. Það er eldheitt ástarljóð til framhaldsskólakennara frá konu sem vill að hann komi til sín strax, enda „er eftir miklu að sækjast:“

Ég er fasteign á fótum.
Í hjartanu eru mannvirki
sem hróflað var upp
úr tilfallandi byggingarefnum
án leyfis frá skipulagsstjóra.

Þetta er kona sem lifir á sínum eigin forsendum án leyfa frá karlkyns yfirvöldum:

Höfuð mitt er vígvöllur orða sem berjast í opnu rými
þar sem birtan flæðir óhindruð.

Að auki er hún rúmgóð og hennar „eina líkamsrækt er að ýta á undan [sér] verkefnum.“ Þrátt fyrir að flogið sé nokkuð hátt – ‚höfuð mitt er vígvöllur orða‘ – er jarðtengingin alltaf til staðar og vegur upp á móti, enda vitum við frá upphafi að konan er nokkuð hátt uppi í ljósi þess að „þrýstingurinn [er] ívið of hár“.

Eitt ljóðið sem gengur út frá ‚reynsluheimi kvenna‘ heitir „Austur-Evrópa“, en þar segir meðal annars frá afgreiðslukonu sem „minnir á þunglynda konu / með léttlynt yfirbragð / í kaldastríðsbíómynd“. Einnig kemur fram að „hún gæti vitað ýmislegt / um leyndarmál annarra“, en Leyndarmál annarra er einmitt titillinn á fyrri ljóðabók Þórdísar. Og svo ferðast kvikull hugur ljóðmælanda yfir til undirfata sem myndu henta kaldastríðskonum sérlega vel. Loks er skyggnst inn í nútíma þessarar borgar „sem eitt sinn var geymd / á bak við járntjald“, en er „nú sýningarsalur kapítalismans“.

Í þessu ljóði birtist vel sýnin sem er ríkjandi innan bókarinnar, sem skiptist í hinn ‚austur-evrópska‘ kaldastríðsveruleika sem við búum flest við, en kíkjum annað slagið inn í „sýningarsal kapítalismans“, aðallega þó til að flýja hratt þaðan aftur. Og það sem Þórdís gerir svo vel er að sýna á lymskulegan hátt framá að þrátt fyrir að okkar veruleiki sé kannski fremur járntjaldslegur þá felur ‚sýningin‘ kannski ekkert svo mikið skárri: „Vandkvæðin eru viðráðanleg / og lífið svo þægilega merkingarsnautt“ segir í lokalínum ljóðsins „Nýtt líf“. Þar langar ljóðmælanda ekki að taka sig taki, stinga af og „flytjast búferlum / inn í rómantíska gamanmynd / með alvarlegum undirtón“. Þar má bjarga „þreytulegu útliti“ með varalit og allir eru lausir við kvilla á borð við ofnæmi, gyllinæð og lítil typpi. Á einhvern hátt virkar þessi fullkomna mynd ekki alveg nógu aðlaðandi og ljóðið sendir frá sér „Misvísandi skilaboð“ – sem er titill á öðru ljóði, sem einnig fjallar um hið fullkomna líf. Þar „verður allt tilbúið / allt verður loksins frágengið“:

Tilgangur lífs þíns hlýtur að vera
að verða einhver
sem þú ert ekki núna.
Einhver sem lifir fullkomnu lífi.

Þarna er ádeilan hvassari og henni beint að þeim fjölmörgu miðlum sem halda staðalmyndum að konum:

Konur eiga ekki að drekka bjór
það er hentugast að láta hrekjast
undan staðalmyndaþrýstingi
yfir í hvítvínið

Eins og í fleiri ljóðum er hér vísað í samskiptamiðla og netmiðla sem gegnsýra daglega tilveru flestra í nútímasamfélagi, opna aðgang að heimilum og hugum fólks og mynda þar hulu sem minnir á nýfallinn snjó – ef ekki er að gáð. Og það er einmitt það sem Þórdís gerir í ljóðum sínum (og með ljóðum sínum): hún gáir að.

Önnur ljóð spegla nútímann í fortíðinni – ekki grárri forneskju heldur bara síðla á síðustu öld. Þar voru ungmenni „hvorki rökuð / né plokkuð“ og púkalega klædd í ofanálag. Fortíðin kemur líka við sögu í tveimur ljóðum frá 1980, annarsvegar er sagt frá dauða John Lennons og hinsvegar frá hjónum sem ættu að vera af hippakynslóðinni en eru „með stórisa, kristal og pínustyttur í stofunni“. Eins og Vera Knútsdóttir bendir á í umfjöllun sinni um Velúr á bókmenntavef Borgarbókasafnsins, bokmenntir.is, endirspegla þessi ljóð „sameiginlegt minni sem höfundur tekst á við og leikur sér með. Vitund ljóðmælanda birtir sértækt sjónarhorn á minninguna sem hún deilir með öðrum af sömu kynslóð og/eða úr sama samfélagi“. Og hér vísar Vera sérstaklega til blaðaúrklippa sem fylgja sumum ljóðanna – sérstaklega þeim frá fortíðinni.

Frá þessum fremur almennu ljóðum um daglegt líf (í nútíð og fortíð) færir skáldkonan sig yfir í prósalegri ljóð sem bera nöfn kvenna og taka fyrir hið sértæka, eins og tilraun Margrétar til að átta sig á nútímanum og það að „Kristbjörg“ hefur aldrei flutt að heiman og fylgist með stjörnuspá Siggu Kling.

Og svo á Þórdís til heimspekilegri ljóð, eins og þau tvö síðustu, þar sem hún annarsvegar skammar Nietzsche fyrir fjarstæðukenndar yfirlýsingar í „Jæja, Friedrich“:

Þú hafðir rangt fyrir þér:

Það sem drepur þig ekki veldur þér dauðaþrá.
Það sem drepur þig ekki gerir þig að fíkli
sem klúðrar samskiptum við fólkið í kringum þig.

Og lýsir hinsvegar yfir almennu vantrausti í „Engu að treysta“, en þar týnir hún til mandarínur sem mygla sem af þeim litið, fólk sem sendir broskalla og hjörtu, „veðrið, blómlaukana, / ávöxtun lífeyrissjóða, loforð stjórnmálamanna, / stjörnugjöf gagnrýnenda, síðasta söludag / né virkni sleipiefna.“

Vissulega er dramatíkinni haldið innan hófsamlegra marka í þessum heimspekilegu vangaveltum enda húmorinn aldrei fjarri, húmor sem beinist ekki síst að skáldkonunni sjálfri, skáldskap hennar og ljóðmælendum. Ljóð Þórdísar eru alltaf laus við alla tilgerð, þau eru á einhvern hátt fölskvalaus í allri sinni írónísku dýrð, fullkomlega einlæg á meðvitaðan hátt, án þess að það dragi nokkuð úr áhrifum þeirra: þeim er hægt að treysta.

úlfhildur dagsdóttir

Engin ummæli: