13. nóvember 2014

Íslenski bókamarkaðurinn - ábati og umfang


Under the ideal measure of values there lurks the hard cash.
KARL MARX, Das Kapital


Það er alltaf skemmtilegt að finna áhugaverða og vel unna umfjöllun um bækur og menningarmál. Um daginn var mér bent á mjög  vandaða greiningu á umfangi og virði íslensks bókamarkaðar, en þar er um að ræða meistararitgerð Daggar Hjaltalín í almennri viðskiptafræði frá Háskóla Íslands. Það er útbreiddur misskilningur að þeir sem áhuga hafi á listum og menningu séu sveimhugar sem lítinn sem engan áhuga og skilning hafi á hagrænum hliðum lífsins og því að peningar séu hreyfiafl þeirra hluta sem gera þarf. Það er nú kannski full mikill metnaður að ætla sér greiningar á slíkum pælingum hér, en þó alveg þarft að nefna að menning og listir framleiða peninga líkt og aðrir geirar atvinnulífsins og þurfa vissulega innspýtingu fjármuna og aðfanga líkt og öll önnur framleiðsla og rekstur. 

Það að reiknimódelin og hagfræðipælingarnar (og sorrí, ég einhvernveginn efast alltaf um að hagfræði sé alvöru fræði, en það er bara ég) sem til þarf séu ef til vill aðeins flóknari en þau sem þarf til við t.d. framleiðslu á brauði og að ágóðinn sé í mörgum tilfellum lengur að falla til en gerist í „einfaldari“ geirum þýðir heldur ekki að fjárhagslegur ábati af menningu og listum sé lítill. Hinsvegar þarf líka að taka í reikninginn að listframleiðsla er ekki einvörðungu fjárhagslegt, eða hagrænt, fyrirbrigði. En hvað er það svosem, ef grannt er skoðað. Jæja, aftur að ritgerð Daggar Hjaltalín. Fyrir þá sem áhuga hafa á bókaútgáfu og bóksölu á Íslandi þá er þessi ritgerð sannkölluð gullnáma. Farið er yfir landslagið og útgáfa og sala bóka skoðuð útfrá ýmsum sjónarhornum, ótrúlegustu steinum er velt við og maður fær við lesturinn nokkuð góða mynd af bransanum. Sérstaklega fundust mér áhugaverðar töflur með tölulegu efni sem hún hefur unnið, þar sem fram koma bæði markaðshlutdeild bóksala, rekstrarafkoma bóksala og bókaútgefenda, hlutfall birgða af veltu og birgðaverðmæti og svo má lengi telja.

Tölurnar tala sínu máli. Fram kemur að af 24 sérhæfðum bókaverslunum eru verslanir Pennans þrettán talsins. Annar áhugaverður punktur er að matvöruverslanir sem selja bækur eru fleiri en sérhæfðar bókaverslanir (25 á móti 24) og að 16 þessara matvöruverslana eru  verslanir Haga eða Kaupáss.  Verslun með bækur fer þar af leiðandi að stórum hluta fram utan sérhæfðra verslana. Söluprósentur bóka milli þessara ólíku tegunda verslana eru afar árstíðabundnar (sem kannski eru svosem engin ný sannindi) en matvöruverslanirnar eru með um 35% af sölu í mánuðunum fyrir jól en ekki nema um 5% á öðrum tímum ársins.

Talnaefnið verður ekki síður áhugavert þegar kemur að bókaútgefendunum sjálfum.  En í svo gott sem öllum liðum þar trónir Forlagið á toppnum. Ekki bara að það tróni á toppnum heldur eru aðrir svo langt á eftir að það er eiginlega varla hægt að tala um „samkeppni“.  Ef við tölum t.d. um heildartekjur bókaútgefenda árið 2011 (tafla 3) þá voru heildartekjur Forlagsins 1.246.765.268 íslenskar krónur. Það ár var Edda útgáfa með næsthæstu heildartekjurnar uppá 306.200.000. Ef eigið fé bókaútgefenda árið 2011 er skoðað þá er Forlagið enn á toppnum með 1.077.117.323 krónur og næsti á listanum BF-útgáfa með 21.800.633. Eigið fé Eddu útgáfu það árið var hinsvegar neikvætt um rúma 41 milljón króna.

Ég er ekki nægilegur rekstrargúru til að treysta mér í miklar túlkanir á bransanum útfrá þessum tölum, en það er engu að síður áhugavert að velta tölunum og því sem að baki þeim stendur fyrir sér.

Hér er svo hlekkur í texta ritgerðarinnar, en hún er opin inni á Skemmunni, þó afritun hennar sé óheimil án leyfis höfundar.

9. nóvember 2014

Hafnarfjarðarbrandarar ólíkra tíma

Hafnfirðingabrandarinn eftir Bryndísi Björgvinsdóttur hefst í unglingaherbergi (líklega í Norðurbænum) í Hafnarfirði þann 1. desember árið 1999. Klara er fimmtán ára, móðir hennar kallar herbergið hennar svínastíu og framan af sögunni, sem gerist vikurnar fyrir jól, er fátt sem bendir til annars en að hér sé bara á ferðinni sniðug og fyndin unglingasaga sögð í fyrstu persónu af Klöru sjálfri.

Foreldrar Klöru fara til Kanaríeyja þar sem pabbi hennar ætlar að hvíla sig eftir spítalavist. Klara dvelur hjá áttræðri og mjög hressri ömmu sinni á meðan. Kannski er Klara dæmigerður unglingur að svo miklu leyti sem til eru einhverjir dæmigerðir unglingar. Hún er ör og taugaveikluð, sælgætissjúk, feimin, oft svolítið einmana og dálítið klaufaleg á margan hátt, en hún er líka með húmor fyrir sjálfri sér sem er nú ekki sjálfsagt mál þegar unglingar eru annars vegar. Við sögu koma meðal annarra vinkonur, fyrrverandi kærastinn Grjóni, eineltisfórnarlamb frá Færeyjum, strákurinn sem allar stelpurnar eru skotnar í, vinsælu stelpurnar, tággrönnu fimleikastelpurnar sem eru með strekkt hár og pískra um próf og næringarfræði og auðvitað lúðarnir sem forðast hver annan í stað þess að mynda gengi því að þeir „halda að þrír eða fleiri lúðar í hóp séu lúðalegri en einn eða tveir lúðar á stangli.“ (bls. 37)

Í sögu Klöru eru margir drepfyndnir hlæja-upphátt-kaflar og allskonar skemmtilegar vangaveltur um lífið og tilveruna. Pabbi og mamma Klöru urðu fljótlega uppáhaldspersónur hjá mér. Þau eru roskin og kunna hvorki að leigja DVD-myndir né panta pítsur og þau gefa henni yfirleitt glataðar jólagjafir. Foreldrarnir endurspegla svo sniðuglega hvað heimurinn hefur breyst rosalega mikið síðustu áratugina. Ég ólst sjálf upp í Hafnarfirði ekkert mjög löngu á undan Klöru og er af millibilskynslóð milli hennar og foreldranna, en mér finnst mjög margt í sögu Klöru komið töluvert langt frá mínum unglingsárum í umræddu bæjarfélagi.

3. nóvember 2014

Einar Ben og litlu málleysingjarnir

Einar Ben átti hundrað og fimmtíu ára afmæli á föstudaginn. Ég vaknaði til að fara í vinnuna og kveikti á útvarpinu, alltaf gott að fara á fætur með Gufunni, malandinn í morgunútvarpsfólkinu hefur yfirleitt róandi áhrif ef maður passar að stilla hann nógu lágt til að greina ekki orðaskil. Ég klikkaði hins vegar á því í þetta skiptið og heyrði brot úr viðtali við skipuleggjendur stórafmælishátíðar Einars, sem gerði það að verkum að ég var hársbreidd frá því að grýta kaffibollanum í útvarpið. (Eftir að hafa lesið umræður um afmæli Einars á netinu veit ég að aðdáendur hans myndu segja að þetta væri til marks um að kallinn væri enn fær um að vekja sterk viðbrögð, sem er ekki rétt, Arthúr Björgvin Bollason á allan heiður af þessu bræðiskasti mínu.) Viðtalið snerist ekki einungis um afmælið í ár, heldur hugmyndir um að gera afmælisdag Einars formlega að Degi ljóðsins og halda upp á hann með ljóðasamkeppnum fyrir unglinga; einnig að stofna Hús ljóðsins, helgað Einari og skáldskap hans.

Ég hef aldrei lagt mig sérstaklega eftir ljóðlist Einars Benediktssonar og fundist hann frekar uppskrúfaður og leiðinlegur þar sem ég hef rekist á hann. Það er auðvitað bara smekksatriði, og ekki Einari að kenna að það sé svona eilíflega hamrað á þessum sjálfshjálparlegu línum úr Einræðum Starkaðar um brosið og aðgátina. Kannski er hann fínn þegar maður þekkir hann. Ég efast heldur ekki um að skipuleggjendur afmælisins séu raunverulega hrifnir af skáldskap Einars og vilji veg hans sem mestan (ég leyfi mér meiri tortryggni gagnvart menntamálaráðherra, sem lagði ríka áherslu á athafnasemi Einars og stuðning hans við „öld orkuiðnaðar, viðskiptafrelsis og samkeppni“ í grein um skáldið í Morgunblaðinu síðasta föstudag, en af einhverjum dularfullum ástæðum hefur Mogginn fjallað blaða mest um afmælishátíðina).

Það sem vakti hins vegar með mér slíka reiði í viðtalinu á föstudaginn var sú afstaða sem Arthúr Björgvin Bollason lýsti þar til skólakrakka og hins æskilega hlutverks ljóðlistarinnar í lífi þeirra og þjóðfélagsins: