18. febrúar 2014

Grænland í litríkum svipmyndum

Sunnudaginn næstkomandi verða Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, veitt í Iðnó áttunda árið í röð. Hátíðin er í þetta sinn tileinkuð Jakobínu Sigurðardóttur og verkum hennar og á dagskránni verða alls konar spennandi erindi og tónlistaratriði (sjá nánar hér).
Tilnefndar bækur eru níu alls, þrjár í hverjum eftirtaldra flokka: flokki barna- og unglingabóka, flokki fagurbókmennta og flokki fræðibóka og rita almenns eðlis, en ég er nýbúin að lesa eina af bókunum sem tilnefndar eru í flokki fagurbókmennta; ljóðabókina Af hjaranum (2013) sem er önnur bók Heiðrúnar Ólafsdóttur.

11. febrúar 2014

Í gryfju Nabokovs: Guðrún Elsa og Kristín Svava spjallblogga um Pale Fire

KST: Sæl, Guðrún mín, velkomin í enn eitt Google Docs-skjalið! Þá er komið að því að við höldum áfram með druslubókaverkefnið Níðumst á Nabokov, sín hvoru megin Atlantsála, þó nokkuð löngu eftir að það hófst. Varst það ekki þú sem tókst fyrst upp Pale Fire hér um árið?

GEB: Sæl og blessuð, kæra Kristín Svava. Jú, það var víst ég sem tók hana fyrst upp, en ég er ansi hrædd um að ég hafi líka orðið síðust til að leggja hana niður.

KST: Þú tekur þér bara góðan tíma í að njóta þess unaðsmjúka súkkulaðikonfekts sem orðin eru.

GEB: Hér er mjög mikilvægt að lesendur átti sig á því að ekkert háð felst í þessum orðum þínum. 

KST: Það er hverju orði sannara.

GEB: „Unaðsmjúkt súkkulaðikonfekt“ er nefnilega alls ekki fjarri lagi. Fáir höfundar skrifa jafn fallegan og úthugsaðan texta og Nabokov. Ég hef allavega aldrei lesið höfund sem er jafn heillaður af tungumálinu, en mér skilst að hann hafi hrifist af engu eins og orðum, nema ef vera skyldi fiðrildum og skák. Annars hugsa ég að það hafi helst verið strúktúr sögunnar sem gerði það að verkum að ég dróst ekki beinlínis inn og var því lengi að klára bókina þrátt fyrir að hafa alltaf gaman af því að grípa í hana og lesa.

4. febrúar 2014

Um holdlegar fýsnir og sálartætandi Bylgjufliss

Það er ekki hægt að halda því fram að ljóðabækur fái sérstaklega stórt pláss í hinni yfirdrifnu jólabókastemningu sem loðir við meginstraumsbókmenntaumræðuna á Íslandi. Fyrir utan örfáar "kanónur" er heldur lítið fjallað um nýjar ljóðabækur, einna helst þegar það er hægt að finna eitthvert sniðugt "teik" á bókunum og smætta þær niður í það, t.d. ef það er eitthvað sneddí konsept á bak við bókina eða þá að skáldið samdi ljóðin meðan það sinnti vitavörslu í Malasíu, þið skiljið hvað ég er að fara. En ljóðin halda nú samt áfram að koma út og ég taldi eitthvað um þrjátíu nýjar íslenskar ljóðabækur í Bókatíðindum síðasta árs. Hér á blogginu hafa í gegnum tíðina birst þónokkrar færslur um ljóð en við höfum lítið fjallað um nýjustu bækurnar. Ég er hins vegar með nokkrar af þeim á skrifborðinu hjá mér, bækur sem komu út 2013 og 2012 og ég hef þegar lesið, svo það er löngu kominn tími til að sparka í eigin rass og gefa ljóðinu smávegis pláss.

Í fyrra fjallaði ég um lúmska ljóðabók eftir Braga Pál Sigurðarson sem bar þann hógværa titil Fullkomin ljóðabók. Um þá bók var margt gott að segja og ekki síst lofaði seinni hluti hennar góðu, en þar mátti lesa nýrri ljóð Braga sem báru vitni um sterkari höfundarrödd og stílræna þróun. Í lok síðasta árs kom svo út ný bók eftir Braga Pál, Hold, hjá forlaginu ÚTÚR. Þegar ég skoðaði aðra umfjöllun um bókina var nokkuð augljóst að fjölmiðlafólki fannst það aldeilis hafa fundið sniðugt teik á hana, nefnilega nektina á kápunni þar sem ljóðskáldið stendur berstrípað með svínshaus í Norðurmýrinni í Reykjavík. Sumt af því sem ég las var bókstaflega fáránlegt, svo pirrandi innantómt og vandræðalegt að ég nenni ekki einu sinni að tengja á það (Fréttatíminn, ég er að horfa á þig). Mér gekk raunar illa að finna umfjöllun þar sem útgangspunkturinn var ekki bókarkápan, fann en Víðsjá brást þó ekki frekar en fyrri daginn og hér má hlusta á viðtal við Braga Pál þar sem hann talar um eigin afstöðu gagnvart ljóðinu; Bragi talar um að hafna fegurðinni og hinu fínpússaða formi og búa þess í stað til einhvers konar beintengingarljóð þar sem textinn gengur beint inn í lesandann, laus við skrúð og skraut. Hann vilji fjalla um eigin veruleika í dag, mótsagnakenndan og hráan, frekar en festa sig í fortíðarsýn hins upphafna ljóðskálds. Hann talar um heiðarleika og vafningalausan skáldskap.

Hold er vissulega skilgetið afkvæmi Fullkominnar ljóðabókar, að því leyti að ljóðmælandinn er kunnuglegur og sama hrjúfa yfirborðið einkennir ljóðin. Hins vegar er nýja bókin hnitmiðaðri og röddin eindregnari, hún segir meira en oft í færri orðum. Vaðallinn sem einkenndi fyrri bókina er ekki lengur áberandi, en takturinn verður ekki hægari fyrir vikið heldur þvert á móti þéttari og sterkari.

Undir niðri ríkir alltaf einhvers konar kaldhæðin meðvitund um formið, um fáránleika þess að skrifa ljóð, vera enn ein röddin í kaosinu. Ljóðmælandinn rennir sér inn í fyrsta ljóðið í bókinni með upphitun á lyklaborðinu og mætir opinberlega á svæðið:

"Asdferum við semsagt að skrifa í hvítu núna?


ok
gerum þetta"

(ég óska annars eftir blaðsíðutölum í næstu bók, svo hægt sé að vitna almennilega í textann!)

Röddin á bak við ljóðin vekur gjarnan athygli á sér, leyfir okkur ekki að gleyma því að við sitjum og lesum ljóðabók og stillir þannig takmörkunum formsins í kastljósið: "Ónýt orð. Afhelguð. / Fullkomin og merkingarlaus. / Sjáðu þessi tákn. / Hlustaðu á hljóðin. / Algjörlega merkingarlaus." Stundum ritskoðar röddin sig með stjörnum og við sjáum **** í stað orðanna, stundum ráðskast hún með framvinduna:

"hér er bara auð síða hehe"