18. nóvember 2013

Spenna! Gaman! Fantasía!

Fantasíuskáldsagan Afbrigði eða Divergent (2011) er fyrsta bók Veronicu Roth, sem skrifaði söguna í vetrarfríi frá Northwestern University í Illinois í Bandaríkjunum og ku hafa selt kvikmyndaréttinn að henni fyrir útskrift. Afbrigði er nýlega komin út í íslenskri þýðingu Magneu J. Matthíasdóttur hjá Björt bókaútgáfu, þeirri undirdeild forlagsins Bókabeitunnar sem einbeitir sér að útgáfu bóka fyrir stálpaða unglinga og ungmenni. Hér er m.ö.o. á ferðinni fantasía sem fellur undir skilgreininguna young adult eða bækur ætlaðar ungum fullorðnum, og eins og gjarnan vill verða um slíkar bókmenntir í dag er um þríleik að ræða; önnur bókin, Insurgent, kom út árið eftir og Allegiant á þessu ári. Þrátt fyrir YA-stimpilinn tel ég samt óhætt að segja að allir sem á annað borð kunni að meta góðan fantasíuskáldskap ættu að hafa gaman af þessari.

Afbrigði er dystópía með sögusvið í Chicagoborg ótilgreindrar framtíðar. Undangengnir atburðir, sem ekki eru skilgreindir mikið nánar, hafa orðið til þess að heimsskipulagið eins og við þekkjum það í dag er liðið undir lok og nýtt tekið við ‒ eða að minnsta kosti í Chicago, því veröldin handan borgarmarkanna er persónum bókarinnar jafn mikil ráðgáta og lesendum.

13. nóvember 2013

Hundakæti Ólafs Davíðssonar

„Út úr þessu tali fórum vér að þreifa á hjörtum vorum og vita, hve hart þau slægju, en oss var ómögulegt að finna hjartað í mér. Vér fundum enga hjartslátt, þótt vér þreifuðum um allt brjóstið og alla hliðina á mér. Ég er líka fjarskalega feitur, einkum innanklæða.“

Svo ritaði Ólafur Davíðsson, nemi við Lærða skólann í Reykjavík, í dagbók sína föstudaginn 19. maí 1882, skömmu áður en hann sigldi til framhaldsnáms í Kaupmannahöfn. Hinn innanfeiti Ólafur Davíðsson var tvítugur þegar þetta var, fæddur í janúar 1862, prestssonur að norðan. Hann lagði stund á náttúrufræði við Kaupmannahafnarháskóla en varð síðar þekktastur fyrir söfnun sína á íslenskum þjóðsögum, gátum, vikivökum og þulum. Árið 1955 gaf Finnur Sigmundsson út dagbók Ólafs frá námsárum hans á Íslandi og í Danmörku, ásamt bréfum hans til föður síns á sama tíma, undir titlinum Ég læt allt fjúka.

Ólafur Davíðsson. Myndin er fengin úr grein Eyþórs Einarssonar
um Ólaf í Náttúrufræðingnum 1962
Ólafur lætur sannarlega margt fjúka, sérstaklega í dagbókinni, enda er hún óumdeilanlega skemmtilegasti hluti bókarinnar. Ég myndi örugglega ekki þola þennan sjálfsánægða MR-uppskafning ef ég kynntist honum í dag, en fjarlægðin gerir fjöllin blá og mennina bærilegri. Sem persóna í eigin 19. aldar skrifum er Ólafur reglulega sjarmerandi, léttúðugur og grimmilega hreinskilinn. Sjálfur vill hann heldur ekki meina að hann sé neitt montinn, heldur fyrst og fremst raunsær: „Jóni fannst ég hafa heldur mikið sjálfsálit. Ég var ekki samþykkur því. Ég sagði, að mér fyndist að sérhver ætti að láta sjálfan sig njóta sannmælis eins og aðra og fara um sig hólsorðum eða álasorðum eftir því, sem við ætti.“