18. október 2013

Mín litla persóna tekur litla sopa úr brynningarskálinni

Þann 1. október síðastliðinn opnaði Borgarbókasafnið svokallað ljóðakort Reykjavíkur, sem ég hef og legið í síðan. Það er svo gaman að sjá landfræðilega legu verkanna, rifja upp gamalkunnug ljóð og kynnast nýjum. Mér finnst líka frábært að ljóðin skuli birtast manni í formi ljósmyndar af viðkomandi blaðsíðu, það gerir þau einhvern veginn áþreifanlegri á gervihnattaöld.

Meðal þess sem hefur rifjast upp fyrir mér við ljóðakortsrand mitt síðustu daga er bók sem kom út og ég las í fyrra og ætlaði reyndar að vera löngu búin að skrifa um, Litlir sopar eftir Huldar Breiðfjörð. Hún dúkkar oft upp á ljóðakortinu, enda ýmislegt reykvískt í henni. Mér líkaði bókin ágætlega þegar ég las hana fyrst en nú þegar ég hef lesið hana aftur finnst mér hún vinna æ meira á, ekki ósvipað og kápumyndin, sem mér fannst í besta falli krípí þegar ég sá hana fyrst („er hér loksins komin upprunalega kápan á Augnkúluvökva?“ hugsaði ég) en svo laukst hún allt í einu upp fyrir mér og nú finn ég til djúps samhljóms með henni.

Ég finn líka til viðkunnanlegs samhljóms með bókinni í heild og þess vegna finnst mér að á þessu fimmtudagskvöldi, þegar mín litla persóna hefur drukkið nokkra litla sopa, sé tilvalið að skrifa aðeins um þessa ágætu bók. Ég ætla ekki að hringja í auglýsendur í Bændablaðinu og ræða rúllubagga og keflavaltara, eins og sögumannsins litla persóna gerir þegar hann er búinn að fá sér nokkra litla, en mikið sem ég skemmti mér yfir símtölunum hans.

Litlir sopar skiptist í þrjá hluta. Fyrsti hluti ber titilinn Áhorfandi og undirtitilinn Tuttugu og sjö athugasemdir. Vegna þess hve ég er menntuð lítil persóna (lesendur verða að fyrirgefa mér hvað ég lifi mig mikið inn í orðfæri skáldsins) kalla ég sögumann þessa hluta flâneur upp á frönsku; hann er sannarlegur áhorfandi, ranglar um Reykjavík og er vitni að því sem gerist í borginni, leggst jafnvel á glugga og horfir á fólk horfa á sjónvarpið. Ég held að þessi fyrsti hluti sé uppáhaldsparturinn minn af bókinni, hann er eitthvað svo hugmyndaríkur og einmana og krúttlegur. Það er í þessum kafla sem Áhorfandinn stundar það að hringja út úr borginni, í auglýsendur Bændablaðsins, og uppáhaldskaflinn minn í uppáhaldspartinum er hin fallega athugasemd númer tuttugu og fjögur:

„Maðurinn virkaði svo yfirvegaður, svo einlægur, að smám saman fór ég að skammast mín og dró mig í hlé þar sem ég sat fastur á mínum stað í Reykjavík. Áður en ég vissi hafði hann fengið upp úr mér að ég væri einn heima með svolítið rauðvín og Bændablaðið. Það var gott að tala við þennan mann. Og hann spurði hvort ég hefði nokkuð við brynningarskálar að gera. Honum virtist nefnilega ekki að ég ætti í vandræðum með að vökva mig.“

Eins og ráða má af þessum texta er sögumaður Lítilla sopa einn, einsamall, jafnvel einmana. Vina er minnst, hringt er í bændur, gömul kærasta er ávörpuð, en ávallt er sögumaðurinn einn á ferð og það ljær bókinni ef til vill þetta viðkunnanlega yfirbragð, ég veit ekki hvað ég á að kalla það, sjálfsmeðvitaða angurværð, kankvísa einsemd, það er allavega eitthvað sem gerir það að verkum að ég strýk henni ástúðlega eftir kilinum.

Annar hluti bókarinnar heitir Herbergi án veggja og samanstendur af ýmsum textum sem eru í lauslegu sambandi við þá í fyrsta hlutanum, kannski ljóð-legri í lengd og línuskiptingu, ýmist hefðbundin ljóð eða prósa. Kaflarnir í þriðja hlutanum, Undir áhrifum, eru lengri, líkari örsögum, og bera allir nafn tiltekins rauðvíns. Þeir eru eignaðir ónefndum vini sögumannsins, sem sagður er hafa horfið í Tælandi en skilið eftir sig þessa texta aftan á kvittunum og glasamottum.

Þótt ég sé hrifnust af fyrsta hlutanum er margt mjög fínt í þessum síðari tveimur. Textinn Gjá, sem fjallar um það sem par hefði kannski gert á Þingvöllum ef þau hefðu verið þar, minnti mig á einhvern indælan hátt á ljóð eftir Pétur Gunnarsson úr Splunkunýjum degi, sem ég held að hafi reyndar alls ekki fjallað um Þingvelli en sem ég tengdi ósjálfrátt við þann stað út af enn öðrum og sennilega óskyldum kafla í Persónum og leikendum. Ég ætla ekki að segja hvaða ljóð, en til vísbendingar mæli ég ekki sérstaklega með því að gúgla „feit jómfrú“.

I hvert fald, eins og Danirnir segja, er ég æ hrifnari af Litlum sopum, þótt ég hafi lengi verið hrifin af litlum sopum. Okkar litlu persónur ættu að taka fleiri litla sopa. Og skoða ljóðakortið. Þá er góð helgi framundan.

Engin ummæli: