11. júlí 2013

Handavinnukennari myrðir ekki manninn sinn (því miður)

Það var með talsverðri tilhlökkun sem ég opnaði Manneskju án hunds – verandi reyfara-aðdáandi hafði ég lengi ætlað að lesa bók eftir hinn fræga og margþýdda Håkan Nesser. Lengi framan af var það lögreglumaðurinn (og síðar antíksölumaðurinn) Van Veeteren sem leysti gátuna í bókum Nesser en frá 2006 hefur ítalskættaður lögreglumaður að nafni Gunnar Barbarotti séð um slíkt og Manneskja án hunds er einmitt fyrsta bókin um hann. (Þorgerður las aðra bókina um Barbarotti og minnist á hana hér)

En hvað skal segja um Manneskju án hunds? Á köflum meinfyndinn reyfari og áhugaverðar pælingar um sorg og sekt og samvisku...en stundum dálítið langdreginn. Vandamálið er kannski að þær persónur sem maður hefur hvað mesta samúð með eru ekki þær persónur sem við fylgjum eftir – hin þunglynda, pillupoppandi ættmóðir, Rosemarie Wunderlich Hermanson, hverfur allt of fljótt sjónum okkar og sömu sögu er að segja um yngsta son hennar – fyrrverandi raunveruleikastjörnuna „Rúnk“ Róbert. Rosemarie Wunderlich Hermanson er orðin uppgefin á hjónabandinu við Karl-Erik og það er í sambandi þeirra sem svarta kómedían rís hvað hæst:

„Sextíu og þriggja ára handavinnukennari myrðir ekki manninn sinn, það er bara algjörlega útilokað. Hún var reyndar líka þýskukennari en það breytti engu sem heitið gæti, gerði þetta ekkert ásættanlegra. Þýska eða handavinna, hverju í veröldinni breytti það í þessu samhengi?“ (bls. 10) 

En Rosemarie myrðir ekki Karl-Erik – því miður – ef hún hefði gert það væri hún kannski meira í forgrunni sögunnar.

Lögreglumaðurinn Gunnar Barbarotti er reyndar nokkuð skemmtilegur - ekki drykkfelldur og alveg fær um að eiga líf utan vinnunna, á í góðu sambandi við dóttur sína og ágætu sambandi við fyrrverandi eiginkonu – lesandinn hlýtur að skrifa þessi óvenjulegu persónueinkenni (í fari skandinavískrar löggu) á ítalskan föður hans. En hann kemur ekki til sögunnar fyrr en í sextánda kafla (á blaðsíðu 173) og reyndar var ég farin að hraðlesa þarna og hélt fyrst að hér væri lesandinn að fá innsýn í hugarheim morðingjans (kokkálaður eiginmaður sem gerir samning við guð). Það reyndist hinn mesti misskilningur og Gunnar almennt viðkunnanlegasti maður.

Um margt er þetta þó áhugaverður reyfari – hann hefst með fjölskyldumóti – hjónin Rosemarie og Karl-Erik hafa boðið börnum sínum þremur, barnabörnum og mökum til veislu í tilefni af sextíuogfimm ára afmælis Karls-Eriks og fjörtíu ára afmælis elstu dótturinnar. Kvöldið sem hátíðahöldin hefjast hverfur yngsti sonurinn, Róbert, og stuttu síðar hverfur elsta barnabarnið, Hinrik. Frændurnir þekktust varla og áttu ekkert sameiginlegt annað en ættartengslin og fjölskylda og lögregla spyrja sig sömu spurninga – tengjast hvörfin eitthvað – og ef svo er – hvernig? Lesandinn fylgist svo með leit Gunnars Barbarotti að mönnunum en ekki síður því hvernig þessi trausta millistéttar-fjölskylda fellur saman í kjölfar hvarfanna.

Þýðing Ævars Arnar Jósepssonar rennur almennt ljúflega niður en það er voða mikið um innsláttar/prentvillur (væntanlega ekki við þýðandann að sakast þar) og einstaka setningar svolítið skrítnar – sautjándi kafli endar á orðunum: „Hann fann ekki dugg.“ og velti ég mikið vöngum yfir þeirri staðhæfingu. Annað er auðskildara en ekki kannski skemmtilegra fyrir vikið – Kristína verður Kristine hér og þar og svo framvegis.

Niðurstaðan er sú að hér séu áhugaverðir þræðir, launfyndnir kaflar og skemmtilegar persónur en hefði að ósekju mátt skera þessar 490 síður aðeins niður og prófarkalesa betur.

2 ummæli:

Hildigunnur sagði...

Kona þarf að kíkja á þessar bækur - ég er orðin svo þreytt á þessari erkitýpu skandinavísks löggumanns að ég er t.d. steinhætt að lesa um hann Harry Hole.

Maríanna Clara sagði...

já - þá ertu í góðum málum með Barbarotti - hann er voða afslappaður, ljúflingur og fínn í mannlegum samskiptum (sem sagt allt sem Harry er ekki)