20. júlí 2013

Fabúlur HKL: Guðrún Elsa og Kristín Svava spjalla um Kristnihald undir Jökli

Séra Jón Prímus (Baldvin Halldórsson) og Umbi
(Sigurður Sigurjónsson) ræða lífið og tilveruna
KST: Heil og sæl, Guðrún!

GEB: Nei, sæl og blessuð Kristín Svava! Mikið sem ég hef saknað þín! Eigum við að byrja á því að gefa einhverja mynd af því um hvað Kristnihald undir Jökli fjallar, svona fyrir þá sem ekki vita?

KST samþykkir hikandi. (Hér vantar í handritið)

GEB: Bókin hefst á því að biskup hefur kallað á fund sinn ungan guðfræðing til að biðja hann um að taka að sér það verkefni að rannsaka kristnihald undir Snæfellsjökli. Þar virðist ýmislegt undarlegt hafa verið að gerast undanfarna áratugi; til dæmis sýnir séra Jón Prímus, sem nýtur þó mikillar hylli meðal sóknarbarna sinna, prímusaviðgerðum og hestaumhirðu mun meiri áhuga en messuhaldi, kirkjan hefur grotnað niður, auk þess sem „kynleg umferð með ótiltekinn kassa á jökulinn“ veldur biskupi áhyggjum. Guðfræðingurinn ungi gerist því umboðsmaður biskups (UmBi) og heldur á Snæfellsnes með upptökutæki undir armi. Þar hyggst hann ræða við íbúa undir Jökli og varpa ljósi á ástandið með nákvæmri skráningu upplýsinga, sem eiga svo að verða skýrsla fyrir kirkjumálaráðuneytið. En ekki einu sinni upptökutæki getur tryggt hlutlausa athugun og þetta verkefni verður kannski ekki jafn einfalt og fljótunnið og Umbi vonast til…

KST: Það var nútímalegur tónninn og galgopalegur húmorinn sem kom mér mest á óvart þegar ég las Kristnihaldið fyrst. Þá hafði ég aðallega lesið þessar fyrri, epísku bækur Laxness og fannst eins og það hlyti að vera hans stíll, bæði af því hvernig bækurnar eru en líka af því að það passar við stöðu og ímynd Þjóðskáldsins að skrifa epískar og dramatískar skáldsögur. Ég er hrifin af ýmsu í þeim, sérstaklega Íslandsklukkunni af því að þar gengur hann svo langt með hina epísku dramatík, en Kristnihaldið höfðar til mín á einhverju öðru leveli. Hún er kannski líka sérstök í mínum huga af því að þegar ég las hana fannst mér fyrst eins og ég gæti verið að lesa „einhverja skáldsögu eftir einhvern höfund“ en ekki „Eitt Af Verkum Þjóðskáldsins“, skáldsögu á stalli sem er erfitt að nálgast eðlilega. Að vissu leyti finnst mér ennþá hálfskrítið að við séum að bókablogga um bók eftir Halldór Laxness, eins og hverja aðra bók, án þess að vera  sérfræðingar í Laxness eða hafa lesið hann komplett heldur bara sem almennir lesendur.

GEB: Já, ég er sammála þér. Hann hefur einhverja áru heilagleika, það liggur við að manni líði eins og við ættum í raun ekki að spjalla um hann afslappaðar eins og við erum núna, heldur þyrftum við helst að setja okkur í hátíðlegri stellingar. Og birta skrifin svo í virðulegu bókmenntatímariti. Sem væri góðra gjalda vert, en það er ábyggilega líka hollt að hrinda stundum virðulegum bókum nóbelsskálda niður af stallinum. (Nú áttu að sjá mig fyrir þér taka langt tilhlaup og skella á bókahillu með miklum tilþrifum, svo að höfundarverk HKL steypist yfir mig.)

Umbi (Sigurður Sigurjónsson) og Jódínus Álfberg
(Þórhallur Sigurðsson) ræða saman á rússnesku

KST: Talandi um HKL og hátíðleikann sagði vinkona okkur eitt sinn skemmtilega sögu. Hún var í tíma í háskólanum, hjá kennara sem talaði fjálglega um söguna og bókmenntirnar og var alltaf að nefna eitthvað HKL, HKL. Vinkona okkar fylgdist grannt með og hripaði niður í glósubók sína: „HKL? Ath“ – þar til hún áttaði sig á því að maðurinn var að tala um Halldór Laxness.

GEB: Þegar við hittumst fyrst eftir að hafa lesið bókina komumst við að því að við höfðum báðar orðið sérstaklega hrifnar af ákveðnum kafla hennar; því þegar séra Jón Prímus er að ræða við Umba í kaflanum „Heimspeki undir Jökli“:

Séra Jón: Þér megið ekki halda að ég sé að biðja fulltrúa biskups að þegja. Ég held bara að orð orð orð og sköpun heimsins sé tvent ólíkt; tveir ósamrímanlegir hlutir. Ég sé ekki hvernig sköpunarverkinu verður breytt í orð; þaðanafsíður bókstafi; — varla einusinni lygasögu. Saga er einlægt eitthvað alt annað en það sem hefur gerst. Staðreyndirnar eru roknar frá þér áður en þú byrjar söguna. Saga er aðeins staðreynd útaf fyrir sig. Og því nær sem þú reynir að komast staðreyndum með sagnfræði, því dýpra sökkurðu í skáldsögu. Af því meiri varfærni sem þú útskýrir staðreynd, þeim mun marklausari fabúlu veiðirðu úr ginnúngagapi. Sama gildir um veraldarsöguna. Munurinn á sagnaskáldi og sagnfræðingi er sá að hann sem ég nefndi fyr lýgur vísvitandi að gamni sínu; sagnfræðíngurinn lýgur í einfeldni sinni og ímyndar sér að hann sé að segja satt.
Umbi: Ég bóka þá að öll saga, þarámeðal veraldarsagan, sé fabúla.
Séra Jón: Alt sem lýtur lögmálum fabúlunnar er fabúla.“

KST: Ég er alltaf hrifin af því þegar fólk blammerar sagnfræði. Einhvern veginn finnst mér eins og rithöfundar geri það oftar en aðrir, kannski af því að þeir hafa innsýn í alla þá pólitík sem liggur á bak við sköpun textans, eða finnst ekki jafn óþægilegt að gangast við henni og ýmsum öðrum - einfeldningunum, samkvæmt séra Jóni.

GEB: Þetta er svo dásamlega nútímalegt og póstmódernískt eitthvað. Ég veit að við hugsuðum báðar til ólíkra fræðitexta þegar við lásum þetta (bálreiðar yfir því að allt þetta fræðifólk hefði stolið frá nóbelsskáldinu okkar!) – mér var efst í huga hinn umdeildi Slavoj Žižek, sem segir einhvers staðar að það sé í raun aldrei hægt að miðla hinni „sönnu röð atburða“ án þess að fella hana í frásögn, sem er í eðli sínu ekki hlutlaus lýsing atburða eins og þeir áttu sér stað – í frásögn er alltaf einhverju sleppt, eitthvað sett í forgrunn, og svo framvegis. Žižek er auðvitað alls ekki sá fyrsti til að vekja máls á þessu. En mér finnst mjög kúl að Halldór hafi skrifað þetta árið 1968.

KST: Við sýnum þetta samhengisleysi náttúrulega í verki með Google Docs-skjalinu sem við skrifum þetta bókablogg í. Nú var ég til dæmis að enda við að bjóða þér góðan daginn í upphafi skjalsins þótt ég sé að öðru leyti komin inn í miðjar samræður.

GEB: Og mið nótt hjá mér! Hvað er eiginlega satt í þessu bloggi? (GEB tekur sér hlé og fer að sofa.)

KST: Það æxlaðist svo að ég las með stuttu millibili nú í sumar Kristnihaldið, sem kom út árið 1968, og Tómas Jónsson.  Metsölubók eftir Guðberg Bergsson, sem kom út tveimur árum áður, 1966. Það var mjög athyglisvert að lesa þessar bækur á sama tíma, og maður sér á samtímaumfjöllun í blöðum að þær hafa oft verið paraðar saman. Halldór var, öfugt við Guðberg, ekki að hefja sinn feril á þessum tíma heldur var hann orðinn Þjóðskáld en var á vissan hátt að endurnýja sig sem höfundur, og það virðist sem sumum lesendum hafi hreinlega fundist hann hafa brugðist sér, að hann væri hættur að skrifa um mannlegt hlutskipti og farinn að gera merkingarlaust og innihaldslaust grín.

Þessi gagnrýni á Kristnihaldið kom mér alveg í opna skjöldu, ég hefði aldrei lesið bókina á þennan hátt, en það segir kannski eitthvað um mína stöðu sem ungs lesanda árið 2013; Halldór var að koma mér þægilega á óvart þegar ég las Kristnihaldið, en ekki að bregðast mér. Ég er ekkert mótfallin því að lesa bækur félagslega og sögulega, það er auðvitað ekki hægt að slíta þær úr því samhengi, en félagsleg og söguleg staða Halldórs Laxness sem höfundar er svo hrikalega yfirþyrmandi að í hans tilfelli fannst mér ágætt að gleyma henni.

GEB: Einmitt! Í stað þess að halda í viðteknar og kannski gamaldags hugmyndir um það hvernig skáldsögur eiga að vera, ræðst Halldór í að „skrifa skáldsögu sem er eitt af meginverkum uppreisnarinnar gegn sagnahefð sem farið var að kenna æ meir við hann sjálfan“, svo ég grípi áhugaverða grein Ástráðs Eysteinssonar, „Í fuglabjargi skáldsögunnar“, sem birtist í Skírni 1993. Í stað þess að halda bara áfram að skrifa skáldsögur sem fólki þykir ábyggilega góðar – réttar, hafnar hann því að slíkar sögur séu í raun til, eins og Umbi segir í Kristnihaldinu:

„Allir fuglar eru kanski dálítið rángir, af því það hefur ekki fundist fullgild formúla að fugli í eitt skipti fyrir öll, á sinn hátt einsog allar skáldsögur eru vondar af því aldrei hefur fundist rétt formúla að skáldsögu.“ (24)

Umbi setur skáldsögur þarna frekar í flokk með fuglum en flugvélum þrátt fyrir að þær séu mannanna verk, vegna þess að vængir flugvéla „hlít[a] allir sömu formúlu“ (23), ólíkt fuglum og skáldsögum!

KST: Í Tómasi Jónssyni gerir Guðbergur einmitt grín að stíl ýmissa höfunda, þar á meðal Halldórs, og er þá að gera grín að þeirri sagnahefð sem Ástráður vísar til:

„Hún: Gísli.
Meira var stúlkunni um megn.
Hann svaraði og strauk kinn hennar blíðlega: Unnur, þótt ég sigri heiminn...
Nei, Gísli. Gleymskan mun gera þig frjálsan, greip hún fram í fyrir honum og reis upp í sigrandi stolti þeirrar konu, sem gefið hefur allt um vornótt. Vornóttin, hin stutta vornótt ásta þeirra var liðin inn í kyrran morguninn með vængbreiðum fuglum, sem flögruðu yfir lygnu fjarðarins. Harður raunveruleikinn skipaði sæti hennar í huga stúlkunnar.
Þau stóðu á bæjarhellunni, feimin við hvort annað eins og börn, bæði hlutlaus á ytra borði gagnvart kenndum sínum.“

 (Tómas, 85)

GEB: Þessi tilvitnun (e. quote) er alveg frábær!

KST: Áfram módernismi!

Engin ummæli: