20. nóvember 2012

Bókmenntir, brúður og leikhús

Þetta var einhverra hluta vegna fyrsta myndaniðurstaða
þegar ég gúglaði jólabókaflóðið.
Jólabókaflóðið lætur ekki að sér hæða. Ég reyni mitt besta til að fylgjast með úr finnskri fjarlægð, og í það minnsta er internetið morandi í útgáfufögnuðum, kápumyndum, bókadómum og sölutölum. Hérna megin hafs teygir flóðið sig auðvitað líka hvað lengst uppá land fyrir jólin; finnskar bækur, þýddar, barna- og allskonar. Undanfarið hef ég sankað að mér þýddum bókum í vaxandi mæli ‒ verandi hvort sem er ólæs á annað en norræn mál og ensku datt mér í hug að ég gæti sem best lesið franskar, þýskar eða rússneskar bókmenntir í finnskum þýðingum og æft þá finnskuna mína í leiðinni.

Um daginn var ég til dæmis að skoða nýja finnskuþýðingu á þremur leikritum eftir Federico García Lorca, en þetta var einmitt um sama leyti og við kórinn minn vorum að æfa kórverk með texta úr ljóði eftir þann sama Lorca. Síðastliðna helgi sá ég síðan brot úr finnskri uppsetningu á brúðuleikhúsverkinu Retablillo de Don Cristóbal, eftir hvern annan en hinn spænska Federico del Sagrado Corazón de Jesús García Lorca, og flaug þá í hug að alheimurinn væri hugsanlega að reyna að segja mér eitthvað með milligöngu skapbráðu, fjólubláu feltbrúðunnar sem svo þróttmikil sló sambrúður sínar eina af annarri í trékylft rot.
Allavega er Lorca eitt þessara skálda sem hljóma svo yfirmáta kunnuglega að mér finnst ég líklega þekkja verk þeirra mun betur en ég í raun geri ‒ af verkum Lorca þekki ég eiginlega afar fátt, ef nokkuð utan Húss Bernhörðu Alba (og jú, get núna sönglað ljóðabrot eftir hann á spænsku (og alveg næstum skilið þau líka)).

Verkið Nýjustu fréttir fjallar um áhrif frétta á líf okkar.
Í öllu falli finnst mér merkilegt að Lorca skuli hafa skrifað verk fyrir brúðuleikhús, eða kannski er það ekkert merkilegt í sjálfu sér, heldur frekar það að mér skuli finnast það eitthvað merkilegt. Mér finnst líka merkilegt hvað ég hef hingað til verið tiltölulega óafvitandi um brúðuleikhús yfirhöfuð, eða spáð í bókmenntalegt gildi þess ‒ sem það að sjálfsögðu hefur, rétt eins og „venjulega“ leikhúsið. Reyndar vill svo til að Turku, heimabærinn minn, er eina borgin á Norðurlöndum sem býður upp á háskólanám í brúðuleikhúsi. Í samræmi við það finnst hér nokkuð lífleg brúðuleikarasena og meira að segja árleg, alþjóðleg brúðuleikhúshátíð. Þetta er þó alltsaman nokkuð sem margir innfæddir borgarbúar eru alls óvitandi um og sjálf hef ég búið hér í þrjú ár án þess að hafa orðið sérstaklega vör við það, fyrr en núna um helgina þegar Sigga Sunna vinkona mín kom í bæinn með brúðuleikhóp til að sýna brot úr verki á fyrrnefndri hátíð (þess má geta að hún frumsýndi brúðuleikverkið Nýjustu fréttir í Reykjavík fyrr í haust, þá með öðrum leikhóp að nafni VaVaVoom, en meðal annars var fjallað um þá sýningu í Víðsjá).

Í stuttu máli er ég heilluð af því sem ég sá á þessari hátíð. Ég hef sennilega ekki séð brúðuleikhús að neinu ráði síðan í Brúðubílnum sælla minninga, og hefði kannski ekki trúað því að óreyndu að hin fullorðna ég gæti hrifist svona af góðum brúðuleik  ‒ enda er það fjarstæða að halda að þar sé almennt stílað eitthvað sérstaklega inn á börn, þó að rétt eins og í öðru leikhúsi séu auðvitað einnig reglulega sett upp verk ætluð börnum. Þótt brúðuleikhús hafi vissulega sín sérkenni til að bera virðast verkin geta verið nokkurnveginn eins fjölbreytileg og leikverk almennt; verkið hans Lorca er í erkitýpískari kantinum, með þremur mis-riddaralegum persónum að berjast um ástir einnar dömu, verk Siggu Sunnu og félaga er byggt á gróteskum málverkum danska listmálarans Michaels Kvium og einn finnskur hópur er að vinna að uppsetningu á Ofviðri Shakespeares, svo eitthvað sé nefnt.

Niðurstaða; alheimurinn fílar brúðuleikhús, það geri ég líka og mæli eindregið með að tékka á slíku þegar tækifæri gefst.

Engin ummæli: