27. júní 2012

Prinsessan sem átti 200 bækur

Á dögunum fæddist ný prinsessa hér í Svíþjóð, hennar konunglega hátign prinsessan Estelle Silvia Ewa Mary. Þegar Estelle litla var skírð nú í lok maí færði ríkisstjórnin henni að gjöf sérsmíðaðan bókaskáp með 200 barnabókum. Ekki var annað að sjá en vandað hefði verið til verksins. Skápurinn var hannaður með form hins sögufræga leikkofa í garðinum við Haga höll í huga og hann prýðir gyllt stjarna sem væntanlega vísar í nafn prinsessunnar. Bækurnar 200 voru valdar af kostgæfni, meðal annars af fulltrúa frá Svenska barnboksinstitutet. Skilyrðin voru þau að bækurnar væru allar fáanlegar í búðum í mars 2012 og væru þannig þverskurður af barnabókmenntum þess tíma fremur en safn kanónubókmennta. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að bækurnar í skápnum, líkt og sænsk barnabókaútgáfa almennt, endurspegli jöfn réttindi allra óháð kyni, aldri, trú og kynþætti. Þetta hljómar óneitanlega vel.

Nokkrum dögum eftir skírnina birti Dagens Nyheter hins vegar grein sem gefur aðra mynd af bókaskápnum góða. Greinin er skrifuð af þeim Marie Tomicic og Karin Salmson sem eru stofnendur forlagsins Olika förlag. Samkvæmt þeim eru bækurnar 200 ansi langt frá því að endurspegla samfélagið og fjölbreytileika þess. Samkvæmt útreikningum þeirra fer lítið fyrir minnihlutahópum á borð við innflytjendur, samkynhneigða, fatlaða eða Sama í bókaskápnum og þær spyrja hvers vegna ekki þyki vert að miðla myndum og frásögnum af þeim til ríkisarfans. Þær benda jafnframt á að söguhetjur bókanna séu í 40% tilvika strákar en aðeins 22% séu stelpur svo því fari fjarri að þær endurspegli jöfn réttindi kynjanna. Það að kynjahlutföll aðalpersóna séu jöfn í sænskum barnabókmenntum er reyndar mýta samkvæmt aðstandendum Olika förlag. Staðreyndin er víst sú að í myndskreyttum bókum fyrir yngri börn eru hlutföllin um það bil 58% strákar á móti 34% stelpum. Í unglingabókmenntum snúast hlutföllin við og þar eru 60% stelpur á móti 33% strákum. Þetta, benda þær á, megi ekki túlka sem leiðréttingu á kynjahlutfallinu heldur endurspegli aðeins þá staðreynd að þegar komið er upp í eldri aldurshópa lesi færri strákar bækur. Hátt hlutfall kvenpersóna sé því bara byggt á þeirri hugmynd að stelpur hafi ekki áhuga á að lesa bækur um stráka.


Að sjálfsögðu gefur Olika förlag sjálft út barnabókmenntir sem innihalda allt það sem bókaskáp prinsessunnar skortir. Þar er að finna grátandi pabba, prumpandi stelpur, hræddar hetjur, ástfangna afa, samkyhneigðar mömmur og krakka í hjólastólum. Markmiðið er að það sem brýtur gegn norminu sé eðlilegur hluti af frásögninni en ekki meginatriði hennar. Þannig er ekki einu sinni sagt sérstaklega frá því að Vilma í bókaflokknum Vilma & Loppan sé í hjólastól heldur kemur það óbeint fram í textanum þegar sagt er frá ævintýrum barnanna. Í viðtali í júlíhefti tímaritsins Mama segir Karin Salmonson að það sé mikilvægt að það sem falli utan við normið fái ekki bara að vera með á þeim forsendum að það sé öðruvísi heldur þurfi að sýna það sem sjálfsagðan hlut og þá kannski breytist og stækkar normið smátt og smátt.

Einhver stærri forlaganna virðast farin að taka mið af sömu stefnu og Olika förlag. Rabén & Sjögren hafa til að mynda nýlega gefið út tvær bækur eftir Piju Lindenbaum þar sem hefðbundnum kynhlutverkum er snúið á hvolf. Kenta och barbisarna fjallar um strák sem langar eiginlega mest að vera inni að leika með stelpunum í barbí og Lill-Zlatan och morbror raring sem hefur selst í yfir 70 þúsund einktökum og segir frá stelpu sem spilar fótbolta og samkynhneigðum móðurbróður hennar. Hvorug þeirra var þó með í bókaskáp prinsessunnar þótt þar hafi verið fjórar aðrar bækur eftir Lindenbaum.

Það er því ljóst að ríkisstjórnin hafði úr nógu að velja ef markmiðið með skírnargjöfinni var raunverulega að endurspegla sænskt samfélag. Hvort Estelle verður drottning fatlaðra, regnbogafjölskyldna og innflytjenda þrátt fyrir vankanta bókaskápsins kemur ekki í ljós fyrr en að nokkrum áratugum liðnum.

3 ummæli:

Eiríkur Örn Norðdahl sagði...

Kenta langar ekki HELST að vera inni að leika sér í Barbie – hann vill BÆÐI vera úti í fótbolta og inni í Barbie.

Guðrún Lára sagði...

Ah, takk. Svona er að skrifa um bækur sem maður hefur ekki lesið, bara lesið um.

Eiríkur Örn Norðdahl sagði...

Bókin endar minnir mig á því að allir (altso „öll“) fara út í sparikjólum að spila fótbolta.