29. júní 2012

Með skrýtna húfu og eldhúsið á baðinu

Stundum hefur maður bók innan seilingar árum eða áratugum saman áður en maður lítur í hana og uppgötvar hversu frábær hún er. Sem dæmi um slíka bók finnst mér ég verða að segja frá Det vokser ikke hvitløk på Skillebekk (1986) eftir Iben Sandemose. Þessi bók hafði verið uppi í hillu hjá mömmu í hátt í 25 ár áður en mér datt í hug að líta í hana. Fyrir mér var þetta bara einhver bók sem mömmu hafði verið gefin í Noregi og einhvern veginn hvarflaði aldrei að mér að lesa hana—fyrr en á síðasta ári að ég sat heima hjá mömmu og var að bíða eftir einhverju og hafði ekkert betra að gera. Í ljós kom að bókin er bráðskemmtileg.



Höfundurinn, Iben Sandemose (f. 1950), er fyrst og fremst myndlistarmaður og bókin ber þess glöggt merki, sneisafull af frábærum teikningum. Á hverri opnu er stór mynd öðrumegin og texti hinumegin. Í bókinni segir hún á gamansaman hátt frá bernsku sinni í skrýtnu gömlu húsi í Osló. Foreldrar hennar voru bæði listamenn og virðast hafa lifað hálfgerðu bóhemlífi. Pabbinn, Bjarne Sandemose, var uppfinningamaður og starfaði talsvert í kvikmyndageiranum. Hann mun eiga heiðurinn af mörgum munum sem gefur að líta í brúðumyndinni Flåklypa Grand Prix (1975), sem Íslendingar þekkja undir nafninu Álfhóll: Kappaksturinn mikli. Mamman, Sigrid Bryn, var dansari en virðist hafa fengist við ýmiss konar listsköpun líka. Tekjur heimilisins voru óstöðugar og oft var þá brugðið á það ráð að búa til hluti til að selja.

Sandemose rekur ævi sína aftur í frumbernsku og talar frá sjónarhóli barnsins og út frá minningum sínum. Hún segir frá búrinu sem hún var látin hírast í sem ungbarn, sem væntanlega er rimlarúm, og barnaheimilinu sem tók marga daga að ferðast til með lest þegar hún var þriggja ára og mamma hennar veiktist. Þar var hún, að eigin sögn, látin dvelja í einhver ár. (Hún segir svo að samkvæmt foreldrum hennar hafi barnaheimilið verið í Lillestrøm sem er rétt fyrir utan Osló og að hún hafi verið þar í þrjár vikur.) Hún segir frá hinum ýmsu herbergjum í húsinu og hve kalt hafi verið þar á veturna, frá ýmsu úr skólanum, frá ömmum sínum, heimasmíðuðum bíl, heimabruggi, eldsvoða, jólum og fleiri atburðum í lífi fjölskyldunnar. Allan tímann skín í gegn hvernig fjölskyldan hefur verið svolítið á skjön við samfélagið: Börnin læra um Guð og engla í skólanum en heima við eru trúarbrögð illa séð, pabbinn kann að sauma en mamman ekki og það þykir krökkunum í skólanum asnalegt því það eru mömmurnar sem eiga að sauma og svo er söguhetjan auðvitað í hópi þeirra barna í skólanum sem koma með kavíarsamlokur í nesti meðan börn frá vel stæðum heimilum koma með kjötálegg á sínu brauði. Söguhetjan upplifir sig greinilega sem svolítið utanveltu í samfélaginu, hennar fjölskylda er ekki venjuleg, þau eru ekki „almennilegt fólk“ og stundum er henni strítt fyrir að vera öðruvísi, en samt er hún að langmestu leyti hæstánægð með sitt fólk.
Hinn útsjónarsami faðir tengdi gúmmíslöngu
frá vélinni á heimasmíðaða bílnum yfir í
buxurnar sínar til að halda á sér hita á köldum
vetrardögum. Það þótti lögregluþjóni sem
stoppaði hann undarlegt.

Myndirnar eru nauðsynlegur hluti af öllu saman og alveg óborganlegar, margar hverjar.

Þótt frásögnin sé af barni og bókin full af skemmtilegum myndskreytingum er ég ekki viss um að rétt væri að flokka hana sem barnabók. Að minnsta kosti ætti hún alls ekki síður að höfða til fullorðinna. Bókin snertir við ýmsu í mér, kannski af því að sem listamannabarni finnst mér margt í upplifunum söguhetjunnar kunnuglegt. Ég finn þarna þessa sömu togstreitu og ég kannast svo vel við sjálf, togstreitu barnsins sem að sumu leyti þráir að eiga heimili eins og „venjulega“ fólkið með storrisa fyrir gluggum, postulínsstyttur í hillum og litasjónvarp á sínum stað í stofunni, frekar en rætur hangandi í gluggunum, heimatilbúna lampaskerma og grafíkpressu á miðju stofugólfi, en sem þegar til kæmi vildi ekkert hafa hlutina neitt öðruvísi en þeir eru.

Engin ummæli: