30. maí 2012

Ljúfir en dálítið klisjukenndir söngvar

Hin sívinslælu sænsku smá-jarðaber
Ég ljúfa vil þér syngja söngva er fyrsta skáldsaga sænsk-nýsjálenska rithöfundarins Lindu Olsson. Það er best að taka það strax fram að þetta er dramatísk ef ekki hreinlega tragísk fjölskyldusaga – eða sögur. Frásögnin hverfist um tvær konur sem koma óvænt inn í líf hvor annarrar þegar önnur – hin unga Viktoría – leigir næsta hús við afskekktan bæ hinnar öldruðu Astridar einhvers staðar í sænskri sveit. Þótt þær virðist við fyrstu sýn afskaplega ólíkar kemur fljótlega í ljós að þær eiga það sameiginlegt að hafa snúið baki við lífinu eftir mikla sorg og þessi sorg bindur þær ákveðnum böndum.


Viktoría er rithöfundur og hún er komin í þetta hús bæði til að jafna sig á missi og reyna að skrifa skáldsögu. Hún fer svo smám saman að fylgjast með þessum einangraða nágranna sínum sem bæjarbúar kalla norn og óhjákvæmilega liggja leiðir þeirra saman. Konurnar tvær kynnast svo smám saman og hjálpa hvor annari að sætta sig við orðinn hlut, kveðja fortíðina og byrja aftur að lifa. Um leið og þær fara að trúa hvor annarri fyrir leyndarmálum sínum og sorgum kynnist lesandinn þeim sömuleiðis.

27. maí 2012

„Ég skrifa móður mína í sundur, eyði setningunum um föður minn ‒ það er fyrst nú sem ég get staðið upp og farið mína eigin leið...“


Ég hef stundum furðað mig á kenningum kristninnar um erfðasynd: að börn séu brotleg frá fyrstu stund gagnvart æðra máttarvaldi, samsek í syndum mannkynsins og skuli upp frá því vinna markvisst í yfirbót. Kannski þetta sé eitthvað skiljanlegra fyrir kaþólikkunum með sín aflátsbréf og sálnafyrirbænir ‒ Lúther hafði jú af okkur hreinsunareldinn, þar með viðskiptafaktorinn og gerði ferlið allt svarthvítara og ósveigjanlegra. En sem ég nú velti þessu fyrir mínu trúlausa sjálfi finnst mér augljóst að möguleikinn á raunverulegri erfðasynd felist í þeirri arfleifð genasamsetningar og ytri aðbúnaðar sem foreldrar okkar létu okkur eftir og kunna að móta okkur varanlega, hvort sem er til hins betra eða verra.

Sögumaður bókarinnar Allt er ást (Och allt skall vara kärlek) eftir Svíann Kristian Lundberg lítur svo á að hann, sem sjálfur er bæði faðir og sonur, hafi fæðst „inn í sjúkdóm og stétt“ (43); yfirgefinn af áfengissjúkum föður og uppalinn af geðveikri móður í lágstéttar-innflytjendahverfi í Malmö. Höfundur vann til bókmenntaverðlauna sænska ríkisútvarpsins 2012 fyrir bókina, sem kom nýlega út hjá Bjarti í aldeilis fínni þýðingu druslubókadömunnar Þórdísar Gísladóttur (sem hefur fjallað um Lundberg, og lítillega um þessa bók, í fyrri pistli hér á síðunni).


24. maí 2012

Skáld og draugar í Lissabon

Saramago á gæðastund í garðinum.
Það hljómar ef til vill eins og einhver tegund masókisma að fyrsta bókin sem ég tók upp eftir að ég lauk þessari hrútleiðinlegu ferðabók eftir José Saramago (en kiljan sú hefur síðustu vikur þjónað þeim tilgangi að drepa ógeðslegar pöddur sem fylgdu vorinu í Lissabon) hafi verið önnur bók eftir sama höfund, Árið sem Ricardo Reis dó (O ano da morte de Ricardo Reis). Hana hafði ég hins vegar lesið áður og vissi því að hverju ég gekk, en af þeim þremur bókum sem ég hef lesið eftir Saramago er ég langsamlega hrifnust af henni. Blinda fannst mér fín en grundvallarkonseptið í henni var svo fyrirferðarmikið, það féllu öll vötn til blindunnar; í Árinu sem Ricardo Reis dó er sagan lausari í reipunum og höfundurinn leyfir sér fleiri ólíkindalega og ánægjulega útúrdúra.

Lesendur portúgalska ljóðskáldsins Fernando Pessoa kannast eflaust flestir við nafn Ricardo Reis. Eins og hæfir manni sem varð svo tíðrætt um sjálfið átti Pessoa sér fjölmörg yrkjandi hliðarsjálf sem hann gaf nöfn, persónueinkenni og æviatriði. Eitt af frægustu hliðarsjálfum hans var læknirinn Ricardo Reis, sem skrifaði löng, heimspekileg ljóð, en hann er aðalsöguhetjan í þessari skáldsögu Saramago. Hún gerist í Lissabon frá því í desemberlok 1935 fram á sumarið 1936, og hefst þar sem Ricardo Reis kemur siglandi frá Rio de Janeiro með gufuskipinu Highland Brigade eftir sextán ára dvöl í Brasilíu, en honum hafa borist þær fregnir að Fernando Pessoa sé látinn.

Þegar Ricardo Reis kemur til Lissabon sest hann að á Hótel Bragança. Hann hrífst af Marcendu, lögfræðingsdóttur með visinn handlegg sem dvelur á hótelinu meðan hún leitar sér lækninga í borginni, en byrjar á sama tíma að sofa hjá Lídiu, þjónustustúlku á hótelinu. Stuttu eftir að hann kemur til borgarinnar byrjar draugur Fernando Pessoa einnig að heimsækja hann frá sínum nýja dvalarstað í Prazeres-kirkjugarðinum. Eftir þriggja mánaða dvöl er Ricardo Reis kallaður í dularfulla yfirheyrslu hjá lögreglunni og eftir það virðist sem honum sé fylgt eftir af lögreglumanninum Victori, en af honum er svo megn lauklykt að hann verður að gæta sín á að haga staðsetningu sinni eftir vindátt svo þeir sem hann veitir eftirför þekki hann ekki á lyktinni. Eftir samskipti sín við lögregluna er Ricardo Reis ekki lengur vært á hinu virðulega Hótel Bragança svo hann leigir sér íbúð með húsgögnum og um tíma leysir hann af hjartalækni í nágrenninu. Hann íhugar ýmsa möguleika; að snúa aftur til Brasilíu, að koma sér upp læknastofu í Lissabon, en smám saman sekkur hann niður í nær algjört aðgerðaleysi, lokar sig af í íbúðinni og sefur heilu og hálfu dagana.

19. maí 2012

Hvernig tengjast Vilhjálmur Tell, Jack Lemmon og Bubbi Morthens?

Um síðustu helgi fór ég alla leið til Akureyrar til að kaupa bækur. Nei, annars. En ég var stödd á Akureyri og brá mér á flóamarkað þar sem ég keypti nokkrar bækur á 100 krónur stykkið og ég er hæstánægð með kaupin. Fyrst ber að nefna Síðustu daga móður minnar eftir Sölva Björn Sigurðsson. Þar sem ég hef ekki lesið hana ennþá hef ég svo sem ekkert um hana að segja nema að ég hlakka til að lesa hana. Svo er það Leyndarmál franskrar salatsósu opinberað Íslendingum eftir Héléne Magnússon, sem er ekki síður þekkt fyrir prjónahönnun sína. Ég er búin að fletta henni og líst vel á salatsósurnar. Líklega verð ég að leggjast í salatræktun í sumar til að ná að prófa þær allar. Þjóðsögur frá Eistlandi vakti athygli mína vegna þess að hún er í alveg eins kápu og bók sem ég átti sem krakki sem hét Finnsk ævintýri. Þá bók hélt ég talsvert upp á en veit ekkert hvað varð af henni. Við eftirgrennslan fann ég út að þessar bækur eru báðar gefnar út af Leiftri á 8. áratugnum, íslenskaðar af Sigurjóni Guðjónssyni.

18. maí 2012

Börn og menning

IBBY (skammstöfun fyrir International Board on Books for Young People) er alþjóðlegur félagsskapur áhugafólks sem vill efla barnamenningu, ekki síst með útbreiðslu vandaðra bóka fyrir börn og unglinga. Á Íslandi er starfandi öflug IBBY-deild, sem stendur fyrir fjölbreyttum viðburðum tengdum barnamenningu. IBBY á Íslandi er aðili að nýstofnuðu barnabókasetri við Háskólann á Akureyri, samtökin veita árlega svokallaðar Vorvinda-viðurkenningar fyrir barnamenningarstarf og einnig veitir IBBY á Íslandi reglulega verðlaunin Sögustein, einhverjum þeim sem auðgað hefur íslenskar barnabókmenntir með höfundarverki sínu. Þá gefa IBBY-samtökin á Íslandi út tímaritið Börn og menning, sem er veglegt alþýðlegt fræðirit og eina íslenska tímaritið sem fjallar eingöngu um barnamenningu, en blaðið kemur út vor og haust. Fyrir nokkrum dögum kom vorhefti Barna og menningar 2012 inn um lúguna og þar er fullt af áhugaverðu efni. Framan á blaðinu er mynd eftir bandaríska myndabókahöfundinn Richard Scarry sem kallast á við grein Sölku Guðmundsdóttur inni í blaðinu undir yfirskriftinni „Vaknað í Erilborg“. Þar koma persónur Scarrys mjög við sögu ásamt ættingjum þeirra úr Næturbók Mauri Kunnas og persónum úr ýmsum öðrum gamalkunnum barnabókum.

16. maí 2012

Næstbesti bloggari í heimi skrifaði líka bók, sem ég las

Jenny Lawson - The Bloggess
Jenny Lawson er betur þekkt sem The Bloggess og hún er næst uppáhalds (eða segir maður næst mest uppáhalds?) bloggarinn minn. (Ég skal skrifa um uppáhaldsbloggarann minn seinna).

Hún skrifar á Thebloggess.com og er ein af vinsælustu bloggurunum í Bandaríkjunum. Meðal aðdáenda hennar eru Obama, Oprah, Neil Gaiman og skrilljón billjón fleiri. Hún er svolítið biluð, þjáist af gigt, félagsfælni og þunglyndi, hefur mikinn áhuga á uppvakningum og uppstoppuðum dýrum í búningum (en gætir þess samt að kaupa bara uppstoppuð dýr sem létust af náttúrulegum orsökum) og hún býr í Texas.

13. maí 2012

Leggðu þig á diskinn. Bíddu

Kæru lesendur, ég bara veit að þið hafið verið að spyrja ykkur: hvernig lítur bókamarkaðurinn í Perlunni út annars staðar? Og nú get ég sagt ykkur – og sýnt ykkur – hvernig hann lítur út í Lissabon, því ég fór þangað um síðustu helgi. Og tók MYNDIR. Bókamarkaðurinn í Lissabon er ekki haldinn í Perlunni heldur í almenningsgarðinum Parque Eduardo VII. Sem almenningsgarður er hann ekki alveg að mínu skapi - of mikið af gangstéttum - en það fer ágætlega á því að halda bókamarkað þar. Ekki er markaðurinn einungis úti undir beru lofti, sem er huggulegt hér þar sem vorhretin eru sjaldgæfari, heldur er hægt að kaupa sér bæði kebab og bjór meðan maður röltir milli bása – nokkuð sem vantar sárlega á bókamarkaðinn í Perlunni.
Í Parque Eduardo VII.

Bók bókanna þarf auðvitað sérstakan bás.
Ég staldraði ekki mjög lengi við á markaðnum í þetta sinn því ég var á leiðinni í bíó og þurfti að koma við í eina stórmarkaðinum í borginni sem selur salsasósu. Ég notaði hins vegar tækifærið til að kaupa mér á afsláttarverði bók sem ég hef haft augastað á um hríð; safn ljóða frá 8. áratugnum eftir Alexandre O´Neill, Anos 70. Poemas dispersos. Ég keypti mér reyndar heildarsafnið hans um daginn, þessi ljóð eru bastarðar sem komust ekki í heildarsafnið, en bókin var samt eitthvað svo aðlaðandi og í hvert sinn sem ég opnaði hana af handahófi lenti ég á einhverju skemmtilegu, þannig að ég ákvað að kaupa hana bara líka. Báðar eru bækurnar gefnar út af forlaginu Assírio & Alvim, sem hafa sent frá sér töluvert af bókum eftir merk portúgölsk ljóðskáld í mjög fallegum útgáfum.

12. maí 2012

Land hinna ókláruðu bókaflokka

Ég verð enn þann dag í dag reið þegar ég hugsa
um svik Ríkissjónvarpsins sem hætti að sýna
Þrífætlingana
Fyrir tíma internetsins voru svo margar dyr lokaðar þegar mann þyrsti í fróðleik og alls kyns ítarupplýsingar, sérstaklega búandi hér á lítilli eyju úti í ballarhafi. Maður las eitthvað/sá eitthvað/heyrði eitthvað sem maður vildi vita meira um en möguleikarnir voru takmarkaðir. Ef hætt var útgáfu eða sýningum á einhverju var lítið hægt að gera annað en engjast um í frústrjasón (Þrífætlingarnir, anyone?!?) og ég man ennþá þunglyndistilfinninguna sem helltist yfir mig þegar eitthvað bara gufaði upp þannig að maður fékk aldrei að vita um afdrif persónanna.

Það var einstaklega blóðugt þegar hætt var útgáfu á bókaflokki eftir eina eða tvær bækur. Þetta gerist auðvitað ennþá (mér berast t.d. enn símtöl þar sem börn, unglingar eða foreldrar spyrja eftir framhaldi á bókaflokki Michelle Paver, Sögur úr myrkum heimi, en ég þýddi fyrstu tvær bækurnar úr þessum spennandi flokki fyrir nokkrum árum) en nú er allavega sá möguleiki fyrir hendi að afla sér upplýsinga um bækurnar á öðru máli og lesa þær þannig, eða ákveða að lesa þær síðar meir. Einhver sárustu vonbrigðin af þessum toga sem ég man eftir tengjast bókinni Ráðgátan eftir enska höfundinn Susan Cooper, en bókin kom út í þýðingu Ingólfs Jóhannessonar árið 1990 hjá forlaginu Líf og saga. Þessa bók las ég, þá níu ára gömul, og beið ógurlega spennt eftir framhaldi sem aldrei kom. Nota bene var Ráðgátan mjög greinilega bara fyrsta bókin af nokkrum - ýmislegt var óleyst og bókin endaði á einhvers konar cliffhanger ef ég man rétt. Nú veit ég ekki hvað varð til þess að framhaldið kom aldrei út; kannski fór forlagið á hausinn, kannski seldist bókin ekki neitt? En allavega voru þetta mér gríðarleg vonbrigði og ég man hvað ég var innilega reið yfir því að svona væri komið fram við lesendur, og ég fylltist vonleysistilfinningu um að ég myndi aldrei, aldrei fá að vita hvernig hin stóra ráðgáta leystist.



Susan Cooper á töff degi
Ég mundi skyndilega eftir þessari bók um daginn og ákvað að leggjast í smávegis gúggl. Ég mundi hins vegar ekki hvað hún hét á íslensku þannig að ég sló upp einhverju á borð við "british children's book holy grail" - en ráðgátan í bókinni snerist einmitt um hinn helga gral og einhvers konar kort af mögulegum felustað hans. Þetta höfðaði afskaplega vel til hinnar níu ára gömlu Sölku; ég var spennt fyrir öllu sem tengdist Artúr konungi, goðafræði var í uppáhaldi og öll ráðgátuelement féllu mér vel í geð. En semsagt, eftir stutta leit fann ég hinn helga gral - það er að segja nafn þessa bókaflokks og höfundarins Susan Cooper. Kæra net, þú ert tímasuga hin mesta en á svona stundum svo ósegjanlega fullnægjandi.

11. maí 2012

Bókasöfn í fæðingarorlofi

Þegar kemur að pistlum um Bókasöfn á gististöðum hefur fjarvera mín – eða öllu heldur þögn - verið æpandi. Þessi þögn skrifast bæði á framtaksleysi mitt og bókaleysi gistastaðanna. Síðast fór ég norður til Akureyrar nú í mars og gisti á KEA en þar var enginn bókakostur fyrir utan eitt stykki Biblíu sem var á botninum í fataskápnum (þótt Biblían sé auðvitað efni í pistil - eða jafnvel pistlaröð í sjálfu sér). Síðsta sumar dvaldist ég raunar í heimahúsi í Barcelona þar sem var mikið af bókum bæði á spænsku og íslensku en ég var svo niðursokkin í mínar eigin bækur að ég hreinlega steingleymdi að gefa gaum að þessu safni – mér til varnar var það alltof stórt til að ég hefði getað gert því nokkur skil í stuttum pistli hvort eð er. Svo gisti ég nokkrar nætur á sængurkvennadeild Landspítalans fyrir jólin en inni á stofunni minni var nú lítið um bækur – frekar svona bæklingar um hitt og þetta sem viðkemur meðgöngu og fæðingu – en þótt þar hefði verið glæsilegt bókasafn gafst mér svo sem ekki mikill tími til yndislestrar.

10. maí 2012

Frelsi og ást

Svikari í gær, svikari í dag, ávallt svikari!
Kúbanski rithöfundurinn Reinaldo Arenas er sennilega þekktastur fyrir sjálfsævisögu sína Antes que anochezca (Before Night Falls), sem kom út að höfundinum látnum árið 1993. Julian Schnabel gerði samnefnda mynd eftir bókinni árið 2000 þar sem mesta glæsimenni samtímans, Javier Bardem, fór með hlutverk Arenas. Myndin var fín en bókin er ennþá betri; áhrifarík, pólitísk, ljóðræn frásögn sem ég mæli eindregið með.

Lífshlaup Reinaldo Arenas var að mörgu leyti þyrnum stráð. Hann fæddist á kúbönsku landsbyggðinni árið 1946 og ólst upp á búgarði móðurafa síns, en faðir hans hafði stungið móður hans af eftir að hún varð ólétt. Sem unglingur gekk Arenas í lið með sveitum Fidel Castro og fluttist til Havana. Hann sneri hins vegar baki við hugmyndafræði og stjórnarfari Castro, eins og fleiri kúbanskir rithöfundar, meðal annars vegna þess að samkynhneigð hans var eitur í beinum kommúnistastjórnarinnar. Í kjölfarið mátti hann þola pólitískar ofsóknir, sat í fangelsi, leið fátækt og heimilisleysi, þurfti að smygla bókum sínum úr landi og fékk þær ekki útgefnar á Kúbu. Árið 1980 slapp hann til Bandaríkjanna með Mariel-flóttanum svokallaða og átti ekki afturkvæmt til heimalands síns. Hann smitaðist af HIV og framdi sjálfsmorð í New York árið 1990, þá veikur af alnæmi.

9. maí 2012

Grafísk skáldsaga um bókmenntir og dauða

Áhugafólk um kvikmyndir og/eða femínisma ætti að kannast við nafn Alison Bechdel en við hana er kenndur svonefndur Bechdel-staðall (stundum nefndur Bechdel/Wallace-staðall), ætlaður til að mæla hvort kvikmynd standist lágmarkskröfur um frambærilega kvenkaraktera. Kröfurnar eru ekki harðari en svo að í myndinni þurfa að vera 1) minnst tvær nafngreindar kvenpersónur 2) sem eiga samskipti sín á milli 3) um eitthvað annað en karlmenn – en þó er reyndar ótrúlegt hve margar kvikmyndir af öllu tagi skítfalla á þessu þegar að er gáð. Það var reyndar ekki Bechdel sjálf sem fann upp á staðlinum heldur Liz nokkur Wallace, en Bechdel varð til þess að vekja á honum athygli í myndasögunni Dykes To Watch Out For (19832008). Hana hef ég ekki lesið en lauk nýlega við aðra myndasögu eftir Bechdel, sú er sjálfsævisöguleg og ber heitið Fun Home – A Family Tragicomic (2006). („Myndasaga“ er dálítið vandasamt orð; nær einhvernveginn ekki alveg jafn langt og graphic novel, sem mér finnst lýsa umræddum geira mjög vel. Semsagt grafísk skáldsaga. DTWOF er aftur svonefnt comic strip.)

Að vera í London en sjá ekki Big Ben

Það getur verið gaman að lesa bækur í öfugri röð, byrja kannski á nýjustu bók höfundar og vinna sig svo aftur á bak að þeirri fyrstu. Þannig getur maður oft rakið ýmsar hugmyndir sem spíra í gegnum höfundarverkið niður í fræin sem þau voru í byrjun. Ég er einmitt nýbúin að upplifa þetta þegar ég las Nöfnin á útidyrahurðinni, fyrsta hreinræktaða prósaverk Braga Ólafssonar.

Nöfnin á útidyrahurðinni kom út árið 1996 og í henni er að finna 25 texta sem geta ýmist kallast smásögur eða prósaljóð. Þremur árum síðar kom svo fyrsta skáldsaga Braga, Hvíldardagar út. Skáldsögurnar eru síðan orðnar fimm (auk fleiri ljóðabóka, prósatexta og leikrita) og mér fannst sem sagt eins og ég kæmi auga á ýmsa drætti úr þeim í þessari gömlu bók.
Ég þykist til dæmis þekkja Hvíldardaga í sögunni „Fyrstu skrefin“. Hún greinir frá samtali manns og konu í samkvæmi nema hvað konan er alls ekki á staðnum og samtalið á sér bara stað í huga mannsins. Hin ónafngreinda söguhetja Hvíldardaga lifir einmitt æsispennandi innra lífi og í huganum á hann meðal annars í samböndum við nokkrar ungar konur en veruleiki hans er öllu einfaldari. Frummynd annarrar skáldsögu Braga, Gæludýranna finnst mér ég svo sjá í sögunum þremur undir yfirskriftinni „Breytt um umræðuefni“. Þar er sagt frá félögum sem taka að sér að gæta íbúðar móður annars þeirra en ferst verkefnið ekkert séstaklega vel úr hendi. Lesendur Gæludýranna kannast væntanlega við þetta en aðalpersónur hennar, þeir Emil og Hávarður, gættu einmitt íbúðar og gæludýra í London með frekar hörmulegum afleiðingum. Tengslin milli Nafnanna á útidyrahurðinni og Gæludýranna liggja reyndar víðar. Í Nöfnunum er til að mynda minnst á bæði Moby Dick og Elvis Presley en hvort tveggja kemur nokkuð við sögu í skáldsögunni. Það má líka sjá ýmsa fyrirrennara nýjustu söguhetja Braga, þeirra úr Sendiherranum og Handritinu að kvikmynd Arnar Featherbys og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson, í Nöfnunum á útidyrahurðinni. Hannes í „La fête continue“ minnir til að mynda óneitanlega á félagana Örn og Jón. Líkt og þeir er hann hálfgerður kverúlant, kominn yfir miðjan aldur, drekkur meira en góðu hófi gegnir (eins og reyndar fleiri persónur Braga) og í stað þess að sinna vinnu eða fjölskyldu virðist hann beina metnaði sínum í að rannsaka ýmsa menningarafkima. Feðgarnir Magnús Leifsson og Leifur Magnússon í sögunni „Feðgarnir“ og samskipti þeirra milli landa bera keim af Jóni Magnússyni og syni hans Sturlu Jóni Jónssyni. Í „Feðgunum“ kemur líka fyrir eins konar illur tvífari en tvífaraminni má víða sjá í höfundarverki Braga og nægir þar að nefna Friðbert í Samkvæmisleikjum og misyndismanninn Jón Víði sem báðir eru prentnemar, hafa búið í sömu íbúð, bera svipuð ör í andlitinu og reynast svo, þegar allt kemur til alls, hafa svipaðan mann að geyma.

4. maí 2012

Frumur Henríettu

Þegar ég var barn var Nýjasta tækni og vísindi einn af mínum uppáhaldsþáttum í íslensku sjónvarpi. Ég sat sem límd fyrir framan skjáinn meðan Sigurður H. Richter leiddi áhorfendur í allan sannleika um nýjustu uppgötvanir í stjörnufræði og vélmennaþróun. Svo ekki sé talað um hina árlegu keppni verkfræðinema sem snerist í minningunni alltaf um það að útbúa einhverskonar farartæki sem gæti ferjað appelsínu ákveðna leið. Ég vona að keppnin snúist enn um appelsínur en ég hef því miður ekki fylgst með í ein tuttugu ár. Nýjasta tækni og vísindi var að mínu viti alltof stutt prógramm í hvert sinn og það dimmdi yfir tilverunni í hvert sinn sem Sigurður kvaddi með orðunum „þá er ekki fleira í þættinum að sinni, veriði sæl.“ OK kannski er ég aðeins að ýkja þessa botnlausu hrifningu mína, en þó ekki. Framtíðin virtist bera í skauti sér svo margt magnað og tryllt – hugviti mannsins virtist engin takmörk sett og ég beið spennt eftir því sem koma skyldi. Ég sá fyrir mér að í náinni framtíð myndi hvert heimili hafa sitt eigið vélmenni sem sinnti leiðinlegum húsverkum – tæmdi kattasandinn, færi út með ruslið og vaskaði upp. Að einhverju leyti gengu þessir draumar mínir eftir því við fjölskyldan eignuðumst uppþvottavél snemma á tíunda áratugnum sem enn í dag sinnir sínu hlutverki ágætlega. Að því slepptu er ég ekki viss um að vangaveltur mínar hafi verið í tengslum við þann raunveruleika sem við erum stödd í dag. Ég hugsaði t.d. ekki um eitt mjög mikilvægt atriði – nefnilega þá staðreynd að það er miklu auðveldara fyrir okkur sem lifum í velmegun á Vesturlöndum að notast við ódýrt vinnuafl frá öðrum heimshlutum. Það borgar sig ekkert að vera að dekstra vélmenni þegar þú getur fengið þér alvöru þræl. En um það mun ég fjalla síðar þegar ég blogga um frábæra bók sem nú liggur á náttborðinu, The Slave next Door. Human trafficking and slavery in America today.

Ég hef enn töluverðan áhuga á nýjastu tækni og vísindum, kannski þó undir frekar neikvæðari formerkjum en þegar ég var barn. Einkum hefur þessi áhugi minn undanfarin ár beinst að lífvísindum og ég hef töluvert lesið höfunda sem horfa á þetta svið gagnrýnum augum. Ég bloggaði til dæmis um eina af mínum uppáhaldsbókum, Letter to D fyrir nokkrum mánuðum en André Gorz er þekktur fyrir skrif sín um læknisfræði nútímans og ástarbréfið kemur töluvert inn á það. Þetta er raunar töluvert vinsæl grein hér Vestanhafs - bækur sem skoða lyfjaiðnað, læknisfræði og fleiri svið gagnrýnum augum. Þær eru auðvitað misjafnar, og samsæriskenningarnar keyra stundum um þverbak en mér finnst þetta spennandi og þarft og reyni að fylgjast með því helsta í útgáfu í þessum flokki.

3. maí 2012

Af leslistanum langa

Garnsafnið mitt er reyndar ekkert miðað við þetta. Sjá hér
Líkt og flestir sem ég þekki er ég þjökuð af stressi og samviskubiti yfir öllu því sem ég kem ekki í verk þrátt fyrir fullan vilja og löngun. Ég á matreiðslubækur fullar af uppskriftum sem ég kem aldrei í verk að prófa og eitthvað svipað gildir um uppskriftir í prjónabókunum mínum, svo ekki sé minnst á allar uppskriftirnar á netinu og allt sem mig langar að prófa mig áfram með sjálf. Ég á birgðir af garni sem ættu að geta dugað síprjónandi (sem ég er svo sannarlega ekki þessa dagana) manneskju í einhver ár, flíkur í poka sem ég ætla einhvern tímann að laga og breyta, hálffulla óhreinatauskörfu af fötum sem þarf að handþvo (og sem hafa verið þar líklega síðan fyrir hrun), geisladiska í stöflum sem ég gleymi að hlusta á, dvd-diska sem ég á eftir að horfa á og svo eru það allar bækurnar. Já, þessar ólesnu. Fleiri Druslubókadömur hafa gert ólesnar bækur að umtalsefni, til dæmis Salka og Erna.

Samviskubit eða óþreyja vegna ólesinna bóka virðist hrjá flesta þá sem áhuga hafa á bókum. Sólarhringurinn er hreinlega ekki nógu langur til að hægt sé að komast yfir að lesa allt sem skemmtilegt og/eða gagnlegt og/eða forvitnilegt væri að lesa og mörgum hættir til að vera helst til bjartsýnir í að áætla lestrartíma sinn fram í tímann og útvega sér mun fleiri bækur en þeir komast svo yfir að lesa. Stundum hef ég heyrt fólk segja að það sé eitthvað svindlkennt við að vera með ólesnar bækur uppi í hillu því þá gefi maður í skyn að maður hafi lesið ýmislegt sem maður hefur svo bara ekkert lesið. Ég vil meina að þeir sem halda þessu fram geti varla verið mikið bókaáhugafólk. Þegar ég sé vel búnar bókahillur hvarflar ekki að mér eitt augnablik að eigandinn hafi lesið allar bækurnar. Áður fyrr þegar fólk eignaðist fáar bækur kann það að hafa átt við að það læsi allar bækurnar sínar og mig minnir reyndar að ég hafi lesið flestar bækurnar mínar þegar ég var barn.

Sem sagt tel ég það ljóst að ég mun aldrei lesa allar bækurnar mínar, hvað þá allar hinar bækurnar sem mig langar að lesa sem ég hef látið vera að reyna að eignast vegna þess að þær eru auðfengnar á bókasöfnum. Samt finnst mér alltaf spennandi að eignast nýjar bækur; nýrri bók fylgja einhver fyrirheit og spenna. Í gær sótti ég tvær á pósthúsið sem ég hafði pantað og á reyndar von á fleirum. Önnur heitir New Waves in Metaphysics og ég er reyndar þegar byrjuð á henni og búin að lesa eina grein. Hin heitir Out from the Shadows. Analytical Feminist Contributions to Traditional Philosophy. Núna á næstunni þarf ég líka að endurlesa eða rýna betur í bækur sem ég hef þegar lesið auk þess sem ég þarf að líta á sem ég á eftir að lesa. Og svo reyni ég að laumast í það sem ég les mér til ánægju. Reyndar á þetta tvennt til að renna saman; margt af því sem ég les fellur (sem betur fer) bæði í flokk þess sem ég les vegna vinnu og þess sem ég les mér til ánægju en svo er sumt sem fellur bara í annan flokkinn. Meðal þeirra bóka sem eru í lesstaflanum um þessar mundir má nefna (auk þessara tveggja nýju) After Finitude, Making the Social World, Sexual Solipsism, Primary and Secondary Qualities, Truth Matters, The Grand Design og The Dispossessed. Já, ég geri mér grein fyrir því að þetta er allt á ensku og bara ein skáldsaga í bunkanum. Best að ég reyni að bæta úr því og nái mér í einhverja af ólesnu íslensku skáldsögunum sem eru til í hillunum hjá mér.

Fjórar konur og kaffihús

Það er rétt rúm vika síðan hér birtist viðtal við Sólveigu Jónsdóttur, sem nýverið sendi frá sér sína fyrstu skáldsögu, Korter. Þegar ég sendi henni spurningarnar var ég ekki búin að lesa bókina en hlakkaði mikið til þess. Nú er ég búin að lesa hana, og sé að ég hefði kannski átt að senda henni öðruvísi spurningar.

Ég spurði hana nefnilega svolítið mikið útí skvísubókastimpilinn, því undir þeim formerkjum hefur verið fjallað um bókina og kápan hefur greinilegar skírskotanir til skvísubókahefðarinnar. En ég er ekki alveg sannfærð um að innihaldið gefi endilega tilefni til þess. Bókin hverfist vissulega um konur á þrítugsaldri, en hinn steríótýpíski vinkvennahópur og neyslumenningin, sem oft er talin eitt af einkennum hefðarinnar, er víðsfjarri. Engin af konunum kaupir sér föt, varaliti eða hælaskó á frásagnartímanum. Þær eru frekar í því að nurla saman fyrir skoti á barnum, draga gamla kjóla upp af gólfum og dusta af þeim rykið eða lufsast um með skítugt hár og syrgja.