9. desember 2011

Fegurð og forgengileiki í „Farandskuggum“

Hingað til hef ég aðallega tengt Úlfar Þormóðsson við hnausþykka sögulega doðranta eins og skáldævisögu hans um Hallgrím Pétursson en eins og segir réttilega á bókarkápu þá kemur nýjasta verk hans, Farandskuggar, á óvart.

Þetta er örstutt bók og textinn almennt mjög knappur en þeim mun meira liggur milli línanna svo hún er lengri – eða í öllu falli meiri en summa blaðsíðanna segir til um. Farandskuggar er ljóðræn en um leið mjög aðgengileg og auðlesin (alltaf finnur maður sig knúinn til að taka fram að ljóðrænar bækur séu ekki torræðar eða tilgerðarlegar eins og það sé eitthvað einkenni á ljóðum).

Sögumaður rekur lífshlaup móður sinnar – eða öllu heldur reynir að púsla því saman úr minningarbrotum og hálfkveðnum vísum. Þetta er þó alls ekki ævisaga í hefðbundnum skilningi – sögumaður heimsækir móður sína á elliheimili og þegar hann nær sambandi við hana (sem er ekki alltaf) reynir hann að spyrja hana út í atburði liðinna tíma en dregur jafnframt upp myndir úr æsku sinni. Úr þessum brotakenndu minningum skýrist smám saman myndin af móðurinni þótt hún verði alltaf ófullkomin og óskýr – bæði fyrir sögumann og lesanda. Brotin draga auðvitað ekki bara upp mynd af móðurinni heldur er þetta ansi mögnuð lýsing af Íslandi liðinna tíma með tilheyrandi fátækt og erfiðleikum sem setja kreppuna og hrunið í dálítið annað samhengi. Þetta voru tímar þar sem þurfti iðulega að leysa upp fjölskyldur og senda börn til vandalausra.


Bókin hljómar kannski fremur dapurlega; deyjandi kona á elliheimili kveikir ekki endilega í afþreyingarþyrstum lesendum. En sem betur fer eru ekki allir lesendur að leita að sama fóðri og þar fyrir utan þá verður að segjast eins og er að bókin er alls ekki niðurdrepandi heldur miklu fremur angurvær.

Úlfar er skemmtilega heiðarlegur varðandi ellina og heimsóknir á elliheimili sem eru vissulega oft til að friða samviskuna – fæstum finnst þær beinlínis upplífgandi. Kannski er það þessi óþægilega tilhugsun um að þarna endum við öll (ef við náum á annað borðs svo langt) sem fælir frá. En það er ekki síður í lýsingum á elliheimilinu sem bókin nær flugi í frábærri blöndu af fegurð og forgengileika.

Á einhvern hátt er sagan svo líka ráðgáta – sögumann og lesandann grunar að sitthvað sé ósagt um líf móður hans og föður og hinar ósvöruðu spurningar eiga ekki bara að ljúka upp dyrum að leyndarmálum foreldranna heldur ekki síst sögumanns sjálfs – þetta er ekki síður tilraun hans til að skilja sjálfan sig en móðurina.

Höfundur leggur ákveðnar samviskuspurningar fyrir okkur sem sjáum fram á að vera skilin eftir – er það okkar að spyrja eða eigum við að láta kyrrt liggja? Er hnýsni að reyna að grafast fyrir um fortíðina – eða er flótti falinn í því að snúa ekki við steinum og athuga hvað leynist undir? Sögumaður togast milli þessara tveggja póla skáldsöguna á enda og er ýmist með samviskubit yfir spurningum sínum eða spurningaleysi – og lesandinn fylgir honum í báðar áttir. Eðlilegast væri kannski að láta móðurina ráða því sjálfa hverju hún deildi með syninum en elliglöp hennar setja allar spurningar og ráðgátur í enn flóknara samhengi: „Þú sem svo oft hleypur, að því er virðist, stjórnlaust á milli minninga, hvað er mikið eftir af sjálfri þér í sjálfri þér? Og önnur fylgir fast á eftir: Hvað lifir enn í þér af hæfileikanum til þess að taka sjálfstæða ákvörðun, kveða upp úr um hvað sé best fyrir þig og þína?
Þú sefur. Óðagotið grípur mig og þú brosir í svefninum þegar ég byrja að tvístíga.“ (bls. 34-35)

Þegar upp er staðið er Farandskuggar látlaus gullmoli. Sérstaklega fallegur texti færir lesandanum brot úr lífi og lífstíl sem í dag eru horfin og dregur upp ljóslifandi myndir af nútíð og fortíð. Þetta er ljóðræn bók í besta skilningi þessa orðs, textinn er meitlaður og skýr en margt býr undir sem gaman er að lesa í.

Engin ummæli: