7. desember 2011

Eitt andartak í einu

Nýlega kom skáldsagan Eitt andartak í einu, eftir Hörpu Jónsdóttur, út hjá bókaforlaginu Sölku. Aftan á bókinni segir:
Á sólbjörtum laugardagsmorgni birtist ófrísk stúlka í sjávarplássi úti á landi. Lárus, borinn og barnfæddur í firðinum, er beðinn um að taka á móti henni á flugvellinum. Þorpsbúar komast smám saman að misjafnri fortíð þessarar hæglátu stúlku; þeir fylgjast með glímu hennar við lífið og áður en yfir lýkur er örlög hennar samofin lífi fólksins í plássinu og þá sérstaklega Lárusi.



Höfundurinn, sem býr í Vík í Mýrdal, fékk nokkrar spurningar sendar í tölvupósti:


Hver er Harpa Jónsdóttir?
Ég er rithöfundur og handverkskona, áhugaljósmyndari og allt mögulegt annað. Svo er ég gift kona, á þrjú börn og meira að segja tvö barnabörn.

Ég veit að þú býrð í Mýrdalnum, er ekki stressandi að vera þarna undir Kötlu?
Jú, ég get ekki neitað því. Ekki síst eftir eldgosin á Fimmvörðuhálsi og í Grímsvötnum. En ég reyni að láta hana ekki trufla mig allt of mikið.

Þú ert ekki alveg nýsest við tölvuna, hvað hefurðu skrifað annað en Eitt andartak í einu?
Ferðina til Samiraka og Húsið. Sú fyrri er barnabók, sem hlaut á sínum tíma íslensku barnabókaverðlaunin og sú seinni er ljóðabók. Svo hef ég sett saman námsefni, greinar og ýmislegt annað.

Sagan þín, Eitt andartak í einu, gerist í íslensku þorpi, hvers vegna þorp og varstu með einhvern ákveðinn stað í huga?
Ég er hrifin af þorpum. Svo hentaði þorp vel sem rammi utan um þessa sögu, það er afmarkað svæði sem tengist samt stærra samhengi. Auk þess þekki ég þorpslífið vel, ég flutti í þorp fyrir bráðum sautján árum og hef búið í þorpum og minni bæjum síðan. Þorpið í sögunni, það er að segja staðurinn sjálfur á sér ákveðna fyrirmynd. Fólkið er aftur á móti hreinn skáldskapur.

Varstu lengi með þessa bók á harða diskinum?
Ég veit það ekki alveg. Hvað er lengi? Einhver ár, þrjú kannski þegar allt er talið.

Hvernig vinnurðu? Settistu niður með söguna í huganum, skrifaðirðu plottið í excel eða komu orðin bara svona eitt af öðru?
Ég teikna nú bara munstur í exel. Ég sest venjulega niður með óljósa hugmynd og svo spinnur sagan sig áfram. Í þetta sinn urðu aðalpersónurnar til þegar ég samdi söngtexta fyrir manninn minn, fyrir nokkrum árum. Textinn heppnaðist ekkert sérstaklega vel, en persónurnar lifðu áfram og kölluðu á bók.

Einhverjir sérstakir áhrifavaldar í höfundarlífi þínu, hvaða höfunda heldurðu sérstaklega upp á?
Uppáhalds? Það finnst mér alltaf alveg óskaplega erfitt. Ég held upp á svo marga og treysti mér alls ekki til að velja á milli. Kanadíski rithöfundurinn Robertson Davies varð samt til þess að ég ákvað að fara að skrifa. Hann hlýtur þá að teljast áhrifavaldur, ekki satt?

Tapio Koivukari velti því fyrir sér hér á síðunni um daginn hvort allir málsmetandi íslenskir höfundar væru ekki með þríleik. Hvað með framhaldið hjá þér, eigum við von á þríleik úr plássinu? Já og nei. Kannski óbeint. Við sjáum til.

Finnst þér bækur eiga að vera skemmtilegar?
Það er skemmtilegt þegar bækur eru skemmtilegar, en bækur geta verið allskonar. Sumar eru ekkert skemmtilegar en hafa aðra kosti. Bækur eiga ekkert að vera á einhvern einn hátt. Það eru alveg óskaplega margar leiðir til Rómar og vonandi á eftir að finna margar nýjar.

Ertu búin að lesa einhverjar nýjar jólabækur eða hlakkarðu sérstaklega til að lesa eitthvað?
Ég er ekki búin að lesa mikið núna. Þó var ég að ljúka við Valeyrarvalsinn eftir Guðmund Andra og ljóðabókina Kanil eftir Sigríði Jónsdóttur og var mjög hrifin af báðum. Ég hlakka sérstaklega til að lesa Hjarta mannsins, Glæsi, Nóvember 1976, Jarðnæði og svo margar aðrar.

Með hvaða íslenskum höfundi myndirðu helst vilja deila hvítvínsflösku?
Ætli ég segi ekki bara Auði Övu Ólafsdóttur. Ég þekki ekki marga höfunda, en þeir sem ég hef hitt hafa allir verið elskulegt fólk og skemmtilegt.

Engin ummæli: