9. nóvember 2011

Byltingartilraun í New York

Samband Puerto Rico og Bandaríkjanna á rætur sínar að rekja til loka nítjándu aldar þegar Spánverjar létu Bandaríkjunum þessa nýlendu sína eftir við lok stríðs sem þjóðirnar háðu sína á milli. Puerto Rico búar eru handhafar bandarísks ríkisborgararéttar þó þeir hafi ekki kosningarétt og alríkislög Bandaríkjanna eiga við í landinu. Þetta er ansi flókið og að ég held einstakt samband í mörgu tilliti.

Allt frá því snemma á tuttugustu öld hafa Puerto Rico menn flutt í stórum stíl til Bandaríkjanna í leit að betra lífi. Þar kemur margt til - landið var efnahagslega háð Bandaríkjunum og kreppan mikla hafði þar töluverð áhrif. Svo varð sprenging í þessum fólksflutningum á stríðsárunum þegar næg eftirspurn var eftir vinnuafli. Bandaríkjastjórn beinlínis hvatti fólk til þess að flytja og margir Puerto Rico menn stóðu svo dagana langa við færiböndin sem spýttu út úr sér vörum af ýmsu tagi. Þessir stórfelldu fólksflutningar stóðu allt fram á áttunda áratuginn og fluttu langflestir til New York og Chicago.

Fólk af Puerto Ríkóskum uppruna er nú um 1.5% Bandaríkjamanna. Það er þar löglega, þetta er þeirra land í einhverjum skilningi. Það breytir því ekki að kjör þeirra eru síst betri en þeirra innflytjenda sem kallaðir eru “ólöglegir” eða þeirra sem ekki eru bandarískir ríkisborgarar en vinna löglega í Bandaríkjunum. Raunar las ég einhversstaðar að staða þeirra væri með því versta sem gerist meðal minnihlutahópa og fyrir því eru ábyggilega margar ástæður.

Ég sá nýlega ágæta heimildarmynd frá 1999 um fjölskyldu af Puerto Ríkóskum uppruna sem býr í New York. Móðirin fluttist ung frá Puerto Rico með kornabarn og eignaðist svo fjögur börn með fyllirafti eftir að hún kom til New York. Þau búa við mikla fátækt í Brooklyn og móðirin vinnur myrkranna á milli til að sjá fyrir öllum hópnum sem meira eða minna hefur leiðst út í eiturlyfjaneyslu. Synirnir rotna í fangelsi og dæturnar ráfa um útúrdópaðar og sí-óléttar. Amman þarf svo að sjá um barnabörnin því dætur hennar eru algjörlega ófærar að sjá um sig sjálfar, hvað þá börn. Elsti sonurinn sem kom með móðurinni til Bandaríkjanna hefur þó náð að halda sig á beinu brautinni, hann fór í college og starfaði við kennslu þegar myndin var tekin. Það er hann sem segir söguna og rekur stuttlega sögu Puerto Rico fólks í Bandaríkjunum samhliða sögu fjölskyldunnar sem er líklega nokkuð dæmigerð. Þau eru njörvuð niður í fátækt og þó mann langi til þess að segja þeim að herða nú upp hugann – setja undir sig hausinn og komst út úr þessu þá vitum við að til þess er lítil von. Þau deyfa sig með dópi, finna ekki sjálf sig og eru ekki í neinum tengslum við uppruna sinn eða arfleifð.

Ég hugsaði ósjálfrátt að þetta fólk hefði á sínum tíma þurft að sýna samstöðu og byggja sér, með góðu eða illu, samfélag með styrkar stoðir þar sem hugsað væri betur um börnin og barist fyrir réttlætinu. Ég komst að því að það hafði einmitt verið reynt. Til þess að fá betri tilfinningu fyrir þeim tilraunum varð ég mér út um bókina Panlante – Young Lords Party frá 1971 sem nýlega hefur verið endurútgefin. Þetta eru ljósmyndir og textar eftir meðlimi hreyfingarinnar Young Lords Party sem starfaði aðallega í New York og Chicago á áttunda áratugnum. Það var árið 1969 sem hópur róttækra háskólastúdenta af Puerto Ríkóskum uppruna fór að hittast reglulega með það að markmiði að reyna að tengjast sínu fólki sem bjó við kröpp kjör í fátækrahverfum New York. Þessi hreyfing var nokkurs konar systurhreyfing Black Panthers og fleiri róttækra hreyfinga sem spruttu upp í ölduróti sjöunda áratugarins og voru kröfurnar af sama meiði - útrýming kynþáttahaturs, niðurbrot kapítalismans og frelsi undan heimsvaldastefnu til handa þriðja heiminum. Síðast en ekki síst var hreyfingin þjóðfrelsishreyfing og vildi stefna að sjálfstæði Puerto Rico. Fyrstu aðgerðir hópsins fóru fram sumarið 1969 þegar ákveðið var að taka á vanrækslu borgaryfirvalda í sorphirðumálum í Austur Harlem. Göturnar voru sópaðar og búnir til sorphaugar á götuhornum sem biðu þess að verða hirtir. Til þess að þrýsta frekar á aðgerðir af hálfu borgarinnar var stórum umferðargötum lokað og eldar kveiktir. Til nokkurra átaka kom þegar lögreglan skarst í leikinn en aðgerðin bar árangur – ruslið var framvegis hirt.

Margar aðgerðir hópsins miðuðu að því að auka lífsgæði með því að bæta hreinlæti, húsakost og aðbúnað allan sem ekki var vanþörf á. Blýeitrun var til dæmis mikið vandamál hjá efnaminna fólki í stærri borgum þar húsnæði var oft í slæmu ásikomulagi og börn átu flagnandi málningu sem á þessum árum innihélt töluvert magn af blýi. Margir heilbrigðisstarfsmenn voru virkir í hreyfingunni og tóku að sér að skima fyrir þessari eitrun. Þeir skimuðu einnig fyrir berklum. Hið opinbera hafði reyndar sérstakan bíl inn í hverfunum sem gerði berklapróf en starfsfólk hans komst aðeins yfir um 300 manns á viku meðan Young Lords afgreiddu sama fjölda á einum degi. Hreyfingin tók yfir kirkjur og bauð þar upp á morgunverð, heilbrigðisþjónustu, leikskóla, fræðslu og afþreyingu af ýmsu tagi. Þetta var ekki góðgerðastarfsemi heldur skipulagðar aðgerðir sem miðuðu að því að byggja upp betri heilsu, kjark og þor til frekari baráttu.

Yfirvöld svöruðu af fullri hörku. Bandaríkjastjórn hafði sérstaka, leynilega aðgerðaáætlun, Counter Intelligence Program, sem beitt var miskunnarlaust gegn pólitískum aktívistum á þessum árum. Þessar aðgerðir stjórnarinnar áttu sér enga stoð í lögum en þær miðuðu að því að brjóta hreyfingarnar á bak aftur hvað sem það kostaði. Gjarnan var reynt að eyðileggja þær innan frá með því að senda svikara inn í raðir þeirra og skapa fjandsamlegt andrúmsloft paranoju. Þessu er til dæmis ágætlega lýst í frábærri heimildamynd um Weather Underground hreyfinguna. Stundum var um hreinar aftökur að ræða, líkt og í tilfelli Fred Hamptons, sem var einn af aðalliðsmönnum Black Panthers, en hann var myrtur í rúmi sínu af lögreglu árið 1969.

Panlante – Young Lords Party samanstendur af vitnisburði 15-20 meðlima hreyfingarinnar sem skrifa stutta texta. Þar segja þau frá uppvexti sínum, áhrifavöldum og pólitískum skoðunum. Lýsingarnar eru áhrifamiklar, ekki síst þegar vikið er að æskuárunum í gettóinu. Helmingur bókarinnar eru magnaðar ljósmyndir teknar af Michael Abramson sem gefa sterka tilfinningu fyrir tímanum.

Því miður virðist barátta Young Lords ekki hafa skilað miklu til lengri tíma litið þó öll þau stóru, samfélagslegu verkefni sem hreyfingin sinnti á sínum tíma hafi skipt afar miklu fyrir samfélag fólks af Puerto Ríkóskum uppruna. Kannski gengu þau ekki nógu langt – sýndu ekki nógu mikla hörku. Stundum þarf bara meiri öfgar. Misréttið í allsnægtarlandinu sem knúði hreyfinguna fram er mesta ofbeldið. Eða eins og þau sögðu sjálf:

Revolution is not something we want to do. It is bloody and cruel. But it is something we have to do to live decently and free.

Engin ummæli: