15. nóvember 2011

Bókasöfn á vinnustöðum, 1. þáttur

Dyggir lesendur druslubókabloggsins ættu að kannast við færsluröðina ágætu Bókasöfn á gististöðum, en þar hafa birst úttektir á bókakosti ýmissa híbýla þar sem færsluhöfundar hafa átt næturstað, svosem í sumarbústöðum og leiguíbúðum. Mér finnst hugmyndin stórskemmtileg en hefur hingað til skort tilefni til að leggja af mörkum – á ferðalögum undanfarinna missera hef ég gist í heimahúsum, þar sem bækur eru líklegar til að vera í öllu meira magni en í sumarbústöðum, og þegar umfangið er of mikið grípur mig athyglisbrostinn valkvíði og ég get ekki ákveðið í fljótu bragði hvað eigi að fókusera á fremur öðru. Auk þess sem það segir ekki endilega mikið um bókakostinn ef færsluhöfundur hefur sjálfur valið lítið brot til framsetningar, þótt það geti auðvitað skilað jafnskemmtilegri umfjöllun.

Því legg ég þessa færslu fram sem upphaf raðarinnar Bókasöfn á vinnustöðum. Meðfylgjandi mynd er tekin á kaffistofu sumarvinnustaðarins míns í Reykjavík þar sem þrjátíuogeitthvað kiljur hvíla í hillu, að mestu óáreittar. Eiginlega er það afskaplega dapurlegt að bókum sé raðað upp til þess eins að enginn sýni þeim áhuga framar, svolítið eins og jólatréð í ævintýri H.C. Andersens. Nema aðeins meira dapurlegt og minna dramatískt. Sem sjá má geymir hillan aðallega þýddar bækur, m.a. rússneskar heimsbókmenntir og allrahanda færibandaástarsögur, að minnsta kosti eina íslenska skáldsögu og eitt íslenskt smásagnasafn.

Ég grandskoðaði úrvalið svosem ekki sjálf meðan það var innan seilingar, gluggaði aðeins í Dauðar sálir Gogols og síðar í smásögur Ólafs Jóhanns Sigurðssonar. Svona kaffistofa veitir ekki bestu skilyrði til lestrar – enginn situr þar sérlega lengi í einu og þar eru iðulega fleiri en einn á hverjum tíma, sem þýðir að maður skuli helst reyna að vera sósjal, og svo virðast sumir ekki fatta að það geti truflað lesandi manneskju að ávarpa hana, eins og hún sé síst vant við látin heldur gæti eins verið að lesa blaðið – en semsagt. Þetta var úrvalið á sumarkaffistofunni minni og hefði ég það handbært núna myndi ég tékka á titlum eins og Syndari og sakleysingi, Kæn er konan og Hold og hjarta og sjá hvort innihaldið geti verið eins djúsí og (mis)stuðlaðir titlarnir gefa til kynna.

Engin ummæli: