15. september 2011

Og epli bara á jólunum

Úr alþjóðlegum gloríum Bókmenntahátíðar yfir í eitthvað smærra í sniðum, þjóðlegra í einhverri merkingu, yfirlætislausara. (Er ekki fjölbreytnin aðalsmerki okkar druslubókadama – kom það ekki fram í einhverri könnun?) Ég veit ekki hvað á að kalla svona bækur þótt ég hafi lesið þær margar; bernskusögur, sveitasögur, þjóðlegan fróðleik? Svona til samanburðar er innihaldið ekki alveg ósvipað og bók sem margir hafa hlustað á lesna í útvarpið að undanförnu, Í barndómi eftir Jakobínu Sigurðardóttur.

Kannski kann höfundur bókarinnar mér litlar þakkir fyrir þann samanburð, enda hér ekki lagt upp í neina samkeppni við skáldjöfra þjóðarinnar, það eru persónulegri ástæður fyrir sagnarituninni. Jón Hjartarson skrifaði söguna Fyrir miðjum firði. Myndbrot frá liðinni öld fyrir afastelpurnar sínar tvær, en samskipti þeirra eru stundum erfið því þær eru báðar sjón- og heyrnarskertar og hann kann ekki táknmál. Sú eldri, Snædís Rán, skrifar stuttan formála að bókinni.

Í bókinni rifjar Jón upp æsku sína á bænum Undralandi í Kollafirði í Strandasýslu (ég verð að viðurkenna að mér fannst nafnið á bænum skemmtilega væmið í samanburði við andrúmsloftið í bókinni almennt), ásamt foreldrum sínum og tveimur bræðrum. Þetta er um miðja 20. öld, nokkuð síðar en flestar aðrar sögur í þessum dúr sem ég hef lesið, en lífið í Kollafirðinum er samt ennþá að flestu leyti líf sveitasamfélagsins gamla: farskóli, vinnuharka, einangrun að vetrinum, epli bara á jólunum og svo framvegis.

Eins og aðrar bækur í þessum stíl byggist hún mikið upp á sögum af fólki – maður verður að hafa smekk fyrir slíkum sögum til að hafa gaman af – og margar eru skemmtilegar og áhugaverðar. Til dæmis segir Jón tvær magnaðar sögur af sjálfsbjargarviðleitni á mörkum nýs og gamals tíma. Fyrst verður bróðir hans lífshættulega veikur og ófært til næsta byggðarlags, en í örvæntingu er gripið til allra ráða, ef ske kynni, og viti menn! það er júgurbólgusúlfa kúadoktorsins á næsta bæ sem bjargar lífi bróður hans. Síðar fengu allir bræðurnir lús og þegar lúsameðalið virkaði ekki greip faðir þeirra á það ráð – og hér saup ég hveljur – að hella DDT skordýraeitri yfir hausinn á þeim. Það þarf ekki að orðlengja það að allar lýs steindrápust, þótt bræðurnir yrðu rauðflekkóttir í nokkurn tíma á eftir.

Gaman er að sjá henni bregða fyrir, Oddnýju Guðmundsdóttur farkennara frá Langanesi, sem var merk kona og ég hef lesið um víðar. Skemmtilegar eru líka sögurnar af föður Jóns, sem var eini komminn í sveitinni og fékk Einar Olgeirsson reglulega í heimsókn, sem íhaldssamari bændur voru skíthræddir við að væri morðóður brjálæðingur. Samkvæmt Jóni var það ekki síst sósíalískur menntaáhugi föður hans fyrir hönd sonanna sem gerði það að verkum að fjölskyldan fluttist til Akureyrar þegar Jón var fjórtán ára, en við þau tímamót lýkur sögunni.

Helsti kostur bókarinnar er að Jón segir látlaust og hreinskilnislega frá. Þetta er engin fortíðarrómantík – eins og hann segir sjálfur í örstuttum eftirmála er það ekki eftirsjá sem fær hann til að rifja upp þessa liðnu tíma, heldur vaxandi skilningur á því hversu mikið aðstæður æskuáranna móta einstaklinginn síðar meir. Hann segir frá hörðu lundarfari afa síns, sem bauð ekki einu sinni prestinum kaffi eftir að hann hafði gift þau hjónin heldur hljóp nær formálalaust út á tún að klára verkin, og segir eina af þessum óþægilegu sögum um margvísleg hlutverk ljósmæðra (meðal annars að gæta sængurkonunnar eftir barnsburð svo karlinn træði sér ekki upp í til hennar áður en hún var gróin sára sinna). Hann dregur ekki dul á að þetta bændasamfélag, sem var um það bil að ganga sér endanlega til húðar, hafi að mörgu leyti verið þrúgandi, meinfýsnin blómstrað í návíginu sem ekki varð komist hjá, ekki endilega náungakærleikurinn og hjálpsemin eins og frásagnirnar í Móðir mín húsfreyjan og Faðir minn bóndinn telja okkur trú um (já, ég hef lesið þær). Fyrir þá sem á annað borð hafa áhuga á klassískum æviminningum af íslensku landsbyggðinni er þetta príma bók.

3 ummæli:

Þórdís Gísladóttir sagði...

Ég þarf augljóslega að útvega mér þessa bók.

Harpa Jónsdóttir sagði...

DDT!
En ég þarf að lesa þessa bók. Það er alveg ljóst.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Maður nokkur sagði mér að DDT hefði verið til á hverjum bæ og t.d. stráð í kringum lúsuga flakkar sem komu á bæi.