12. september 2011

Roslund, Hellström og fullkomnunaráráttan


Ég er illa haldin af fullkomnunaráráttu. Nú halda sjálfsagt einhverjir að það þýði að það sé alltaf allt voðalega fullkomið hjá mér en því fer fjarri. Fullkomnunaráráttan veldur því annars vegar að ég legg yfirleitt ekki í að vinna nauðsynleg verkefni af því að ég er svo hrædd um að þau verði ekki fullkomin og svo hins vegar að mér finnst ég alltaf verða að ljúka verkefnum sem ég byrja á þrátt fyrir að ég átti mig á því einhvers staðar á miðri leið að þau séu tilgangslaus. Það er þessi seinni birtingarmynd fullkomnunaráráttunar sem veldur því að ég hef lesið alls kyns bókaseríur frá fyrstu bók til þeirrar síðustu þrátt fyrir að hafa kannski ekki verið neitt yfir mig hrifin. Sú nýjasta til að fylla þennan vafasama flokk er glæpasagnasería sænska tvíeykisins Roslund og Hellström.

Kynni mín af Roslund og Hellström hófust þegar ég ákvað að lesa nýjustu bókina þeirra, Tre sekunder, sem er sú fimmta í seríunni. Hún hafði legið á metsölulistunum í lengri tíma en ekki höfðað neitt til mín enda bara sprengingar og eldhaf á kápunni og ég dregst yfirleitt ekki að svoleiðislöguðu. Mig vantaði hins vegar eitthvert léttmeti og þar sem ég hafði heyrt góða hluti um bókina ákvað ég að gefa henni séns og til að gera langa sögu stutta gat ég ekki lagt hana frá mér fyrr en yfir lauk. Tre sekunder fjallar um Piet Hoffman sem leikur tveimur skjöldum, hann er annars vegar kominn í innsta hring pólsks eiturlyfjahrings og hins vegar flugumaður á vegum lögreglunnar. Pólverjarnir ákveða að senda hann inn í eitt stærsta öryggisfangelsi landsins til að taka yfir allan eiturlyfjamarkað þar og um leið lofa bæði lögreglan og sænskir ráðamenn að aðstoða hann við að komast út úr fangelsinu og í öruggt skjól um leið og hann hefur gefið þeim nægar upplýsingar til að hægt sé að uppræta hringinn. Að sjálfsögðu fara öll plön til fjandans og Hoffman þarf einn og óstuddur að verja sig fyrir bæði morðóðum samföngum og háttsettum pólitíkusum sem þykjast ekkert vita af tilvist hans. Allt leysist þetta upp í æsilegan hasar fullan af ævintýralegum smyglleiðum, míní-byssum, sprengingum og eldtungum og ég var sveitt í lófunum og „mamma-ætlar-bara-aðeins-að-lesa-og-svo-fáið-þið-að-borða“-spennt. Að lestrinum loknum var ég sannfærð um að ég hefði sennilega misst af stórkostlega skemmtilegri og spennandi glæpasagnaseríu og að ég yrði að lesa fleiri bækur eftir þá félaga – með fyrrgreindum afleiðingum.



Í ljós kom að Tre sekunder sker sig töluvert úr frá fyrri bókunum fjórum sem sverja sig allar rækilega í ætt við skandinavísku glæpasöguna og hafa samfélagsgagnrýni að leiðarljósi. Samfélagsgagnrýnin er svo sem ekki langt undan í Tre sekunder heldur en þar er hún vegin upp af hasar, spennu og óvæntum endalokum sem er ekki fyrir að fara í hinum bókunum. Nú hljóma ég sjálfsag eins og mér þyki samfélagsgagnrýni af hinu illa. En það er alls ekki rétt, mér finnst að maður eigi að gagnrýna sem mest og ákafast! Vandinn er bara að Roslund og Hellström hættir til að gagnrýna á aðeins of móralskan hátt og virðast stundum taka sjálfa sig allt of hátíðlega sem einhvers konar kyndilbera í skuggaheimum samfélagsins.

Fyrsta bók þeirra félaga, Odjuret (sem er nýlega komin út í íslenskri þýðingu hjá Uppheimum undir heitinu Ófreskjan) fékk Glerlykilinn, norrænu glæpasagnaverðlaunin. Hún fjallar um barnaníðing sem sleppur úr fangelsi og myrðir leikskólabarn. Í henni er varpað fram spurningum um á borð við hvort einhverjir séu réttdræpir og hvar við drögum mörkin í þeim efnum, hvort það sé einhvern tímann í lagi að óbreyttir borgarar taki lögin í sínar hendur og svo framvegis. Í kjölfarið fylgdu svo Box 21, sem einblínir á mansal og kynlífsþrælkun, Edward Finnigans upprättelse, sem fjallar um dauðarefsingar og réttmæti þeirra og sú fjórða, Flickan under gatan, varpar ljósi á götubörn og aðstæður heimilislausra. Allt eru þetta sem sagt óheyrilega þung en mikilvæg málefni sem verðskulda umfjöllun. Og hér hafa Roslund og Hellström svo sannarlega unnið heimildavinnuna sína vel. Anders Roslund starfaði til fjölda ára sem fréttamaður og Börge Hellström á sjálfur glæpsamlega fortíð að baki. Sjálfsagt hafa þeir báðir lag á að róta í skúmaskotum samfélagsins, finna áreiðanlega heimildarmenn og vinna traust þeirra sem aldrei myndu segja aukatekið orð við Burberry-sveipaða glæpasagnahöfunda á 12 cm Louboutin hælum (já, ég er að tala um Camillu Läckberg!). Frásagnirnar eru sem sagt rækilega rótaðar í raunveruleikanum og lesandinn skynjar að hann er að lesa um glæpamál sem gætu vel gerst í alvörunni en ekki einhverjar kanilsnúða-étandi grínlöggur sem virðast svo að segja mánaðarlega fá leyfi til að raska grafarró og moka upp hverja dularfullu beinagrindina á fætur annarri (já, ég er enn að tala um Camillu Läckberg!).

En gerir það bækur Roslund og Hellström ósjálfrátt góðar að þær gætu gerst í alvörunni? Ég er ekki viss. Það er sannarlega allt of stutt síðan samfélagið áttaði sig á því að misnotkun á börnum væri raunverulegt vandamál og að konur sem seldu líkama sinn gerðu það sjaldanst af fúsum og frjálsum vilja en persónulega finnst mér eins og við séum núna búin að velta okkur upp úr frásögnum af hræðilegum örlögum þessara hópa í góð tíu til fimmtán ár. Ekki misskilja mig, ég er tilbúin til að berjast af heilum hug gegn barnaníði og kynlífsþrælkun, en einhvern veginn er mér farið að líða meira eins og ofbeldismanni en stuðningsmanni þegar ég stytti mér stundir með því að lesa enn eina raunsanna frásögnina af þess háttar glæpum, skelli svo aftur bókinni/fleygi frá mér tímaritinu/loka vafranum og held áfram með mitt hamingjusama og heillaríka líf eins og ekkert hafi í skorist. En kannski snýst þetta meira um smekk. Ég hef einfaldlega aldrei haft smekk fyrir svona hörmungarsögum en veit svo sem að fullt af fólki hefur það. Fyrir mig persónulega hefðu þessar frásagnir því haft meiri slagkraft ef þær hefðu verið í félagsskap við eitthvað annað og meira en bara raunveruleikann. Ef samhengið sem þær hefðu verið settar í hefði varpað nýju ljósi viðfangsefnið, ef tungumálið hefði snert við mér á áhrifaríkan hátt eða hreinlega bara að þær hefðu verið svolítið meira spennandi. Fyrst og fremst hefði þó verið til bóta ef tónninn hefði ekki verið svona hræðilega móralskur og á köflum jafnvel yfirlætislegur. Mér líður eins og í upphafi hverrar bókar hafi Roslund og Hellström tekið mig undir sitt hvorn handlegginn og sagt við mig: „Nú, litla mín, ætlum við að segja þér frá hræðilegum hlutum sem þú hefur ekki hugmynd um og hefðir aldrei kynnst ef við hefðum ekki tekið það að okkur að segja frá þeim. Taktu nú vel eftir hvað þetta er allt saman ömurlegt og mundu að það er borgaraleg skylda þín að láta þér líða svolítið illa yfir þessu. Að bókinni lokinni tökum við svo við þökkum fyrir að hafa skrifað þessa merkilegu bók sem breytti sýn þinni á veröldina.“ Ég held einhvern veginn að bækurnar hefðu verið mun áhrifameiri ef ég hefði ekki stöðugt upplifað að það væri verið að skipa mér að verða fyrir áhrifum!

Nú hugsið þið sjálfsagt að, fullkomnunarárátta eða ekki, fyrst ég hafi dröslað mér í gegnum allar bækurnar í seríunni geti þær varla verið alslæmar. Og nei, það eru þær ekki. Það sem heldur bókunum oft og tíðum uppi eru föstu persónurnar. Aðalsöguhetjan, Ewert Grens, er roskinn, haltur, þumbarlegur og geðstirður lögreglumaður með „rangar“ skoðanir á flestu. Hann er oft óheyrilega dónalegur við bæði samstarfsfólk sitt og skjólstæðinga og tekur ekki alltaf góðar ákvarðanir. Hann er líka, eins og svo margir kollegar hans úr öðrum glæpasögum, þjakaður af fortíðardraugum. Eiginkona hans, Anni, hefur dvalið á hjúkrunarheimili í rúm 20 ár, ófær um að tjá sig eða stjórna hreyfingum, eftir að hún varð fyrir slysi við störf sín innan lögreglunnar. Slysinu olli Ewert sjálfur eða í það minnsta hefur hann kennt sjálfum sér um það allan þennan tíma. Eina haldreipi hans í lífinu er tónlist fyrrum dægurlagasöngkonunnar Siw Malmkvist (sem kannski mætti staðfæra sem Ellý Vilhjálms þeirra Svía) sem hann spilar á hæsta styrk af gömlu segulbandstæki á skrifstofu sinni á lögreglustöðinni, samstarfsfólki til mikilla ama. Ewert Grens hefði auðveldlega getað orðið stöðnuð steríótýpa en Roslund og Hellström bjarga honum frá þeim örlögum og gæða söguhetjuna sína meira lífi og meiri karakter en margir aðrir glæpasagnahöfundar. Ég er alla vega ekki frá því að mér þyki pínulítið vænt um Ewert Grens. Við hlið Ewerts starfar svo Sven Sundkvist. Sundkvist er andstæða Grens. Hann breytir yfirleitt alltaf rétt, er skilningsríkur og réttsýnn en líka yfirleitt alveg hrútleiðinlegur. Það sem bjargar honum er að þrátt fyrir að bækur Roslund og Hellström séu almennt gersneyddar öllum húmor er ekki frá því að það örli á írónísku viðhorfi í hans garð. Eins og að í hvert skipti sem það kemur fram að Sven langi bara að klára pappírsvinnuna til að komast heim úr vinnunni og fara að sofa á skikkanlegum tíma fylgi með lítið glott frá höfundunum og góðlátlegt „Æ, þú ert svo leiðinlegur, greyið“. Þriðja fasta persónan er lögreglukonan Mariana Hermansson sem bætist við í annarri bókinni. Því miður er hún ekki alveg nógu vel heppnuð. Það er dálítið eins og henni hafi bara verið bætt við til að bæta tölfræði bókanna aðeins, hún er nefnilega ekki bara kona heldur líka innflytjandi.

Sem sagt, þið ykkar, sem elskuðuð Hann var kallaður þetta og sjáið til þess að hörmungarfréttir af hræðilegum örlögum eru alltaf meðal fimm mest lesnu frétta á Vísi, hér er bókaflokkur fyrir ykkur! Þið hin sem viljið bara af og til lesa eitthvert léttmeti með spennandi söguþræði og óvæntum endalokum ættuð kannski að bíða þangað til búið er að þýða Tre sekunder.

7 ummæli:

Þórdís Gísladóttir sagði...

Talandi um Siw þá var ég að lesa bók eftir bróðurson hennar, Morgan Alling, (sem vissi ekki að hún væri skyld honum fyrr en hann var stálpaður). Bókin er einmitt soldið svona sænska útgáfan af "Hann var kallaður þetta" ímynda ég mér (ég hef ekki lesið Hann var kallaður þetta).

Maríanna Clara sagði...

skemmtilegur pistill!!

Ég er hins vegar svaka lítið fyrir hörmungarsögur (og hef einmitt aldrei lagt í Hann var kallaður þetta og stilli mig yfirleitt alltaf um að klikka á "ítrekað barinn með straujárni" á vísi.is) svo ég held að ég bíði eftir Þremur sekúntum...

Nafnlaus sagði...

Tók meðvitaða, upplýsta ákvörðun um að lesa ekki Hann var kallaður þetta. Las samt Fátækt fólk og Flugdrekahlauparann ofl. Átta mig ekki á hver er munurinn, efnistök kannski, stigsmunur kannski, eðlismunur varla. Varnarháttur líklega. Ætla samt á Zombíljóðin...
Solveig

Nafnlaus sagði...

Ég minnist Hann var kallaður þetta sem vélrænnar upptalningar á barsmíðum og misþyrmingum...það gerði eiginlega minna úr hörmungum drengsins en efni stóðu til.

-Kristín Svava

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Úúúú, djúsí færsla. Það er svo blóðugt þegar velmeinandi kyndilberar eru bara einfaldlega ekki nógu góðir listamenn ... Þess vegna er það líka stórfenglegt þegar maður við og við les höfunda sem eru bæði með hjartað á réttum stað og dúndurskáld.

Ég hef ekki nennt að lesa þessar, las einmitt aftan á Ófreskjuna og hugsaði: "Eeeh ... nei, nei."

"Hann var kallaður þetta" las ég þunn og tvítug á leiðinlegri kvöldvakt í Eymundsson. Ekki get ég sagt að vaktin hafi batnað við það. Ógurlega vond bók, á svo margan hátt. Hins vegar grætti hún mig einu sinni, og það var ekki meðan á lestri stóð heldur þegar ógæfudrengur einn, sem yfirleitt var í slagtogi við enn ógæfulegri móður, reyndi að stela henni og ég gómaði hann. Það var eitthvað svo hræðilega trist.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Bókavörður sagði mér að Hann var kallaður þetta væri mjög vinsæl hjá unglingum í yngri kantinum. Kannski frá 12 ára.

Guðrún Lára sagði...

Já því trúi ég. Þegar ég var í Hagaskóla var allra vinsælasta bókin á skólabókasafninu einhver bók með safni af "lífsreynslusögum". Þetta voru svona frásagnir af fólki sem hafði misst börnin sín í hræðilegum slysum og svoleiðis. Yfir þessu lágu unglingarnir tímunum saman og ræddu í frímínútum.

Annars hef ég ekki sjálf lesið Hann var kallaður þetta og á því kannski ekkert með að vera troða henni inn í þetta!