25. ágúst 2011

Djörf og opinská ævisaga íslensks athafnamanns

 Árið 1996 kom út bókin Götustrákur á spariskóm – Þættir úr lífi Þorsteins Viggóssonar athafna- og ævintýramanns. Blaðakonan Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skráði endurminningar Þorsteins, sem fæddist á Eskifirði árið 1936. Hann ólst upp við dæmigerða lífsbaráttu í íslensku sjávarplássi hjá foreldrum sínum og systkinum, í timburhúsi þar sem afi hans og amma bjuggu líka. Pabbinn var bakari og kokkur sem lengi starfaði til sjós, en mamman var húsfreyja. Berklar voru landlægir á Eskifirði og þegar Þorsteinn var fjórtán ára kom í ljós að hann var með blett í öðru lunganu. Hann var sendur til rannsókna í Reykjavík og svo á berklahælið á Vífilsstöðum þaðan sem hann sneri heill heilsu, hnöttóttur af offitu og heltekinn af útþrá.

Þorsteinn var heillaður af togarajöxlum, fannst þeir miklir naglar og hetjur. Hann réði sig því á togarann Austfirðing fimmtán ára gamall en síðar fékk hann vinnu sem messagutti á Dettifossi. Þorsteinn sigldi síðan um heimshöfin og kynntist fátækt eftistríðsáranna í erlendum hafnarborgum á borð við Leningrad, Hamborg og Rotterdam. Þar sem mikill vöruskortur var á þessum árum blómstraði svartamarkaðsbrask og smygl,  sjómannsstarfið var í raun oft meiri kaupmennska en sjómennska, smygl var stór hluti aðráttaraflins sem siglingarnar höfðu og gaf drjúgan skilding. Eftir vinnu á Dettifossi réði Þorsteinn sig á Goðafoss en var á endanum rekinn þaðan og komst þá að á gleðiskipinu og óskabarni þjóðarinnar, Gullfossi, en þetta var árið 1955. Þá var Þorsteinn búinn að eignast barn í lausaleik og segir hann að hann hafi komist að því að ungpía þurfi aðeins að anda að sér fersku sjávarlofti til að pilsið fjúki uppum hana.

Gullfoss var talið besta veitingahús þjóðarinnar og þar var mikið dansað og ekki síður drukkið en Þorsteinn sjálfur snerti ekki áfengi. Hann ákvað síðan að læra til kokks og komst á samning hjá Frascati, þekktu veitingahúsi í Kaupmannahöfn. Námið tók þrjú ár. Í borginni við Eyrarsund eignaðist Þorsteinn ástkonur úr ýmsum stéttum, sem stunduðu ýmis störf og ekki öll lögleg, hann æfði líka hnefaleika og lyfti lóðum en löngu síðar náði Þorsteinn sér í svarta beltið í karate. Í Danmörku giftist Þorsteinn hinni dönsku Ínu, þau flytja síðan til Íslands en efasemdir um hjónabandið leita næstum samstundis á hann. Hann vinnur sem hótelstjóri á Bifröst en síðan flytja þau til Reykjavíkur og Þorsteinn tekur þann pól í hæðina að sækja sér félagsskap og blíðu utan hjónabandsins og heldur við hinar og þessar konur.

Þegar þarna var komið sögu hóf Þorsteinn Viggósson veitingarekstur í Reykjavík. Hann fékk augastað á Langabar við Lækjargötu. Barinn segir hann hafa verið sóðabúllu en honum tókst að hreinsa hann af óæskilegum gestum og staðurinn varð vinsæll. Auk þess leigði hann Adlonbarinn á Laugavegi 11 af Silla og Valda, en það var staður menningarvita og homma. Þorsteinn ákvað að losa sig við listamenn og samkynhneigða af staðnum, af þeim var litla peninga að hafa því þeir sátu allt of lengi yfir kaffibollunum. Það gerði hann með því að setja upp ærandi glymskratta sem flæmdi fastagestina í burtu. Reksturinn gekk þó ekki vel, það var erfitt að græða á kaffihúsum og börum í Reykjavík á þessum tíma og á endanum losar Þorsteinn sig við barina og fer í siglingar. Skömmu síðar er hann svo kominn aftur til Kaupmannahafnar en siglir með Brúarfossi og smyglar í gríð og erg, peningarnir fara í að greiða lánadrottnum á Íslandi. Þar á eftir gerist söguhetjan flugþjónn hjá Tjæreborg og flækist víða en festir síðan kaup á bar við Gothersgade í Kaupmannahöfn, sem hét Kaffibarinn, og hafði verið fræg svartamarkaðsbúlla og dópistagreni. Smám saman kaupir hann hæðina fyrir ofan barinn og hefst þá langur ferill Þorsteins í skemmtanabransa Kaupmannahafnar. Þarna opnar hann, árið 1970, diskótekið Pussycat og síðan stað sem hét Bonaparte, en þar hélt glamúrlið borgarinnar sig. Heimfrægir popparar á borð við Elton John, meðlimi Rolling Stones og Abba mættu gjarna, sömuleiðis diskódrottningarnar Donna Summer og Grace Jones og kvennaflagarinn alræmdi Warren Beatty var heimilisfastur á stöðum Þorsteins þegar hann átti leið um Kaupmannahöfn. Fleiri veitingahús rak Þorsteinn Viggósson í Danmörku og einnig fataverslanir, bæði þar og hér í Reykjavík.

Undirheimalífi Kaupmannahafnar er lýst í bókinni, en sögumaðurinn hafði umtalsvert veður af því. Auk þess að vera í vinfengi við hinn fræga Simon Spies, umgekkst hann vændiskonur, vasaþjófa, eiturlyfjasala og allskonar krimma. Klámiðnaðurinn var í hámarki á þessum árum og ástarlíf Þorsteins sjálfs var í meira lagi fjölskrúðugt, hann kvæntist nokkrum sinnum og átti að auki í fjölmörgum kynlífssamböndum.

Ekki lét Þorsteinn Viggósson sér duga að reka skemmtistaði í Kaupmannahöfn því hann flutti líka inn skemmtikrafta til Íslands, þeirra á meðal Ivan Rebroff. Á níunda áratug síðustu aldar stofnaði hann síðan meðferðarheimili fyrir danska alkohólista ásamt Björgólfi Guðmundssyni og Fritz Berndsen. Þeir festu kaup á gömlum skóla úti í sveit, en reksturinn varð aldrei eins og Þorsteinn hafði vonast eftir.

Endurminningar Þorsteins Viggóssonar eru um margt áhugaverð frásögn fyrir þá sem hafa áhuga á að rifja upp ýmislegt úr mannlífi og skemmtanalífi seinni hluta síðustu aldar. Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar góðan blaðamannastíl og það er hvergi dvalið of mikið við smáatriði eða verið með óþarfa málalengingar. Sagan er lögð í munn aðalpersónunnar en lokakafli bókarinnar er í viðtalsformi og þar ýjar skrásetjarinn að því að þetta sé hálfgerð klámbók. Það eru kannski dálitlar ýkjur en engu að síður er ýmislegt bókinni sem teljast verður verulega opinskátt borið saman við íslenskar endurminningabækur yfirleitt.

Brot úr útvarpsþætti sem Þórdís og Þorgerður gerðu fyrir RÚV

Engin ummæli: