20. maí 2011

Arsenikturninn

Nú liggja eflaust fyrir ýmsar lærðar úttektir á móðurinni í bókmenntum hinna ýmsu þjóða og innan margvíslegra bókmenntastefna en ég verð að viðurkenna að hafa ekki kynnt mér þær né haft á efninu nokkurn marktækan áhuga. Það að lesa, með stuttu millibili, tiltölulega nýlegar bækur tveggja norrænna (önnur norsk hin sænsk) kvenhöfunda, eða þeirra Anne B. Ragde og Mariu Ernestam, varð til þess að ég fór aðeins að velta þessu „þema“ fyrir mér.

Í báðum bókum, þ.e. Arsenikturninum og Eyrum Busters koma fyrir mæður sem eru svo langt frá öllum stereotýpum um hina mildu og góðu móður að það er eiginlega alveg met. Þær eru illar, grimmar, ofbeldishneigðar, lygnar og ég veit ekki hvað. Þær eru eiginlega svo ómögulegar þessar konur að manni líður hálf illa yfir því og vill helst fara í að lesa eitthvað þar sem mamman er góð og ljúf kakóhitandi heimavinnandi húsmóðir. Í Eyrum Busters fær maður svosem aldrei neina skýringu á því afhverju mamman er þessi grimmi gallagripur, hún er bara svona og fær makleg málagjöld, ef svo má að orði komast. Arsenikturninn gerir tilraun til útskýringar á hegðun Malie, móður Rubyar og ömmu Therese. Að mínu mati er sú útskýring a.m.k. að hluta til trúverðug, þ.e. maður skilur að einhverju leyti hvað það var sem mótaði hana sem persónu og hvað olli þeim hroðalegu skemmdum sem hún burðast með í gegnum lífið. Það sem er skemmtilega gert er að hún fær að vera þversagnakennd, yndisleg amma þó hún hafi verið kolómöguleg mamma. Skemmtileg, lífleg og glöð og svo algjör andstæða þess þegar sá gállinn var á henni.

Ég hafði mjög gaman af lestri Arsenikturnsins – náði að lifa mig inní söguna a.m.k. að hluta til og margar lýsingar og atvik sem sagt er frá eru einkar vel gerð og eftirminnileg. Mér fannst t.d. atvikið þegar Ruby kemur loks heim til tengdamóður sinnar í Noregi alveg magnað. Sagan færir sig smám saman aftar og aftar í tíma og gerir það bara nokkuð vel. Saga Rubyar höfðaði mjög til mín og eins það litla sem maður fékk að fylgjast með dóttur hennar Therese. Þrátt fyrir að sögur þeirra Malie og Mogens séu um margt etv áhugaverðari þá fannst mér ekki takast alveg eins vel til með þær. Frásögnin af uppvexti Mogens var dálítið einsog maður væri kominn í þann heim sem lýst er í Fiskerne eftir Hans Kirk, og svosem allt gott um það að segja, en það vantaði aðeins uppá að þetta virkaði sem skyldi í heildarsögunni. Tengingin sem mér fannst vera gerð milli móður Mogens og svo Malie var einhvernvegin aðeins of þunn. Frásögnin af æsku og og uppvexti Malie sjálfrar var áhugaverð lesning, en náði fyrir minn smekk samt ekki alveg að vera fyllilega trúverðug miðað við það sem á eftir kom.

Þegar á heildina er litið er Arsenikturninn einkar vel heppnuð bók, mæli óhikað með henni fyrir þá sem ánægju hafa af sögum sem flæða vel áfram og fjalla um mannlegt eðli og hegðun. Er sjálf í startholunum að taka til við lestur á fleiri bókum eftir Anne B. Ragde – Berlínaraspirnar bíða t.d. eftir mér í bókahillunni!

Sigfríður

4 ummæli:

Þórdís Gísladóttir sagði...

Já, lestu endilega Berlínaraspabækurnar, og í réttri röð. Ég las þær öfugt, það virkaði alveg því ég var búin að sjá sjónvarpsþættina, en ég mæli með að taka þær í þeirri röð sem þær komu út.

Hildur Knútsdóttir sagði...

Mér fannst fyrsta bókin í þeim þríleik frábær, en svo rann þetta einhvernveginn útí sandinn hjá henni í síðustu bókinni, fannst mér.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Ég er sammála þér um að Anne B. Ragde var í vandræðum með hvernig hún átti að hnýta þetta saman.

Sigfríður sagði...

Fer í að lesa Berlínaraspadæmið, í réttri röð! Er ekki búin að sjá sjónvarpsþættina þannig að ég tek þá bara eftir lesturinn. Hlakka til.