19. apríl 2011

Läckbergskt léttmeti, morð og möndlulykt (inniheldur spoilera!)


Í texta aftan á bókarkápu er glæpasögunni Morð og möndlulykt lýst sem „heillandi nóvellu í anda Agötu Christie“. Höfundurinn Camilla Läckberg er sögð „einn vinsælasti glæpasagnahöfundur á Íslandi og víðar“. Ennfremur er það tíundað að hún sé „meðal mest lesnu höfunda Evrópu“ og bækur hennar séu „gefnar út um allan heim“. Þótt ég skilji ekki þörfina á að hamra svona á vinsældum Läckberg (en þetta er hvorki meira né minna en áttunda bók hennar til að koma út á íslensku á síðastliðnum 5 árum) dreg ég svosem hvorki útbreiðslu þeirra né umfang í efa. Nóvella er sagan óneitanlega, en heillandi fannst mér hún ekki og samlíking við Agötu Christie er álíka lýsandi og að segja að Scary Movie 5 sé í anda The Shining.

Sögusviðið er erkitýpískt; aðalpersónan er lögga sem heldur út í eyju á ættarmót með kærustunni. Fyrsta kvöldið borðar fjölskyldan saman og moldríkur ættfaðirinn hnígur örendur ofaní eftirréttinn. Snjóstormur brestur á og viðstaddir komast ekki í land. Það segir sig svosem sjálft að sameiginlegi þátturinn sé morðgátan eða whodunit, form sem Christie er þekkt fyrir meistaraleg tök á – og þar dettur samanburðurinn dauður niður. Þessi morðgáta Läckberg er ekki einu sinni – nei, spoilering hefst ekki strax. Sýnið þolinmæði.

(Ég játa það áður en lengra er haldið að ég tók umfjöllun um þessa bók gagngert að mér afþví ég hélt það gæti verið gaman að lesa eitthvað hrikalega vont. Það reyndist alveg frekar gaman en aðeins meira vont. Þessi bók er samt hlægilega fljótlesin enda léttmeti á alla kanta – um 150 síður í broti á stærð við Nýja testamentið og vegur kannski helming þess.)

En að innvolsinu: Martin Molin er sænsk lögga og aðalpersónan í Morð og möndlulykt. Einhverjir fara ef til vill undireins að aka sér af ofstuðlun, en reyndar heitir bókin á frummálinu Snöstorm och mandeldoft. Ég sé ekki að þýðingin hefði orðið neitt verri fyrir að heita eitthvað minna stuðlandi, en það kæmi hinsvegar varla á óvart þótt það væri beinlínis satt og sannað, klárt og kannað að stuðlaðir frasar/titlar/upphrópanir væru einfaldlega útsett fyrir meiri velgengni (sem í þessu tilfelli væri þó kannski afsakanlegt sjónarmið, þar sem bókin var víst skrifuð og útgefin til styrktar langveikum börnum). En hvort sem það var af markaðslegu hyggjuviti, persónulegu stuðlablæti eða öðru, þótti semsagt einhverjum við hæfi að kalla verkið Morð og möndlulykt á íslensku, þrátt fyrir það (og spoiler hefst HÉR) að í bókinni sé ekki framið eitt einasta morð. Tvö að-því-er-virðist-morð eiga sér stað, en kemur í ljós áður en yfir lýkur að um er að ræða sjálfsmorð sem eiga að líkjast morðum – það fyrra er framið til að kenna fégráðugum erfingjum móralska lexíu og það seinna af sektarkennd vegna samsektar í hinu fyrra, auk einhverskonar andlegs ójafnvægis viðkomandi sem ekki er skilgreint alltof náið (en má þó skilja af öllu að sé há-átakanlegt). Morðsviðsetning seinna sjálfsmorðsins er tekin beint uppúr sögu af Sherlock Holmes, en bæði voru „fórnarlömbin“ aðdáendur Lundúnaspæjarans knáa og það er að lokum þekking Molins á umræddri sögu sem gerir honum kleift að leysa gátuna (en fram að því dregur hann eigin rannsóknargetu stöðugt í efa á einkar klifandi hátt).

Hér höfum við semsagt morðsögu sem ekki er morðsaga. Hún er saga um fólk með allskonar banal og yfirborðsleg persónueinkenni eins og forherta peningagræðgi í bland við botnlaust fjármálaóvit og almenna taugaveiklun í bland við kvenkyn á miðjum aldri. Höfundur hefur leiðinda tilhneigingu til að setja fram senur og lýsingar á hugarástandi sem líta út fyrir að eiga að leiða eitthvert (dæmi: Molin er kynntur fyrir frænku kærustu sinnar og finnst hún svo óumræðilega fögur að hann fellur í andartaks trans og má vart mæla, annað dæmi: frændsystkini, hvort öðru minna heillandi karakterar, stunda saman forboðið kynlíf við hvert tækifæri) en leiða svo bara alls ekki neitt. Frænkan fagra hefur engin frekari áhrif á framvindu sögunnar og enginn kemst að sambandi frændsystkinanna, hvað þá að samband þeirra þróist hætis hót. Eitt dæmi er að finna um einhverskonar persónulega þróun – taugaveiklaða miðaldra frænkan léttir loks byrði af hjarta sér og játar fyrir dóttur sinni að hún sé ávöxtur ástarævintýris sem hún átti með mági sínum, og losnar þannig á svipstundu við allan þann þrúgandi kvíða sem hafði plagað hana undangengna áratugi. Eins konar deux ex machina sem minnir frekar á leið út úr ógöngum í söguþræði sápuóperu en nokkuð sem maður byggist við í glæpasögu, en þessi andlega lausn frænkunnar hefur reyndar engin greinileg áhrif á neitt út fyrir hana sjálfa og síst á litlausa söguframvinduna.

Þetta er bók um fólk sem borðar óspennandi mat sem lýst er af tilgangslausri gaumgæfni og fremur (burtséð frá sviðsetningarfyrirhöfn heldur tilþrifalítil og óspennandi) sjálfsmorð. Kannski hún sé fyrst og fremst bók um fólk sem hefur lesið Sherlock Holmes. Ef einhvern langar enn að lesa um morð eftir þessar lýsingar mæli ég reyndar með Sérláki, já eða Agötu Christie.

6 ummæli:

Þórdís Gísladóttir sagði...

Það liggur við að mig langi til að lesa þessa bók :)

Erna Erlingsdóttir sagði...

Ég segi það sama, hún virðist eiginlega nógu vond til að það gæti verið hægt að hafa gaman af henni á einhvern brenglaðan hátt!

Guðrún Lára sagði...

Nei það eina sem hægt er að hafa gaman af er þessi skemmtilegi pistill um bókina.

krummi sagði...

maður Camillu heitir Martin Melin, og er lögreglumaður, svo hún þurfti ekki að fara langt í leitinni að nafni á sögupersónuna. Þau eru hvort um sig athyglissjúkari en forseti Íslands. Ég fæ spýjuna í hálsinn þegar þau birtast á skjánum.

Erla Elíasdóttir Völudóttir sagði...

Mér fannst einmitt skemmtilegra að skrifa um bókina en lesa hana. Hún nær eiginlega ekki einusinni þeim hæðum að vera virkilega skemmtilega vont lesefni....

Þórdís Gísladóttir sagði...

Ég fylgdist með Robinson þegar Martin Melin vann, Gunnar. Þá lét hann alla vorkenna sér því hann var blönk lögga og fékk fullt af pening fyrir raðhúsi handa konunni, börnunum og hundinum. Svo skipti hann auðvitað um konu og náði í Camillu.