19. apríl 2011

Läckbergskt léttmeti, morð og möndlulykt (inniheldur spoilera!)


Í texta aftan á bókarkápu er glæpasögunni Morð og möndlulykt lýst sem „heillandi nóvellu í anda Agötu Christie“. Höfundurinn Camilla Läckberg er sögð „einn vinsælasti glæpasagnahöfundur á Íslandi og víðar“. Ennfremur er það tíundað að hún sé „meðal mest lesnu höfunda Evrópu“ og bækur hennar séu „gefnar út um allan heim“. Þótt ég skilji ekki þörfina á að hamra svona á vinsældum Läckberg (en þetta er hvorki meira né minna en áttunda bók hennar til að koma út á íslensku á síðastliðnum 5 árum) dreg ég svosem hvorki útbreiðslu þeirra né umfang í efa. Nóvella er sagan óneitanlega, en heillandi fannst mér hún ekki og samlíking við Agötu Christie er álíka lýsandi og að segja að Scary Movie 5 sé í anda The Shining.

Sögusviðið er erkitýpískt; aðalpersónan er lögga sem heldur út í eyju á ættarmót með kærustunni. Fyrsta kvöldið borðar fjölskyldan saman og moldríkur ættfaðirinn hnígur örendur ofaní eftirréttinn. Snjóstormur brestur á og viðstaddir komast ekki í land. Það segir sig svosem sjálft að sameiginlegi þátturinn sé morðgátan eða whodunit, form sem Christie er þekkt fyrir meistaraleg tök á – og þar dettur samanburðurinn dauður niður. Þessi morðgáta Läckberg er ekki einu sinni – nei, spoilering hefst ekki strax. Sýnið þolinmæði.

(Ég játa það áður en lengra er haldið að ég tók umfjöllun um þessa bók gagngert að mér afþví ég hélt það gæti verið gaman að lesa eitthvað hrikalega vont. Það reyndist alveg frekar gaman en aðeins meira vont. Þessi bók er samt hlægilega fljótlesin enda léttmeti á alla kanta – um 150 síður í broti á stærð við Nýja testamentið og vegur kannski helming þess.)

En að innvolsinu: Martin Molin er sænsk lögga og aðalpersónan í Morð og möndlulykt. Einhverjir fara ef til vill undireins að aka sér af ofstuðlun, en reyndar heitir bókin á frummálinu Snöstorm och mandeldoft. Ég sé ekki að þýðingin hefði orðið neitt verri fyrir að heita eitthvað minna stuðlandi, en það kæmi hinsvegar varla á óvart þótt það væri beinlínis satt og sannað, klárt og kannað að stuðlaðir frasar/titlar/upphrópanir væru einfaldlega útsett fyrir meiri velgengni (sem í þessu tilfelli væri þó kannski afsakanlegt sjónarmið, þar sem bókin var víst skrifuð og útgefin til styrktar langveikum börnum). En hvort sem það var af markaðslegu hyggjuviti, persónulegu stuðlablæti eða öðru, þótti semsagt einhverjum við hæfi að kalla verkið Morð og möndlulykt á íslensku, þrátt fyrir það (og spoiler hefst HÉR) að í bókinni sé ekki framið eitt einasta morð. Tvö að-því-er-virðist-morð eiga sér stað, en kemur í ljós áður en yfir lýkur að um er að ræða sjálfsmorð sem eiga að líkjast morðum – það fyrra er framið til að kenna fégráðugum erfingjum móralska lexíu og það seinna af sektarkennd vegna samsektar í hinu fyrra, auk einhverskonar andlegs ójafnvægis viðkomandi sem ekki er skilgreint alltof náið (en má þó skilja af öllu að sé há-átakanlegt). Morðsviðsetning seinna sjálfsmorðsins er tekin beint uppúr sögu af Sherlock Holmes, en bæði voru „fórnarlömbin“ aðdáendur Lundúnaspæjarans knáa og það er að lokum þekking Molins á umræddri sögu sem gerir honum kleift að leysa gátuna (en fram að því dregur hann eigin rannsóknargetu stöðugt í efa á einkar klifandi hátt).

Hér höfum við semsagt morðsögu sem ekki er morðsaga. Hún er saga um fólk með allskonar banal og yfirborðsleg persónueinkenni eins og forherta peningagræðgi í bland við botnlaust fjármálaóvit og almenna taugaveiklun í bland við kvenkyn á miðjum aldri. Höfundur hefur leiðinda tilhneigingu til að setja fram senur og lýsingar á hugarástandi sem líta út fyrir að eiga að leiða eitthvert (dæmi: Molin er kynntur fyrir frænku kærustu sinnar og finnst hún svo óumræðilega fögur að hann fellur í andartaks trans og má vart mæla, annað dæmi: frændsystkini, hvort öðru minna heillandi karakterar, stunda saman forboðið kynlíf við hvert tækifæri) en leiða svo bara alls ekki neitt. Frænkan fagra hefur engin frekari áhrif á framvindu sögunnar og enginn kemst að sambandi frændsystkinanna, hvað þá að samband þeirra þróist hætis hót. Eitt dæmi er að finna um einhverskonar persónulega þróun – taugaveiklaða miðaldra frænkan léttir loks byrði af hjarta sér og játar fyrir dóttur sinni að hún sé ávöxtur ástarævintýris sem hún átti með mági sínum, og losnar þannig á svipstundu við allan þann þrúgandi kvíða sem hafði plagað hana undangengna áratugi. Eins konar deux ex machina sem minnir frekar á leið út úr ógöngum í söguþræði sápuóperu en nokkuð sem maður byggist við í glæpasögu, en þessi andlega lausn frænkunnar hefur reyndar engin greinileg áhrif á neitt út fyrir hana sjálfa og síst á litlausa söguframvinduna.

Þetta er bók um fólk sem borðar óspennandi mat sem lýst er af tilgangslausri gaumgæfni og fremur (burtséð frá sviðsetningarfyrirhöfn heldur tilþrifalítil og óspennandi) sjálfsmorð. Kannski hún sé fyrst og fremst bók um fólk sem hefur lesið Sherlock Holmes. Ef einhvern langar enn að lesa um morð eftir þessar lýsingar mæli ég reyndar með Sérláki, já eða Agötu Christie.

17. apríl 2011

Strákabókmenntir?


Í kvöld verður fyrsti þátturinn af Game of Thrones frumsýndur á HBO-rásinni í Bandaríkjunum. Þáttaröðin er byggð á samnefndri bók eftir George R. R. Martin, en sú er fyrsta bókin í Song of Ice and Fire bókaröðinni. Bækurnar hafa verið fyrirferðarmiklar á metsölulistum (m.a. New York Times) og hefur þáttaraðarinnar því verið beðið með mikilli eftirvæntingu.

Bækurnar eru fantasíur og gerast í ímynduðum heimi þar sem má m.a. finna dreka, riddara og blóðþyrst kóngafólk. Efni þeirra er svo viðamikið að það verður varla rakið í stuttu máli, en meginþemað er ef til vill þorstinn eftir völdum, hvað fólk er tilbúið að leggja í sölurnar fyrir völd, hvað verður um þá sem standa í vegi þeirra og alla hina sem lenda saklausir í hringrásinni miðri. Og Hringadróttinssaga (með öllum sínum ættartölum og fjölmenna persónugalleríi) sem lengi hefur verið talin með epískari bálkum, er næstum einsog einföld barnabók við hliðinni á ofur-epíkinni hjá Martin.

Grein á heimasíðu New York Times um þáttaröðina hefur vakið nokkra eftirtekt í netheimum undanfarið. En þar furðar greinarhöfundur sig á því að HBO hafi farið í framleiðslu á þáttunum, því þeir muni á engan hátt höfða til kvenna, þó greinilega hafi verið reynt að troða nokkrum kynlífssenum og svolitlu sifjaspelli inn til að reyna að gera öllum til geðs. Greinarhöfundur skrifar:
„The true perversion, though, is the sense you get that all of this illicitness has been tossed in as a little something for the ladies, out of a justifiable fear, perhaps, that no woman alive would watch otherwise. While I do not doubt that there are women in the world who read books like Mr. Martin’s, I can honestly say that I have never met a single woman who has stood up in indignation at her book club and refused to read the latest from Lorrie Moore unless everyone agreed to “The Hobbit” first. “Game of Thrones” is boy fiction patronizingly turned out to reach the population’s other half.“

Ég hef sjálf lesið þrjár og hálfa* af þeim fjórum bókum sem þegar eru komnar út í flokkinum og ég get ekki annað en tekið undir með þeim sem undrast þessi orð hér að ofan. Því þó fantasíur af þessu tagi hafi lengi verið taldar strákabókmenntir (þótt ég hafi lesið einhversstaðar að konur séu a.m.k. helmingur kaupenda slíkra bóka), þá ætti Game of Thrones einmitt að höfða vel til kvenna. Þar er ekki hin týpíska karlkyns hetja í forgrunni, heldur flakkar sjónarhornið á milli margra persóna. Án þess að ég hafi farið í hausatalningu á köflunum, þá held ég að sjónarhornið sé síst minna hjá konum en körlum. Kvenhetjurnar eru mjög ólíkar og á mismunandi aldri, en það sem þær eiga allar sameiginlegt er hversu sterkar þær eru, hver á sinn hátt. Í bókinni má þannig m.a. finna undurfögru, undirförulu og stórhættulegu drottninguna Cersei, hina hugrökku Caitlin, óknyttastelpuna Aryu sem stelst til að æfa sig í skylmingum þegar hún á að vera að sauma út, hina rómantísku Sönsu og svo Daenerys sem drottnar jafnt yfir drekum og blóðþyrstum hirðingjum. Sagan sjálf er svo hápólitísk átakasaga með undirferli, svikum og prettum.

Og það eru raunar persónurnar, jafnt kven- sem karlpersónurnar, sem mér finnst helsti kostur bókanna. Því þrátt fyrir að þær séu æði margar þá eru þær margbrotnar, flóknar og manneskjulegar. Og ef ég held samanburðinum við Hringadróttinssögu áfram, þá fellur Martin aldrei í þá gryfju að vera með svart/hvítar eða algóðar/alslæmar söguhetjur. Því hann á það nefnilega til að draga upp einhliða persónu og lýsa henni úr fjarlægð, og hoppa svo inn í hana í næstu bók og neyða mann til að fá samúð með, eða að minnsta kosti skilja, persónu sem maður var búinn að ákveða að væri argasta illmenni.

Mér er fyrirmunað að skilja hvernig má flokka svona bækur sem „boy fiction“, en viðurkenni jafnframt fúslega að ég þekki fullt af strákum sem hafa lesið bækurnar en bara eina stelpu. Mér finnst það skrýtið, því ég þekki þær margar sem hafa legið í Hringadróttinssögu, Harry Potter, Eragon og öðrum fantasíum. Hvað haldið þið að valdi? Afhverju eru svona fantasíur, með drekum og riddurum, „strákabækur“?

*Mér finnst rétt að taka fram að ég hætti ekki að lesa fjórðu bókina af því að mér leiddist. En uppbygging þeirra er þannig að hver persóna fær langan kafla þannig að maður er farinn að lifa sig mikið inn í hennar þráð af sögunni, og svo þegar er stokkið yfir til annarrar persónu þá getur maður farið í svolitla fýlu því mann langar að halda áfram að lesa um persónuna sem maður var að lesa um (þó næsti kafli sé alveg jafn skemmtilegur, maður þarf bara að gefa sér tíma til að komast inn í þann hluta sögunnar aftur). Semsagt, það sem ég er að reyna að segja er að þetta eru bækur sem er auðvelt að leggja frá sér á kaflaskilum og gleyma að taka upp aftur.

P.S. Ég hef annars engar áhyggjur af því að konur muni ekki horfa á þáttaröðina. Því það er enginn annar en ofurfolinn Sean Bean sem leikur þar eitt af aðalhlutverkunum (og á mínu heimili höfum við einmitt verið að rifja upp gamla takta hans með því að horfa á Sharpe myndirnar sem voru alltaf á RÚV svona níutíuogeitthvað).


P.P.S. Áhugasamir geta horft á brot úr fyrsta þættinum af Game of Thrones hér.

15. apríl 2011

Fótspor Áslaugar frá Rauðalandi


Í norskri Hjálpræðishersverslun, eða Fretex, datt ég í bækur. Og auðvitað var hornið með gömlu bókunum mest spennandi. Í þessu horni var bók sem einhverra hluta vegna fangaði athygli mína. Ég fór að glugga í hana þarna á staðnum og mér fannst innihaldið toga mig svo til sín að ég gat ekki annað en keypt bókina. Þetta var ljóðabókin Fotefár (Fótspor) eftir Aslaug Vaa, gefin út af Aschehoug árið 1947, í ódýru og yfirlætislausu bandi eins og títt hefur verið með ljóðabækur.

Eintakið hefur höfundur áritað og gefið í jólagjöf 1949, eða alla vega gefið um jólaleytið (Joli 1949 stendur þar skrifað): „Kjære Finn. Med takk for dette året! Hjarteleg helsing, Aslaug V“. Finnur þessi virðist ekki hafa verið gefinn fyrir ljóðalestur, alla vega hafði hann ekki fyrir að skera nema fyrstu þrjár arkirnar og las því ekki lengra en að blaðsíðu 25, en bókin er 65 síður að lengd. Ég man ekki hvenær ég fékk síðast í hendur bók með óskornum örkum og naut þess vel að ljúka skurðinum fyrir Finn.

Aslaug Vaa fæddist 1889 í Rauland í Telemark og ólst upp í því héraði. Hún starfaði sem blaðamaður og þýðandi í Noregi en bjó líka um skeið bæði í París og Berlín með eiginmanni og börnum og nam þá franskar bókmenntir, listasögu og leikhúsfræði. Það vill svo til að dóttursonur hennar hélt fyrirlestur á Íslandi í vikunni, stjórnmálaheimspekingurinn Jon Elster. Vaa var orðin 45 ára þegar hún gaf út sitt fyrsta höfundarverk, ljóðabókina Nord i leite (1934). Auk átta ljóðabóka skrifaði hún fjögur leikrit. Hún dó árið 1965.
Fotefár er eins og önnur verk Vaa skrifuð á nýnorsku og væntanlega einhverri Þelamerkurútgáfu af henni. Mér finnst einhvern veginn allt önnur tilfinning að lesa nýnorsku en norska bókmálið, það er eins og sambandið við málið verði eitthvað persónulegra, líklega vegna þess hve mikið líkari nýnorskan er íslenskunni. Í bókinni má til dæmis rekast á ýmis orð sem ég man ekki til að hafa séð í annarri skandínavísku, eins og „andlit“, „tindar“ og „stutt“ (svo örfá dæmi séu tekin). Oft er um að ræða íslenskulegar myndir af orðum sem finna má í flestum norrænum málum, eða setningagerð og orðasambönd sem minna á íslensku.
Ýmsir bragarhættir koma fyrir í bókinni en flest eru ljóðin þó á frjálsu formi, óbundin af bragfræðireglum. Vaa virðist hvorki hafa verið það sérstakt metnaðarmál að fylgja slíkum reglum né að hunsa þær, hún gerir það sem hentar hverju sinni, sitt á hvað. Yrkisefnin eru af ýmsum toga en náttúran er áberandi sem og það sem við getum kallað hið manneskjulega. Ljóðin hafa mörg á sér draumkenndan blæ, sum hafa erótíska undirtóna og mörg fela í sér einhvers konar ákall til réttlætis. Það má kannski segja að Vaa fjalli um náttúruna og jörðina, samband manns og náttúru, sambönd manna hvers við annan, bæði á einhvers konar glóbal grundvelli og persónulegum, og svo innra líf einstakra manna. Náttúrulýsingar úr heimahögunum eru í bland við hugleiðingar um stöðu mannsins í heiminum. Í ljóðinu Eg deilir Vaa til dæmis á drottnunargirni og ofmetnun mannsins gagnvart náttúrunni, eða bara heiminum öllum:




Dag einn hef ég þvingað ána til að stansa,
spyrjandi starir hún á mig úr stíflunni
og kallar mig herra.
Þann daginn sem ég hamdi kraft árinnar
og gerði hann að þjóni mínum,
fann ég himin og jörð
hvíla í hendi mér.
Það var þá sem ég fór að velta fyrir mér
hvort það væri ekki ég
sem hefði skapað þau.
(úr Ég)



Pólitíska vitund má greina í fleiri ljóðum í bókinni, meðal annars í titilljóðinu Fotefár sem fjallar um meðferð þeirra „sem hugsa í tölum“ á Afríkubúum. Afríka og samspil Afríku og Vesturlanda virðast hafa verið Vaa hugleikin því eitt af leikritum hennar, Honningfuglen og leoparden (samið og uppfært 1955), fjallar um togstreitu Vestur-Afríkumanns sem snýr aftur til heimahaganna eftir langa dvöl í Norður-Evrópu.

Það sem snertir mig hvað dýpst við bókina er hvernig Vaa nær að sveifla sér fyrirhafnarlaust úr því að horfa inn á við yfir í að horfa út, til dæmis til fjarlægra fjalla, og hvernig maður virðist fylgja henni allan tímann. Í rauninni má kalla þetta baráttubók, hún fjallar um innri baráttu sem ytri og gerir það á einhvern skemmtilega svífandi hátt.

Hafragrautur og ljóð

Um daginn tók ég upp lífsreglu. Það er fátíður viðburður, enda ástæðulaust að setja sér reglur ef litlar líkur eru á að þeim verði framfylgt lengur en viku. Nú er liðinn næstum mánuður og reglan gildir enn sem er merkilega góður árangur. Hún felur í sér að ég eigi ekki að fara út úr húsi á morgnana án þess að hafa borðað morgunmat, alveg sama þótt ég sé orðin sein (sem er algengara en ekki).

Nú er ég orðin rútíneruð í að sjóða hafragraut í svefnrofunum og líka í að hlaupa til, kippa pottinum af hellunni og hreinsa eldavélina þegar sýður upp úr því ekki gef ég mér tíma til að standa yfir pottinum meðan suðan kemur upp. Svo sest ég róleg í nokkrar mínútur og ét grautinn, sem er gott, en stundin fullkomnast ekki nema ég hafi orð fyrir augunum.

Þótt mjólkurfernurnar hafi skánað eftir að hætt var að birta meint ljóð eftir grunnskólanema á þeim duga þær heldur skammt sem lesefni. Svo eru þær ekki eins skemmtilegar og í gamla daga þegar langa heitið á B2-vítamíni var tilgreint til viðbótar við stafinn og númerið (ef ég man rétt); nú er búið að svipta mann möguleikann til að velta vöngum yfir því hvers konar vín þetta ríbóflavín sé eiginlega.

Fljótlega uppgötvaði ég að það hentar fullkomlega að lesa alvöru ljóð í/með morgunmat. Oftast er nokkuð auðvelt að finna mátulegan skammt fyrir mínúturnar sem hafragrautsátið tekur en valið getur samt verið vandasamt því ekki er sama hvers konar ljóð eru lesin í þessu samhengi. Einn morguninn urðu Blótgælur eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur t.d. fyrir valinu. Sú bók hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér síðan hún kom út (og er enn) en ég uppgötvaði að allt hefur sinn tíma og það getur verið áhættusamt að neyta Blótgælna snemma morguns. Ég álpaðist til að opna bókina á upphafsljóðinu, „Morgunn“, sem er svohljóðandi:
með nauðgunarseyðing í klofinu
rauðeygð og einhvers staðar
miðja vegu milli ölvunar og þynnku
skríður dögunin fram úr
lætur fallast á hnén
og ælir litríku hálfmeltu innvolsi sínu
yfir okkur varnarlaus

Í ljós kom að það getur verið allnokkrum erfiðleikum bundið að lesa um ælu og éta hafragraut um leið. Reyndar slapp fyrir horn að ég tæki þátt í uppköstum dögunarinnar en þetta var samt nokkuð brött byrjun á morgninum. Vissulega vaknar maður rækilega við að fá blauta tusku framan í sig en ég hef reynt að velja mér mýkri eða allavega öðruvísi lendingu síðan.

Síðustu daga hafa Tvíbreitt (svig)rúm, Bak við maríuglerið og fleiri af elstu bókum Gyrðis Elíassonar verið á morgunverðarborðinu og bjargað því sem bjargað verður af hverjum degi. (Þökk sé Þórdísi fyrir að minna á þær þegar það fagnaðarefni fréttist að Gyrðir fengi bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs – ég dreif mig á bókasafnið og birgði mig upp en þrái að eignast þessar ljóðabækur einhvern tíma. Veit einhver um eintök sem vantar gott heimili?)

Á þessum tímum þegar tíðarfarið er rysjótt á ýmsum sviðum hefur ljóðið „Orðsendíng til regnfólksins“ (úr Bak við maríuglerið frá árinu 1985) t.d. verið afbragðs upphaf á degi:

í
votviðrinu
sem verið hefur undanfarna daga
hef ég
setið inni
við og
spunnið vef
úr hugsanaþráðum

fljótlega
mun ég
streingja hann
yfir þök
húsanna

strax
og upp
styttir


---------------------

P.S.
Hvað með ykkur, kæru lesendur, lesið þið við morgunverðarborðið? Ef svo er, hvað?

P.P.S.
Fregnir herma að von sé á nýjum ljóðum eftir Kristínu Svövu. Ég bíð spennt eftir að kanna hvernig þau passa við hafragraut á morgnana.

13. apríl 2011

Þegar vinkona mín keypti mér óvart metsölubók


Ég óskaði eftir Amazon kyndli í útskriftargjöf í haust. Það var auðsótt mál, en þegar hann kom til landsins voru flutningsgjöld og tollar hærri en verðið fyrir gripinn sjálfan og ég fékk svo mikið samviskubit að ég borgaði það sjálf.

Og þarsem kyndillinn minn er eina gjöfin sem ég hef fengið og síðan fundið mig knúna til að niðurgreiða, þá hét ég sjálfri mér því að vera dugleg að nota hann. Ég hef staðið svona þokkalega vel við það, enda er þetta hin fínasta græja og þægileg í umgengni. Það sem mér finnst best við hana er hvað maður er fljótur að kaupa sér bækur, maður þarf ekki að fara útí bókabúð eða bíða spenntur eftir sendingu frá útlöndum lengur, heldur ýtir maður einfaldlega á nokkra takka og glæný bók birtist á skjánum. Kaupferlið er þó ef til vill aðeins of auðvelt, einsog ég komst að þegar ég leyfði vinkonu minni að skoða gripinn í örskotsstund og hún keypti mér óvart metsölubók. Amazon gerir sér væntanlega grein fyrir vandamálinu, því það á víst að vera hægt að fara inn á síðuna þeirra og leiðrétta svona mistök, en ég fann ekki útúr því í fljótu bragði og ákvað því bara að treysta á kosmósinn og lesa metsölubókina.

Metsölubókin heitir Water for elephants og er eftir Söru Gruen. Hún er áreiðanlega á metsölulistanum af því að bráðum kemur út kvikmynd sem er byggð á henni með engan annan en Robert Pattinson, Tvælæt-sjarmörinn sjálfan, í aðalhlutverki. Bókin kom víst út á íslensku árið 2008 í þýðingu Karls Emils Gunnarssonar og ég geri fastlega ráð fyrir því að hún verði endurútgefin í kilju með Robert Pattinson á kápunni bráðlega. Bókin fjallar um ungan mann, Jacob Janowski*, sem er við það að ljúka dýralæknanámi þegar hann missir foreldra sína í hræðilegu bílslysi og verður (eðlilega) svo um og ó að hann getur ekki klárað lokaprófið og hleypur út í buskann og stekkur síðan um borð í lest sem brunar framhjá. Lestin reynist tilheyra sirkus sem ferðast um Bandaríkin þver og endilöng. Sirkusstjórinn kemst að því að Jacob er næstum því dýralæknir og býður honum starf. Jacob er ungur og svolítið saklaus. Í sirkusnum er lífsbaráttan hörð og hann lærir ýmislegt af góðhjartaða fílnum Rosie og hinum skepnunum sem hann kynnist þar, og kemst fljótt að raun um að mannskepnan er versta skepnan. Og auðvitað verður hann svolítið ástfanginn líka.

Gruen er sambandið á milli manna og dýra greinilega hugleikið og mér þótti oft nóg um grimmdina sem sirkusdýrin sæta í sögunni. Hún virðist hafa rannsakað söguefni sitt vel, og ég (sem hef eiginlega aldrei skilið hvað fólki finnst svona heillandi við sirkusa) las hana í einum rykk og skemmti mér bara prýðilega vel við lesturinn.

Það eina sem fór í taugarnar á mér var hvað Marlena, aðalkvenhetjan í bókinni, var bjargarlaus. Hún er næstum einsog sirkusdýrin sem sæta illri meðferð; Fallegur sakleysingi sem getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér og Jacob þarf að bjarga.


*Þessi nafngift persónunnar á alveg áreiðanlega eftir að rugla alla Team Jacob liðana í Edward vs. Jacob Tvælæt stríðinu ákaflega mikið í ríminu.

12. apríl 2011

Læðst milli trjánna með Gyrði

Hipp hipp húrra! Mikið voru það ánægjuleg tíðindi sem bárust í dag – nei, ég er ekki að tala um stórfréttina „16 þúsund tonn af fiski í flugfrakt“ sem birtist á RÚV, heldur þá gleðifregn að Gyrðir Elíasson skuli hljóta Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs í ár fyrir smásagnasafnið Milli trjánna.

Milli trjánna, sem kom út hjá Uppheimum fyrir þarsíðustu jól, er æði magnþrungið safn 47 stuttra sagna; eins og ef til vill má segja um höfundarverk Gyrðis í heild eru þetta sögur sem láta lítið yfir sér en eru samt um leið svo stórar, þær teygja sig út fyrir blaðsíðurnar og ramma þeirrar atburðarásar sem lýst er í hverri sögu. Angurværðin er alltumlykjandi sem og óræð eftirsjá, eða kannski löngun eftir einhverju sem aldrei varð. Það er eitthvað haustlegt við stemninguna, eins og skrítna nostalgían sem hellist yfir mann með haustrigningunni, eins og eitthvað sé horfið og komi aldrei aftur.

Þótt bókin sé safarík mæli ég með því að treina sér hana, að minnsta kosti í nokkur kvöld – lesa ekki of margar sögur í einu því þrátt fyrir að þær tengi ákveðið andrúmsloft stendur hver saga sem sterk heild. Þær skilja lesandann gjarnan eftir í lausu lofti, eða öllu heldur þegar ákveðnum hápunkti hefur verið náð, og það sem eftir stendur eru hughrifin fremur en atburðarás eða efnislegt inntak. Þess vegna er vel þess virði að leyfa sér að melta hverja sögu þótt auðvitað langi mann helst að æða áfram og fá að lesa meira.

Í bókinni er mikið af því sem hægt er að kalla fallegan ljótleika, eða kannski ljóta fegurð. Sögur sem lýsa yfirþyrmandi tómleika og einsemd, sögur sem draga fram óvæntan óhugnað eða lýsa óþægilegum hlutum á afar myndrænan hátt. Sumar eru blátt áfram David Lynch-legar í afbökun sinni á hinum kunnuglega veruleika; vængjaða veran í Glerhúsi, tvöfalda tilveran í Gjörningaþoku og Dýrið úr samnefndri sögu eru þeim mun óhugnanlegri vegna þess hve stíllinn er meitlaður og allt að því varfærnislegur. Aðrar eru einfaldlega fallegar á tregablandinn máta; sagan Bókaskápurinn hlýtur að höfða til allra þeirra sem hafa lesið sig í gegnum lífið.

Milli trjánna er hins vegar líka skemmtileg bók og meinfyndin – þótt hin Gyrðislega angurværð sé aldrei langt undan er þetta engin þunglyndislesning heldur þvert á móti; hún fyllti mig að minnsta kosti löngun til að lesa meira, skrifa meira, já og lesa meira af Gyrði því ég á örugglega helminginn af bókunum hans eftir.

Til hamingju með daginn sem að kvöldi er kominn!

Góðar fréttir


Þegar ég var unglingur kom bókin Tvíbreitt (svig)rúm eða Póesíbók númer eitt komma tvö út. Ég las hana í bókabúð og heillaðist svo mjög að ég sagði flestum sem á vegi mínum urðu frá því. Skömmu síðar gaf vinkona mín mér bókina í afmælisgjöf og hafi einhver ljóð verið í uppáhaldi hjá mér síðan eru það þau sem eru í þessari bók. Það er svosem ekkert endilega neitt meira um það að segja og Gyrðir Elíasson er alltaf jafn góður hvort sem hann fær verðlaun eða ekki, en í morgun horfði ég á beina útsendingu á netinu þar sem tilkynnt var að Gyrðir fái Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs og það hafði og hefur miklu meiri áhrif á mig en öll peningaumræðan undanfarið hefur haft.





Hér er smá umfjöllun um bókina Okkurgulur sandur sem kom út fyrir síðustu jól.


Gyrðir ...

... fær verðlaun. Rétt í þessu var tilkynnt að hann hljóti Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs!

4. apríl 2011

Gyrðir Elíasson á afmæli

Í dag, 4. apríl, er Gyrðir Elíasson fimmtugur. Víðsjá á föstudaginn var tileinkuð Gyrði og á vef RÚV má hlusta á þáttinn.
Uppheimar gefa af tilefni afmælisins út þýðingu Gyrðis á safni ljóða eftir 36 skáld víðsvegar að úr heiminum. Það elsta, kínverska skáldið Tao Tsien, var uppi á fjórðu öld en það yngsta, bandaríska skáldkonan Jane Hirshfield, er fædd 1953. Bókin heitir Tunglið braust inn í húsið og í fréttatilkynningu um hana segir:
Hópurinn sem hér hefur valist saman gæti virst sundurleitur við fyrstu sýn – heims þekkt skáld, sem Íslendingum eru að góðu kunn, innan um lítt þekkt ljóð skáld sem ekki hafa verið þýdd áður. Fljótlega koma þó í ljós þeir þræðir sem liggja á milli skálda, þótt þau tilheyri ólíkum menningar heimum. Einn þráður sem má lesa sig eftir er hvernig kínversk og japönsk ljóðahefð hefur markað spor sín í ljóðlist heimsins; annar sýnir hvernig með skáldskapnum er tekist á við skuggana í sálarlífi mannsins. Sterkasti þráðurinn liggur þó í valinu á skáldum og ljóðum því þýðandinn, Gyrðir Elíasson, kynnir hér úrval sem fléttast listilega saman við hans eigin skáldskap.
Ég er komin með eintak af bókinni og ætla að glugga í hana næstu daga og segja ykkur svo nánar frá þeirri lestrarreynslu.
Þórdís

3. apríl 2011

Ragnheiður Gestsdóttir hlaut Sögustein - bókmenntaverðlaun IBBY á Íslandi

Sögusteinn, barnabókaverðlaun IBBY á Íslandi, voru afhent í fjórða sinn í gær 2. apríl, á alþjóðlegum degi barnabókarinnar. Upphæð verðlaunanna er 500 þúsund krónur en þau eru veitt rithöfundi, myndlistarmanni eða þýðanda sem með höfundarverki sínu hefur auðgað íslenskar barnabókmenntir.

Var það einróma álit valnefndar, sem skipuð var Önnu Heiðu Pálsdóttur, bókmenntafræðingi, Ármanni Jakobssyni, bókmenntafræðingi og Rögnu Sigurðardóttur, myndlistarkonu og rithöfundi, að Ragnheiður Gestsdóttir skyldi hljóta verðlaunin. Í greinargerð valnefndar segir meðal annars: Dómnefndin telur að Ragnheiður Gestsdóttir hafi með skáldsögum sínum, myndskreytingum, léttlestrarefni, endursögðum ævintýrum, söngvasöfnum og textasöfnum og fleiru, lagt fram mjög mikilvægan skerf til íslenskra barnabókmennta. Verkin hennar spanna allt frá fyrstu sporum barnsins inn í ævintýraheim bókmenntanna með vísum, söngvum og litlum ævintýrum, alla leið til unglingsáranna með tilheyrandi vandamálum, þroska og uppgötvunar á hlutverki einstaklingsins í lífinu.

Afhending verðlaunanna var lokahnykkur hátíðahalda IBBY á Íslandi vegna dags barnabókarinnar, en sl. fimmtudag, 31. mars, stóð félagið fyrir sögustund 42.000 grunnskólabarna á aldrinum 6-16 ára í einu. Þá var ný íslensk smásaga eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur, síðasta Sögusteinshafa, lesin fyrir alla grunnskólanema á Íslandi og var henni samtímis útvarpað á Rás 1.

Sögusteinn var fyrst afhentur árið 2007. Áður hafa Sigrún Eldjárn, Kristín Steinsdóttir
og Kristín Helga Gunnarsdóttir fengið Sögustein IBBY.

1. apríl 2011

Línudans í Sovétkerfinu

Mig langar til þess að hoppa á vagn þessara skyndilegu afkasta Druslubókakvenda og mæla með ofsalega fínni bók sem ég las fyrir tæpum mánuði. Hún heitir Málamiðlunin, The Compromise í ensku þýðingunni sem ég las, en titilinn kann ég ekki að hafa yfir á upprunalega málinu; hún er eftir rússneska höfundinn Sergei Dovlatov (fæddur 1941, dáinn 1990).

Sögumaður bókarinnar er samnefndur höfundi, blaðamaðurinn Sergei Dovlatov sem vinnur á dagblaði í Tallinn á Sovéttímanum. Hver kafli fjallar um eitt verkefni sem Dovlatov fær í hendurnar og titillinn á bókinni er viðeigandi; sögurnar lýsa ekki síst sífelldum málamiðlunum blaðamannsins, línudansi hans við allar þær fáránlegu aðstæður sem sovétkerfið býður upp á. Einn fyndnasti kafli bókarinnar segir til dæmis frá því þegar stjórnvöld ákveða að fjögurhundruðasti íbúi Tallinn muni fæðast á ákveðnum degi og Dovlatov er sendur á sjúkrahúsið til að finna heppilegan fjögurhundruðasta íbúa. Barn og foreldrar verða auðvitað að vera flekklausir þegnar, sem reynist þrautin þyngri að finna, og þegar Dovlatov loksins dettur niður á hentugt barn (eftir að hafa bandað frá sér einu gyðingabarni og einu sem átti þeldökkan föður) þarf hann að reyna að sannfæra nýbakaða föðurinn um að varpa fyrir róða nafninu sem foreldrarnir höfðu valið á soninn en velja annað og þjóðlegra í staðinn. Í þeim tilgangi fer hann að sjálfsögðu með pabbann á barinn og hellir í hann vodka, sem er ekki óalgeng niðurstaða í sögunum, þar sem fólk bregst ósjaldan við þrúgandi aðstæðum sínum með því að verða dauðadrukkið.

Allur þessi stofnanabundni fáránleiki, hræsni og tvöfeldni hins daglega lífs innan kerfisins og sú passíva vodkaþrungna þrjóska sem blaðamaðurinn ræktar með sér eru auðvitað tragikómísk, en bókarhöfundurinn dansar þann línudans mjög fimlega og tónninn er alveg ómóralskur. Stíllinn er blátt áfram og látlaus en hittir naglann alltaf á höfuðið og bókin er mjög fyndin og skemmtileg þrátt fyrir andlega niðurdrepandi aðstæður sögumannsins.

Þess má geta, ef einhver hugsjónaútgefandi les þessa færslu og ákveður í uppljómun sinni að það sé kominn tími til að Sergei Dovlatov verði gefinn út á íslensku, að nær tilbúin þýðing á annarri skáldsögu eftir hann, Ferðatöskunni, er til á íslensku óútgefin, gerð af einum fremsta Dovlatov-aðdáanda landsins, sem lánaði mér einmitt Málamiðlunina. Ég segi eins og sagt er á er.is: „Ef þú hefur áhuga, sendu mér skiló.“ Þess má einnig geta, fyrir óbreytta áhugasama lesendur, að bæði Málamiðlunin og Ferðataskan eru til í enskri þýðingu á Þjóðarbókhlöðunni.

Kristín Svava