25. janúar 2011

Harðsoðnir jiddískir lögreglumenn



Mér datt í hug að nefna hér bók sem við Guðrún Elsa lásum í skólanum í fyrra og ég hef verið að lesa blaðsíðu og blaðsíðu í aftur upp á síðkastið, ef ske kynni að hún gæti orðið öðrum til ánægju. Það er The Yiddish Policemen´s Union eftir Michael Chabon, sem kom út árið 2007.

Þetta er harðsoðinn reyfari sem telst víst til vísindaskáldskapar ef marka má þær viðurkenningar sem hann hefur fengið, en sú flokkun helgast af því að sögulegt umhverfi bókarinnar er í hvað-ef-stílnum, það er að segja, seinni heimsstyrjöldin hefur farið öðruvísi í bókinni en hún gerði í raun og veru. Það skapar sögusviðið, landsvæði í Alaska þar sem gyðingar settust að í stórum stíl þegar þeir flúðu ástandið í Evrópu í seinna stríði, og hefur mikil áhrif á stílinn, því hann er skotinn alls konar jiddísku slangri og tekur mjög mið af þessum uppruna íbúanna.

Aðalsöguhetja bókarinnar er, samkvæmt harðsoðnu hefðinni, drykkfelldi lögreglumaðurinn Meyer Landsman, sem býr einn í herbergi á hóteli sem má muna sinn fífil fegurri. Landsman er, ekki jafn mikið samkvæmt hefðinni, mjög sympatískur gaur sem, þrátt fyrir að vera kaldhæðinn og orðheppinn harðjaxl, á við alvarlega myrkfælni að stríða og syrgir enn misheppnað hjónaband sitt og eitursvölu lögreglukonunnar Binu, en hún er jafnframt yfirmaður hans.

Ég ætla ekkert að fara út í söguþráðinn hér, það eru glæpir og spilling og grámi og harðir menn sem draga augað í pung og láta snjallyrðin fjúka, svona eins og við á. Þetta er bráðskemmtilegt tvist á harðsoðna reyfarann og áhrif hins jiddíska umhverfis krydda hann vel. Samkvæmt Wikipediu hafa Coen-bræður eitthvað verið að pæla í að kvikmynda bókina og það væri nú ekki leiðinlegt.

Í lokin langar mig svo að mæla með algjörlega ótengdu efni: þáttum Yrsu Þallar Gylfadóttur um dekadens í bókmenntum sem nú er útvarpað á Rás 1 á sunnudögum klukkan 10:15 (blessuð sé nútímatæknin sem gerir manni kleift að ná þeim síðar þótt maður sofi út). Tveir þættir hafa þegar verið fluttir og tveir eru eftir. Skemmtilegt efni og unaðsfögur úrkynjuð tónlist í bland.

Kristín Svava

17. janúar 2011

Tré um vetur

winter-treesTil að rjúfa þögnina hér aðeins þá ætla ég að birta eitt af uppáhaldsljóðunum mínum. Ég set það bara inn í heilu lagi, það er hvortsemer að þvælast í heild sinni víða á veraldarvefnum.

Winter Trees

The wet dawn inks are doing their blue dissolve.
On their blotter of fog the trees
Seem a botanical drawing --
Memories growing, ring on ring,
A series of weddings.

Knowing neither abortions nor bitchery,
Truer than women,
They seed so effortlessly!
Tasting the winds, that are footless,
Waist-deep in history --

Full of wings, otherworldliness.
In this, they are Ledas.
O mother of leaves and sweetness
Who are these pietàs?
The shadows of ringdoves chanting, but chasing nothing.

Sylvia Plath (1962)

Ég veit ekki alveg hvað það er sem mér finnst svona frábært við þetta ljóð, en það hefur höfðað eitthvað ótrúlega sterkt til mín frá því ég las það fyrst einhverntíman í kringum 1992. Fyrsta erindið (Guði sé lof fyrir snara.is, gat ómögulega munað rétta hugtakið fyrir stanza) er bara svo óendanlega fagurt, maður sér einhvernveginn fyrir sér sveitalandslag með háum trjám, og þokuna sem býr til blekmynd af umhverfinu. Kannski er það tímaleysið, hringferð sem engan enda tekur, kyrrðin sem er samt smekkfull af hljóðum, sögum, fortíð; sagan sem endurtekur sig sem heillar í ljóðinu.

Næsta vers verður svo umfjöllun um Arsenikturninn – bókarskömmin sú er eitthvað að vefjast fyrir mér.

Sigfríður

Vísun

Hér er enginn hávaði. Það er allt í lagi og konur líklega bissí við að lesa og gera allskonar eitthvað annað en skrifa um bækur. En Eiríkur Örn skrifar ýmislegt áhugavert um bókmenntir á sína síðu sem vert er að benda á.

Þórdís

7. janúar 2011

Eyru Busters

EyruBursters
Áður en ég fékk bókina Eyru Busters eftir Maríu Ernestam í hendurnar ekki svo löngu fyrir jól hafði ég aldrei séð bókina hvað þá heyrt af höfundinum. Ekki það að ég er ekkert sérstaklega vel að mér í bókmenntum grannþjóða okkar, en hef þó alltaf öðru hvoru tekið syrpur og lesið skáldsögur eftir norræna kvenrithöfunda.  Ég verð að segja að ef ég hefði rekist á bókina í búð eða bókasafni hefði ég sennilega ekki veitt henni mikla athygli og að öllum líkindum fundist kápan svo fráhrindandi að ég hefði sleppt því að taka hana til handagagns hefði ég rekið í hana augun.  Ég er eiginlega mjög hissa á þessari kápu því mér finnast almennt myndir Margrétar Laxness t.d. í barnabókum fallegar og litríkar. Nóg um það.

Ég hafði sum sé engar væntingar til bókarinnar þegar ég hóf lesturinn og verð að segja það að ég datt algjörlega inn í hana. Miðað við útlitið á bókinni og titilinn hefði ég haldið að söguhetjan væri væmin rósatýpa sem næði huggulegu trúnaðarsambandi við þennan hryllilega ljóta hund sem kápumyndin er af. En sei sei nei, það er nú síður en svo raunin. Söguhetjan er langt því frá væmin og samband hennar við Buster og eyrun hans ansi ólíkt stereotýpísku sambandi barna og hunda. Hún talar að vísu í eyrun hans Busters og þau hlusta, en ekki á þann hátt sem vanalegur er!

Sagan býður uppá áhugavert „twist“ á samband móður og dóttur, og það hvernig söguhetjan tekst á við aðstæður sínar. Sjö ára gömul er hún komin á þann stað að hún skilur að sambandi hennar og móðurinnar er þannig háttað að einungis önnur þeirra getur staðið upp sem sigurvegari – það er ekki pláss fyrir nema aðra hvora. Hún telur sig þurfa að taka ákvörðun, gerir það og fer einbeitt af stað með plan um það hvernig hún muni hrinda ákvörðuninni í framkvæmd.

Bókin er að mínu mati vel skrifuð,  ekki fyrirsjáanleg og tekst af einurð á við aðstæður, tilfinningar og gjörðir sem eru, svo vægt sé til orða tekið, óvanalegar og mjög dökkar.

Sigfríður