17. október 2010

Erfitt að finna góðar metsölubækur?

harlekinAf einhverjum ástæðum tekst mér alltaf að gíra upp í mér einhverja spennu fyrir því hver fái Nóbelinn í bókmenntum. Í kringum Nóbelsverðlaunatilkynninguna heyrist alltaf umræðan um hvort höfundurinn sem vinnur happdrættið sé frægur/ekki frægur, hvort fólk þurfi almennt að gúggla viðkomandi og hvort bækur viðkomandi séu skiljanlegar eða hvort þetta sé óskiljanlegur litteratúr fyrir einhverja útvalda furðufugla.  Fólk hefur allskonar skoðanir á málunum og í ár birtist að venju einhver könnun, samdægurs eða daginn eftir að verðlaunahafinn var tilkynntur,  þar sem fram kom að sjötíu og eitthvað prósent Svía hefðu aldrei heyrt minnst á Vargas Llosa (túlki fólk tilgang og niðurstöður svona kannana eins og það vill).

Um daginn spurði Dagens Nyheter Peter Englund, ritara (er hann ekki kallaður ritari?) Sænsku Akademíunnar, sem velur þann sem fær Nóbel í bókmenntum, þriggja spurninga um hvernig bókmenntaverðlaunahafinn sé valinn. Í þessu stutta viðtali kemur fram að þeir sem vonast eftir því að Bob Dylan eða James Ellroy (sem er í uppáhaldi hjá Englund) fái Nóbelsverðlaun ættu ekki að gera sér miklar vonir. Síðan 1901 hefur Sænska akademían einungis veitt Nóbelsverðlaun fyrir prósa, ljóð og leikbókmenntir fyrir fullorðna (blaðamaðurinn telur þessa tvo fyrrnefndu karla greinilega ekki skrifa svoleiðis texta).  Peter Englund segir að það sé ekkert í erfðaskrá Nóbels sem segi til um hverju skuli farið eftir þegar verðlaunin eru veitt en barnabókmenntir eða dægurlagatextar hafa þó aldrei fengið Nóbel (meðan Astrid Lindgren var á lífi voru oft í gangi undirskriftalistar þar sem þess var krafist að hún fengi verðlaunin). Englund segir að það væri hægt að veita Dan Brown Nóbelsverðlaun en hann spyr til hvers það ætti að gera, verðlaunin geri það mögulegt að draga fram mikilvægari bókmenntir. Blaðamaðurinn spyr hvort mikilvægar bókmenntir sé ekki að finna meðal þess sem er á vinsældarlistunum en P.E. segir (hlæjandi) að þær þurfi ekki að draga fram því þær séu vinsælar. Síðan segir hann að það sé ekkert skilyrði að benda á eitthvað sem fáir þekkja en að málið snúist um bókmenntaleg gæði og hans skoðun sé sú að það sé mjög erfitt að finna vinsæla höfunda sem standi undir þeim kröfum sem Akademían krefst.

Þórdís

P.S. Já og eitt í viðbót. Annað tölublað Spássíunnar, sem er fínasta menningarrit sem að miklum hluta fjallar um bókmenntir, kom út um daginn og fæst í mörgum búðum og það er auðvitað líka hægt að gerast áskrifandi. Spássían er með feisbúkksíðu og  hér eru líka upplýsingar.

Engin ummæli: