15. október 2010

Bráðum koma blessuð jólin

Jólabókaflóðið árlega er við það að bresta á. Jólin eru líka örugglega í næstu viku eða þarnæstu, allavega er byrjað að auglýsa Frostrósatónleika og senn munu feisbúkkstatusar vina minna meira og minna snúast um lakkrístoppabakstur, jólakortaföndur og skápahreingerningar. Ég sjálf er með gríðarlega metnaðarfull áform sem snúast ekki um neitt af því fyrrnefnda heldur um að lesa fullt af bókum sem koma út núna fyrir jólin og skrifa um þær á þessa síðu og svo ætla ég að tuða hæfilega mikið í hinum druslubókagellunum um að lesa og skrifa eins og óðar og rífa niður draslið og mæla með allri snilldinni. En góð áform eru náttúrlega bara góð áform, það er enginn að segja að maður þurfi að standa við þau!

Nú um stundir er ég hins vegar dálítið að lesa ljóð eftir Fredrik Lindström sem er netttilgerðarleg fjölmiðlafígúra og rithöfundur í Svíþjóð.  Ljóðin hans Fredriks minna mig töluvert mikið á ljóð Vitu Andersen, sem ég las mér til óbóta einhverntíma á síðustu öld. Það er eitthvað skemmtilegt við það. Hún skrifaði líka smásagnasafnið Haltu kjafti og vertu sæt og Fredrik hefur skrifað smásögur sem eru líka svolítið undir áhrifum frá Vitu Andersen.*

Að lokum ætla ég að ljóstra upp hvernig kápan á bókinni minni, Leyndarmál annarra,  er til komin. Maður kaupir sér veggfóður á fornsölu í útlöndum og er með góð áform um að betrekkja skrifstofuna eða svefnherbergið, en gerir ekkert í málunum og skrifar í staðinn bók og fer svo með veggfóðrið til bókaútgefandans sem kemur því til hönnuðar sem breytir því snilldarlega í bókarkápu.

Leyndarmál

* Fyrir þá sem skilja sænsku er hér fyrir aftan krækja á þúskjá þar sem Fredrik Lindström les smásöguna sína Bara knulla lite sem útleggst á góðri íslensku Bara ríða smávegis: Bara knulla lite.

Þórdís

1 ummæli:

Palli sagði...

Fyrst þú nefnir Fredrik Lindström þá stenst ég ekki mátið að bæta aðeins við. Fredrik er afar skemmtilegur náungi og fór óhefðbundna leið að fjölmiðlafrægð. Hann var doktorsnemi í málfræði við Uppsalaháskóla þegar ég var þar, og umdeildur mjög, því hann var í allt öðrum pælingum en flestir aðrir, velti fyrir sér daglegu máli og margræðni á frumlegan og fyndinn hátt sem hann notaði síðar í uppistand. Hann mætti miklu mótlæti við Stofnunina í norrænum málum - ég var eiginlega sá eini sem fílaði hann - og hrökklaðist loks í burtu, því miður. Svo varð hann þekktur sem grínstæðingur og síðar gerðu hann og Kristian Luuk mjög fyndna útvarpsþætti sem slógu í gegn. Fredrik hefur að mínu mati skrifað fínar bækur og greinar um sænskuna, fer allt aðra leið en td Eiður Guðnason og miklu farsælli. Þannig hefur hann náð til mikils fjölda og fengið fólk til að hugsa öðruvísi og á meira skapandi hátt um sænskuna, en allir málfræðingarnir, hans gömlu lærifeður sem vörpuðu honum á dyr, til samans.