27. ágúst 2010

Reyfarasumri hallar...

Unknown-1bilden153710
Nú tekur reyfarasumarinu mikla að halla og svei mér ef ég hef ekki ofgert mér í glæpasögunum í bili (sem er kannski ekki skrítið þar sem ég sit nú föl og fá með tuttugasta krimmann í skjálfandi höndunum). Þetta lesefni hefur ekki gert ofsóknaræði mínu mikinn greiða en jafnvel á mínum bestu stundum lít ég áhyggjufull um öxl meðan ég feta varlega lífsins veg. Nú ligg ég andvaka á nóttunni og hugsa um hversu auðvelt sé að eyðileggja líf fólks – og hvað fólk sé ótrúlega grunlaust þegar slíkt gerist. En ég mun ekki fljóta sofandi að feigðarósi með ofsóknaræðið í farteskinu!
En í öllu falli – að loknum lestri á Rauðbrystingnum og Nemesis eftir Jo Nesbö þyrsti mig að sjálfsögðu í frekari fréttir af Harry Hole. Eftir þau válegu tíðindi frá útgefendum að næsta bók kæmi út 2011 festi ég kaup á The Devil´s Star og The Redeemer á ensku og tók þær með mér í sumarfríið.
Enska þýðingin reyndist vera ágæt og því ekki yfir neinu að kvarta þar og bækurnar sviku svo sannarlega ekki – það var rétt svo að ég mætti vera að því að skoða Colosseum í Róm því Harry Hole stóð í stórræðum og ekki á það hættandi að skilja við hann lengi í einu. Án þess að tíunda söguþráð bókanna er óhætt að segja að tveir stærstu erkióvinir Hole – Bakkus og Tom Waaler - herji á hann sem aldrei fyrr og lesandinn svitnar og rífur næstum þvældar blaðsíðurnar úr í flettingum (reyndar var 40 stiga hiti í Róm svo það spilaði mögulega inn í þvældu blaðsíðurnar). Ég mæli mjög með því að fólk lesi bækurnar í réttri röð því þótt einstakt sakamál sé leyst í hverri bók er tryllingslega spennandi þráður sem vefur sig áfram gegnum bækurnar og sér ekki fyrir endann á (ég er að sjálfsögðu búin að panta mér The Snowman).
Frá Harry Hole og herónínsjúklingunum við Grönland í Osló lá leið mín Kaupmannahafnar þar sem eiturlyfjastemningin féll í skuggann af mansali og illri meðferð á barnungum stúlkum. Aldrei framar frjáls eftir Söru Blædel er önnur bókin í flokknum um lögreglukonuna Louise Rick en sú fyrsta er Kallaðu mig prinsessu. Bókin er ekki jafn tryllingslega spennandi og bækur Nesbö en bætir að sumu leyti upp fyrir það með raunsæislegu og vonleysislegu andrúmslofti (fyrir suma hljómar þetta væntanlega ekki eins og spennandi uppbót). En þótt hasarinn sé minni en hjá Nesbö er ofbeldið og eymdin þó ekki skorið við nögl og dregur markvisst úr manni lífslöngunina.

Louise Rick er engin galdramaður eins og kollegi hennar Hole sem með lygilegu innsæi og ótrúlegri hörku tekst alltaf á endanum að yfirvinna hindranir. Hjá Blædel er lausnin eða niðurstaðan (ef kalla má bókarlok svo) ófyrirsjáanleg fyrir aðalsöguhetjuna ekki síður en lesandann og tilgangsleysi og ömurleiki atburða hefur áhrif á báða.Þetta rausæi nær lengra – á meðan Hole leysir málin meira eða minn einn – oftar en ekki á flótta sjálfur þá á starfslið dönsku lögreglunnar í stökustu vandræðum með að sinna grundvallar rannsóknarstörfum vegna niðurskurðar. Það þarf bæði mannskap og tíma til að staðfesta hitt og þetta og ef leyfi fæst til að grafast nánar fyrir um eitthvað atriði bitnar það iðulega á öðru máli. Hole er með puttann á undirheimapúslinum um leið og hann stígur inn á rónakaffihúsið sitt á meðan lögreglan í Köben gengur rauða hverfið fram og til baka í þrjá sólarhringa og reynir að fá fólk til að tala án þess að verða nokkurs vísari...hugsanlega hefur Hole meira street credit en Louise Rick eða þá að norskt ógæfufólk er málglaðara en það danska. En hvað sem líður trúverðugleika Harry Hole vermir hann þó sennilega enn toppsæti norrænu þunglyndis löggunnar í mínum huga – hvað get ég sagt – þetta eru stórskemmtilegar bækur!

Ólík áhersla Nesbö og Blædel á raunsæi og hraða gleður mig reyndar - þótt reyfararamminn sé þröngur er sem betur fer pláss fyrir ólíkar nálganir – jafnvel innan enn þrengri ramma skandinavísku samfélagsgagnrýnu samtíma glæpasögunnar!

Maríanna Clara

Glæpir eftir Ferdinand von Schirach

Glæpir eftir Ferdinand von Schirach hefði sennilega ekki vakið sérstakan áhuga minn ef ég hefði rekist á bókina úti í búð. Í káputextanum er innihaldið kynnt sem sannar sögur úr starfi „stjörnulögfræðings“. Síðastnefnda orðið virkar fráhrindandi á mig og þetta með sönnu sögurnar vakti upp hugrenningatengsl við dálkinn „sönn sakamál“ í DV og tímarit með sama eða svipuðu nafni sem ég veit ekki hvort enn er gefið út. Þótt ég hafi gjarnan lesið háttar efni þegar ég var barn dalaði áhuginn verulega fyrir allnokkru síðan.

En þar sem ég er í neon-bókaklúbbnum var ég svo heppin að fá Glæpi inn um bréfalúguna. Bókina hefði reyndar auðveldlega getað dagað uppi í stafla með ólesnum bókum sem missa aðdráttaraflið jafnt og þétt eftir því sem þær liggja lengur óhreyfðar. Eitt kvöldið þegar ég ætlaði bara að lesa agnarlítið áður en ég slökkti á lampanum og færi að sofa greip ég þó Glæpi fyrir hálfgerða tilviljun. Ég hélt að þetta væri upplögð bók til að glugga örlítið í og henda svo til hliðar þannig að ég færi kannski að sofa á skikkanlegum tíma til tilbreytingar, hún gæti varla verið það áhugaverð að ég læsi lengur en ég ætlaði. Fordómarnir reyndust ekki á nokkrum einustu rökum reistir. Ég hætti ekki lestrinum fyrr en ég var búin með bókina og svefninn frestaðist ennþá lengur því ég lá drjúga stund og velti fyrir mér þessum ótrúlegu sögum.

Orðið „ótrúlegt“ er ekki notað út í loftið því ýmsar áhugaverðar spurningar sem tengjast sannleiksgildi vöknuðu við lesturinn. Tekið skal fram að yfirleitt er mér eiginlega sama um hlutfall einhvers sem rúðustrikað fólk gæti kallað raunveruleika eða sannleiksgildi í skáldskap, t.d. að hve miklu leyti bækur á borð við Albúm e. Guðrúnu Evu Mínervudóttur eða Heim til míns hjarta e. Oddnýju Eir Ævarsdóttur eru sjálfsævisögulegar eða skáldaðar, svo ég nefni tvær stórgóðar bækur þar sem mörkin eru markvisst gerð þokukennd. Ef texti er gefinn út undir þeim formerkjum að vera skáldaður er sjaldgæft að ég láti vangaveltur um meintan veruleika raska ró minni. Ef saga er góð er hún sönn, og ég er vön að vera fullkomlega sátt við gráu svæðin milli þess sem er „satt“ og „logið“ (innan afgerandi gæsalappa) í skáldskap.

Einhverra hluta vegna tók ég Glæpum þó öðruvísi í fyrstu. Þar koma sennilega bæði til orðin um sönnu sögurnar á kápunni og hlutlægni höfundarins þar sem smáatriði eru notuð í alveg mátulegum mæli til að gefa frásögninni líf. Strax í byrjun fyrstu sögunnar eru t.d. tilgreind nöfn og staðsetningar, fram kemur að aðalpersónan sé læknir sem skrifi tvö þúsund og átta hundruð lyfseðla á ári og eigi þriggja ára gamlan Benz og svo framvegis og svo framvegis. Ég, sem kæri mig annars kollótta um hvort það er logið að mér í bókum, stóð sjálfa mig að því að velta fyrir mér hvort atburðirnir hefðu virkilega gerst í Rottweil og furða mig á því að sagan sem var svo vel staðsett í rúmi væri það ekki í tíma. Hvenær átti þetta eiginlega að hafa gerst? Ég leitaði jafnvel að formála eða eftirmála þar sem gerð væri grein fyrir því hversu nálægt raunveruleikanum sögurnar væru.

Sem betur fer er ekkert slíkt að finna í bókinni, lesandinn er skilinn eftir með allar spurningarnar og vafann um hvað er satt og hvað logið. Sögunum er ætlað að standa fyrir sínu sem bókmenntaverk og það gera þær svo sannarlega, enda var ég fljót að komast yfir staðreyndaspurningarnar sem sóttu á mig í byrjun. Spennan milli raunveruleika og skáldskapar er samt undirliggjandi í allri bókinni og kemur m.a. fram í þeirri skemmtilegu þversögn að margar sögurnar eru of lygilegar til að vera skáldaðar frá grunni. Efni þeirra flestra er vægast sagt dramatískt. Maður drepur t.d. konuna sína með yfirveguðu axarhöggi í höfuðið eftir áratuga hjónaband. Ungan pilt langar að borða kærustuna sína. En frá öllu þessu er sagt á beinskeyttan og yfirvegaðan hátt. Hlutlægur og látlaus stíll höfundarins er fullkomið mótvægi við melódramað. Þurr húmor spillir ekki heldur fyrir, sem dæmi má nefna persónulýsingu þar sem í framhaldi af stuttri lýsingu á ríkmannlegri en afar ósmekklegri íbúð mannsins kemur fram að hann eigi tvo kjölturakka sem heita Dolce og Gabbana.

Frásagnarhæfileikar Schirachs eru annar af tveimur stærstu kostum bókarinnar, hinn er manneskjulega sjónarhornið sem er ráðandi. Í sögunum eru glæpirnir sjálfir ekki aðalatriðið heldur rætur þeirra og fólkið sem þeim tengist. Hér eru ekki felldir dómar heldur velt upp spurningum og leitað skilnings. Þar með situr lesandinn eftir með fjölmörg umhugsunarefni, um fólk og furður mannlífsins, satt og logið, glæpi og refsingu og sitthvað fleira.

Erna

- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -

P.S. Þegar ég leitaði að efni um bókina á þýskum vefmiðlum rakst ég á fjöldann allan af nýjum viðtölum við Schirach í tilefni af því að önnur bók hans, Schuld (þ.e. sekt), var að koma út (sjá t.d. Die Zeit, Süddeutsche Zeitung, FAZ). Ég er búin að panta hana og bíð spennt eftir að komast að því hvort hún stenst samanburðinn við Glæpi.

26. ágúst 2010

Kona með skjálfta

The Shaking Woman, A History Of My Nerves er nýjasta bók Siriar Hustvedt. Á kápunni er vitnað í Oliver Sacks sem segir verkið ögrandi, fyndið, fræðandi og óvenjulegt. Mér finnst bókin um skjálfandi konuna hins vegar ekkert rosalega ögrandi og áhugaverð þó hún sé engan veginn alslæm.

Í lokaorðum kemur fram að upphaf bókarskrifanna hafi verið fyrirlestur sem höfundurinn hélt um efnið og eigin reynslu á sjúkrahúsi og kannski geldur bókin þess að vera unnin upp úr fyrirlestri, hún fer út um víðan völl og er aldrei sérlega djúp. Hið raunverulega ferli hefst í minningarathöfn um föður Siriar árið 2006, í háskólanum þar sem hann starfaði. Hún er vel undirbúin og á heimavelli en þegar hún fer að tala fær hún gríðarlegan skjálfta í líkamann. Þetta hefur engin áhrif á röddina og hún heldur töluna og hættir síðan að skjálfa. Þessu fylgir að líkaminn blánar. Siri Hustvedt og aðrir vita ekki hvað hefur gerst og menn velta fyrir sér flogakasti, panikkasti eða því sem eitt sinn hét hystería. Ekkert óeðlilegt kemur í ljós við rannsóknir og höfundurinn leitar svara á eigin vegum; hvað veldur skjálftanum?

Bókin fjallar síðan mikið til um könnun hennar á fræðum um líkama og sál, sálfræði, taugalæknisfræði, sögu læknisfræðinnar o.s.frv. Bókin er ekki mjög löng (innan við 200 síður í litlu broti) en hún leitar fanga hér og þar, vitnar í allskonar fólk og fræði og birtir heimildirnar í tæplega 200 aftanmálsgreinum.

Segja má að The Shaking Woman sé heilsufarssaga Siriar Hustvedt, sem hefur alltaf þjáðst af mígreni og fengið ýmsar ofskynjanir og önnur einkenni því tengd. Hún segist líka vera gríðarlega næm og bókstaflega finna sársauka annnara, vegna þess getur hún hvorki horft á ofbeldis- né hryllingsmyndir (við eigum þennan aumingjaskap reyndar sameiginlegan) og var langdvölum á klósettinu í bernsku á meðan systur hennar horfðu á Lassie.

Skjálftinn er ekki bundinn við eitt skipti, hann kemur reglulega þegar hún talar fyrir framan fólk, henni finnst sem framandi kraftar yfirtaki líkamann. Ég hefði haldið að þetta væru frekar algeng viðbrögð á álagsstundu – eitthvað sem margir þekkja og eiga þess vegna erfitt með að tala fyrir framan fólk – en Siri Hustvedt fer samt allavega að rannsaka eigin skjálfta og það gerir hún með hjálp geðlækna, sálfræðinga, heimspekinga og óteljandi margra annarra allt frá gömlu Grikkjunum til Ágústínusar, Wittgensteins, De Beauvoir, Freuds, Lacans og fleiri og fleiri.

Niðurstaðan verður sú að Siri Hustvedt sé bara þessi skjálfandi kona og ekkert við því að gera, það er bara að lifa með því! Hún tekur að vísu lyf sem hjálpa eitthvað en lokasvar bókarinnar er að leitin að svörum, sem slík, sé áhugverð en að manneskjan sitji bara uppi með sjálfa sig. Þetta er svosem alveg ljómandi gott og blessað og góður punktur. Margt fólk mætti alveg sætta sig betur við að við erum öll með okkar einkenni og sérkenni, sum meira sársaukafull en önnur. Það er oft lítið við því að gera annað en að taka lyf, séu þau í boði, gera það sem hægt er að gera til að láta sér líða betur og njóta þess svo að lesa fræðirit og skáldskap í þeirri von að finna einhver svör. Inn í söguna skýtur Siri Hustvedt líka fjölmörgum sjúkrasögum annarra, dæmum af fólki með einkennileg einkenni og ég lærði einhver skemmtileg hugtök af lestrinum, t.d. lilliputian hallucinations, sem er náttúrlega stórkostlega heillandi ofskynjunarheilkenni. Þarna eru líka ansi áhugaverðar sögur af fólki sem er blint og lamað en fer síðan skyndilega að sjá og stekkur af stað eftir margra ára farlömun líkt og biblíulegar persónur.

Því miður verður samt að segjast að ég fann voða lítið nýtt í þessari bók. Því má líklega kenna svimandi aldri og ófáum lesnum blaðsíðum í gegnum tíðina, bókin hefði örugglega haft miklu meiri áhrif á mig fyrir tuttugu árum eða svo. Vangaveltur um sköpunarmátt geðsjúkdóma, þar sem tekin eru dæmi af Paul Celan, Virginiu Woolf, Anne Sexton og fleirum, finnst mér voða þreyttar. Ég er samt ekki að halda því fram að Siri Hustvedt sé svo einföld að hún telji að geðhvarfasjúklingar og aðrir sjúklingar séu almennt skapandi, hún tekur líka skýrt fram að „Illness does not necessarily produce insight“ (177).  

The Shaking Woman á örugglega eftir að verða mörgum hvati til vangaveltna og innblásturs (enda sýnist mér bókin almennt hafa fengið dúndrandi dóma) en ég er allavega löngu búin að afgreiða pælingar á borð við „Can a story ever be true?“ (198) svo að ég gef þessari bók bara þrjár stjörnur eða eitthvað ...

Þórdís Gísladóttir

23. ágúst 2010

Síðasta pulsan á grillinu – bókablogg um Makalaus

makalausSkvísubókin Makalaus eftir Tobbu Marinós fjallar um Lilju Sigurðardóttur og ástarmál hennar. Lilja er 25 ára og vinnur í almannatengslum og markaðsmálum hjá fyrirtækinu Tækn. Hún er „nú alveg makalaus“ (hress og skemmtileg) og bókstaflega makalaus ung kona sem dreymir um að finna hinn fullkomna mann og hamingjuna.

Bókin er samtímasaga úr Reykjavík, málfar bókarinnar er rosalega „2010“ og höfundi tekst, eftir því sem ég fæ best séð, vel að skrifa hugsanir og samtöl ungs fólks í dag. (Vinkona Lilju segir t.d. „Jú, það er næs. Og sæll, kynlífið...“ (131)). Það er svona eftir-hruns-stemming (minnst er nokkrum sinnum á kreppu), en þegar Lilja þarf að markaðssetja nýja símann Zeitung 2000, sem á að taka við af Blackberry, sést hve lítið hefur breyst. Hún heldur símatískusýningu sem gæti verið beint upp úr bók eftir Steinar Braga, nema hér á hún ekki að vera óhugnarleg:

„Flottar fyrirsætur í húðlituðum þröngum samfestingum munu ganga fram sýningarpall. Þær stoppa við endann á pallinum og taka myndir með símanum, svara símtali og svo framvegis til að sýna virkni símans. Það sem sést á skjánum hjá þeim birtist líka á tjaldi fyrir aftan þær.“ (84)

Sýningin vekur mikla aðdáun, síminn selst grimmt og Lilju tekst að heilla einn ríkasta mann Íslands (einn af þeim sem komst vel frá hruninu) með ferskum hugmyndum sínum.

Fleira gerir bókina að samtímasögu, hver kafli hefst til dæmis á facebook-status, með tilheyrandi kommentum og lækum. Þetta minnir á bókina Flottastur@facebook sem fjallað hefur verið um á þessari síðu, en það vill svo skemmtilega til að Hákon Karl, aðalpersóna F@f, skýtur upp kollinum í örskamma stund í Makalaus. (Eru að verða til einhvers konar facebookbækur þar sem persónurnar þekkjast innbyrðis?!) En það er ekki bara facebook og hrunið sem skjóta upp kollinum í bók Tobbu, heldur líka gosið í Eyjafjallajökli. Lilja verður ástfangin og ber tilfinningar sínar saman við gosið:

„Mig langar allt í einu upp að gosinu. Standa á Eyjafjallajökli og stara. Á mörkum brjálaðs kulda og hita. Þannig líður mér. Það veit enginn hvað gosið mun standa lengi yfir. Fólk spáir og spekulerar.
Ég veit heldur ekki hvað gosið í mér stendur lengi.“ (264)

Lilja er vinamörg, falleg og skemmtileg, en henni finnst eitthvað vanta í líf sitt. Rétta manninn. Þetta er ekki einhver óþægileg tilfinning sem gerir vart við sig að öðru hvoru, eða hugsun sem skýtur stundum upp kollinum, heldur fer nokkurn veginn öll hennar orka í að hugsa um karlmenn á einn eða annan hátt. Hún veltir mikið fyrir sér stefnumótamenningu í Reykjavík og rifjar upp gömul stefnumót og veltir fyrir sér þeim nýjustu. Í bókinni eru stefnumót ekki einföld skemmtun, maður fær það reyndar á tilfinninguna að þau séu algjör höfuðverkur. Maður á að passa að líta ekki út fyrir að hafa reynt of mikið. Bíó er bannað þangað til eftir fjórða stefnumót. Ef maður ætlar að sofa hjá er eins gott að vera í samstæðum nærfötum. Og karlmenn eiga ekkert að borga allt, en það er bæði sanngjarnt og herramannslegt að þeir borgi annað hvert skipti. Þetta eru bara nokkrar af „reglunum“. Síðasta reglan sem ég taldi upp, þessi um að karlmenn eigi að borga allt annað hvert skipti, en annars bara helminginn, einkennist af hugarfari sem nokkuð ber á í bókinni. Hugarfari sem ég hélt að væri úrelt. Annað dæmi um þetta hugarfar er þegar Lilja lætur sig dreyma um að giftast ríka manninum sem hún er skotin í og veltir því þá fyrir sér hvort hún myndi hætta að vinna (og verða þá fjárhagslega alveg háð honum).

Annað meginumfjöllunarefni bókarinnar er útlit Lilju. Við fylgjumst með sögupersónu í ellefu vikur (bókin er á dagbókarformi) og í byrjun hverrar viku fáum við að vita hvað hún er þung eða hversu mikið hún hefur lagt af síðan í síðustu viku. Þyngdin er stundum sett í samhengi við hvernig henni líður þá stundina, þ.e. hvort hún er ástfangin eða ekki. Lilja gerir reglulega lista yfir það sem hana vantar í lífinu og (fyrir utan kærasta) eru það bara fegrunarvörur og föt. Hún heldur því fram að oftast sé hún að gera sig til fyrir sjálfa sig:

„Ég er alger hælakona og hugsa mikið um útlitið. Er ekkert heltekin af því en vil líta vel út og þótt margir – sérstaklega karlmenn – misskilji það þá er ég yfirleitt að hafa mig til fyrir sjálfa mig.“ (24)

Ég ætlaði fyrst að skrifa að þessi bók stæðist ekki Bechdel-prófið sem er stundum notað á kvikmyndir (http://bechdeltest.com/). Þá þarf mynd að uppfylla þrjú skilyrði: 1) að það séu tvær eða fleiri konur í myndinni – tékk, 2) að konurnar tali saman - tékk og 3) að þær tali saman um eitthvað annað en karlmenn. Makalaus slapp fyrir horn vegna þess að konurnar tala ekki eingöngu saman um karlmenn, heldur líka útlitið.

Lilja á traustan vinkvennahóp sem hún dýrkar, en vandamálið er að hún er sú eina í hópnum sem er ennþá á lausu. Þegar hún hugsar um sambönd vinkvenna sinna verður hún örvæntingarfull, henni líður eins og hún sé síðasta kótelettan í kjötborðinu sem enginn vill. Eða þá síðasta pulsan á grillinu sem er að verða köld og enginn vill borða. Þetta orðalag er reyndar dæmi um húmor höfundar, sem er svo steiktur og skemmtilegur að hann dregur jafnvel athygli lesanda frá því hversu niðurdrepandi innihald bókarinnar er.

Það er húmorinn í bókinni sem kemur manni í gegnum hana. Lilja heldur því fram að konur komist áfram á vinnustaðnum vegna þess að þær eru klárar, ekki út af útlitinu. Samt hugsar aðalpersóna ekki um neitt annað en karlmenn og útlit. Hún segist vera hætt að telja kíló vegna þess að hún sé ástfangin – en tveimur blaðsíðum seinna er hún komin á viktina í ræktinni og dáist að því að „kílóin hrynji bara af.“ Hún ætlar að hætta að lifa eftir listum (yfir það hvað hana vantar og hvað hún þarf að gera til að verða hamingjusöm/ná í mann), en skrifar samt lokalista til að lifa eftir í bókarlok. Húmorinn sættir mótsagnirnar í textanum og hjálpar okkur að hlæja að dapurlegum heimi, hann losar um spennuna til þess að lesendur geti haldið áfram þessum óþarfa „leik“ sem samskipti kynjanna eru (samkvæmt bókinni). En þökk sé öllu gríni bókarinnar, hef ég líklega aldrei skemmt mér jafn vel við að lesa eitthvað jafn niðurdrepandi.

Guðrún Elsa Bragadóttir