23. júlí 2010

Hamfarir í Múmíndal og nágrenni

Múmínálfabækurnar eru mörgum kærar og nýlega var stofnuð Facebook-síða þar sem hvatt er til að bækurnar verði endurútgefnar á íslensku. Mörghundruð manns hafa fagnað því framtaki. Þess vegna datt mér í hug að setja inn greinina hér fyrir neðan sem birtist í tímaritinu Börnum og menningu sem kom út í vor. Það eru ekki eintóm krúttheit í Múmíndal!

Árið 2010 er haldið upp á að sextíu og fimm ár eru síðan fyrsta bók Tove Jansson um múmínálfana og vini þeirra kom út. Bókin heitir Småtrollen och den stora översvämningen en þar birtust í fyrsta skipti opinberlega Múmínsnáðinn og mamma hans. Þau voru í fyrstu dálítið grannleitari en síðar varð en viðkunnanlegu mæðginin eru að öðru leyti sjálfum sér lík. Ári síðar, eða 1946, kom síðan út það verk sem er frumgerð bókarinnar sem við köllum Halastjörnuna en hún hét upphaflega Kometjakten. Skömmu síðar breytti höfundurinn henni dálítið og þá fékk hún nafnið Mumintrollet på kometjakt en árið 1968, eftir endurbætur, varð titill bókarinnar Kometen kommer.

Tove Jansson fæddist í Helsingfors 1914 og lést árið 2001. Hún starfaði sem myndlistarkona og rithöfundur í yfir sjötíu ár. Tove hóf ferilinn formlega árið 1928, þá fjórtán ára, sem myndskreytir í tímariti og fyrstu skopteikningarnar birti hún fimmtán ára. Nítján ára átti hún fyrst verk á sýningu en 1943 hélt Tove sína fyrstu einkasýningu, þá var hún byrjuð að skrifa stuttar sögur sem birtust í ýmsum tímaritum og árið 1945 birtist, sem fyrr segir, fyrsta múmínálfasagan í bókabúðum. Småtrollen och den stora översvämningen var gefin út samhliða í Stokkhólmi og Helsingfors. Bókin fékk engar sérstakar viðtökur og aðeins einn ritdómur birtist um hana en á eftir henni fylgdu Halastjarnan (1946) og Pípuhattur galdrakarlsins (1948) og eftir þá síðari má segja að höfundurinn hafi verið búinn að skapa sér rithöfundarnafn í Finnlandi og Svíþjóð. Á sjötta áratugnum varð Tove Jansson stór höfundur á heimsvísu, myndabækur um múmínálfana komu út í Englandi, bækurnar komu síðan út ein af annarri í ýmsum löndum, sett voru upp leikrit um múmínálfana á Norðurlöndum og snemma var hugmyndafræði og heimspeki þessara verka rædd á menningarsíðum blaða jafnt sem í háskólum.

Múmínálfar í heimsstyrjöld
Tove leit alltaf fremur á sig sem myndlistarkonu en rithöfund og teikningar hennar eru órjúfanlegur hluti Múmínálfabókanna, myndir og texti eru alltaf samofin. Í Helsingfors var lengi gefið út pólitískt rit á sænsku sem hét Garm. Þar sló Tove fyrst í gegn sem skopmyndateiknari og segja má að hún hafi þróað stíl sinn á þeim vettvangi, en fyrir blaðið vann hún í fimmtán ár. Á heimsstyrjaldarárunum teiknaði hún myndir af illilegum Hitler og grimmilegum Stalín, hún var stundum ritskoðuð og þótti vera beittasti skopmyndateiknari Finnlands. Það var í fyrrnefndu tímariti sem múmínálfur birtist fyrst opinberlega en þá hét hann Snork. Þetta var árið 1943. Þessi vera varð eins konar vörumerki Tove, hún merkti teikningar sínar með litlum múmínálfi. Þegar þarna var komið sögu var múmínálfurinn með mjórra nef en seinni tíma fígúrurnar, eyru í spíss og langt skott. Mumintrollets underliga resa kallaði Tove Jansson fyrstu múmínálfafrásögnina í minnisblöðum sínum árið 1944. Hún skrifaði hana þegar vetrarstríðið geysaði 1939-1940, Finnland var í höndum Sovétríkjanna og Stalín var hinn ógnandi einræðisherra. Í þessari bók eru múmínsnáðinn og mamma hans í leit að heimili fyrir veturinn. Á ferð sinni rekast þau á lítið „barn“ sem er sá sem seinna fékk nafnið Sniff eða Snabbi og þar með fer fjölskyldan að myndast. Pabbinn er horfinn og óvíst hvort hann sé týndur, á lífi eða einfaldlega stunginn af. Sundrun fjölskyldunnar, leit að heimili og þrá eftir öruggum samastað einkennir söguna. Sem fyrr segir er þessi fyrsta múmínálfasaga skrifuð í miðri heimsstyrjöld og hún lýsir í raun sundraðri fjölskyldu á stríðstímum, það er kalt og múmínálfana vantar skjól yfir höfuðið. Þetta fyrsta handrit af sögu um múmínálfa sendi Tove til forlags en bókin kom ekki út fyrr en töluvert seinna eða 1945. Sagan hafði þá þróast og hét sem fyrr segir Småtrollen och den stora översvämningen Þarna fæðist múmínsnáðinn sem bókmenntapersóna í texta og mynd. Orðið mumintroll eða múmínálfur hafði þó lengi verið til í orðaforða fjölskyldunnar. Tove sagði það komið frá sænskum móðurbróður sínum sem kom að henni sem krakka að næla sér í mat úr búrinu og varaði hana við múmínálfi sem byggi á bak við ofninn og kæmi fram og nuddaði snoppunni við fæturna á henni ef hún væri að þvælast um í búrinu og stela. Fyrsta múmínálfabókin er eins konar sköpunarsaga. Mamman og sonurinn leita að stað til að búa á yfir veturinn, pabbinn er einhversstaðar á ferð með hattíföttunum og fram kemur að múmínálfarnir liggja í dvala frá því í nóvember og fram í apríl, sem er afar hentugt þar sem þeir eru lítið fyrir kulda og myrkur.

Hamfarir og heimspeki
Múmínmamman er frá upphafi lykilpersóna í bókunum um múmínálfana. Hún heldur í alla þræði og í fyrstu bókinni passar hún múmínbarnið sitt, tekur Snabba að sér og bjargar læðu með kettlinga sem lent hefur í flóðbylgju. Persónueikenni hennar eru góðmennska og jafnaðargeð, gestrisni og örlæti, allir eru alltaf velkomnir í múmínhúsið. Fyrstu bókinni lýkur á því að mamman leiðir soninn inn í múmínhúsið og allt fellur í ljúfa löð. Þegar þessi fyrsta múmínálfabók kom út var Tove sem fyrr segir þekktur listamaður í Helsingfors. Hún sagði síðar frá því að það hefðu verið hinir hryllilegu stríðstímar sem hefðu fengið sig, sem leit í raun á sig sem myndlistarmann, til að byrja að skrifa lengri sögubækur. Í stríðinu féllust henni á tímabili hendur við myndlistarsköpunina. Sögurnar um múmínálfana buðu upp á annars konar tjáningu en myndlistin, það var hægt að túlka vonir og drauma, örvæntingu og depurð, aðskilnað og sameiningu betur í texta en mynd. Á vissan hátt var veröld múmínálfanna heimur sem gott var að flýja til þegar stríðið geysaði, veruleikaflótti inn í barnalegan heim þar sem hlutirnir voru í jafnvægi, leið til að láta sig dreyma um aðra og betri veröld en stríðsveruleikann sem hún skrifaði mikið um og lýsti í beittum teikningum í tímaritinu Garm. En sögurnar um múmínálfana eru samt miklu stærri vettvangur en ætla má við fyrstu kynni. Í bókunum er mikið um flóttamenn, heimilislausa og ýmiss konar hamfarir. Hamfaraþemun endurtaka sig í sífellu í bókunum. Í grunninn höfum við fjölskyldu sem lifir í fallegum dal í friðsamlegum heimi. Þetta er dásamleg veröld þar sem íbúarnir lifa í sátt við náttúruna og sjálfa sig. Síðan birtist alltaf einhver ytri ógn sem veldur upplausn og tímabundinni ringulreið, persónurnar fara á flandur og týna hver annarri, lenda í ævintýrum og síðan leysist úr öllu með einhverjum hætti í lok hverrar bókar. Þeir sem hafa lesið bækurnar um múmínálfana sem hafa komið út á íslensku þekkja þetta vel. Í Örlaganóttinni kemur flóðbylgja og múmínfjölskyldan og vinir þeirra neyðast til að leggja á flótta, þau sundrast, nokkur þeirra setjast að í fljótandi leikhúsi og síðan finna þau smám saman hvert annað og rata heim. Í Vetrarundrum í Múmíndal eru vetrarhörkurnar ógnin, í Eyjunni hans múmínpabba er tekist á við óblíð náttúruöfl og innri demóna og í Pípuhatti Galdrakarlsins eru það galdrar sem tengjast hatti og ógnvænlegur galdrakarl ásamt hinum ískalda Morra sem ógna íbúum Múmíndals.

Halastjarnan
Hamfaraþemað er frá upphafi augljóst í Halastjörnunni, sem er sú bók um múmínálfana sem kom út á eftir fyrstu bókinni. Halstjarnan var skrifuð 1945-1946. Í bókinni eru alvöru náttúruhamfarir yfirvofandi – heimsendir er á næsta leiti! Upphafleg gerð Halastjörnunnar hefst með dularfullum og biblíulegum táknum – maurum og máfum sem mynda stjörnu með hala. Vísað er í Gamla testamentið, spádómar opinberast um að senn muni hamfarir bresta á. Í fyrsta kafla þeirrar gerðar bókarinnar sem til er á íslensku brestur á óveður og í öðrum kaflanum kemur í ljós að heimsendir er í nánd. Dularfullur grámi leggst yfir allt; himinninn, trén, húsið, allt er orðið grátt og ömurlegt. Síðan kemur í ljós að von er á halastjörnu sem mun rekast á jörðina á ákveðnum degi og ákveðnum tíma. Í Halastjörnunni er Bísamrottan mikilvæg persóna. Bísamrottan bankar upp á í lok fyrsta kafla í miklu óveðri þar sem húsinu hennar hefur skolað burt. Það kemur hvergi fram í texta bókarinnar en hins vegar má sjá á myndinni af Bísamrottunni í hengirúminu að hún er að lesa bók eftir þýska heimspekinginn Osvald Spengler en bók hans um fall vestrænnar menningar Der untergang des Abendlandes kom út 1918-1922 og var mikið lesið rit á sínum tíma. Í myndasögu um Halastjörnuna sem kom út síðar sést allur titill þeirrar bókar. Bísamrottan fræðir múmínsnáðann rólega og yfirvegað um að jörðin sé að farast og segir ekkert hægt að gera í málunum, jörðin sé einfaldlega að farast, en hún segir líka frá geimrannsóknarstöð í Einmanafjöllunum þar sem prófessorar vinna í turni á hæsta tindi og skoða stjörnurnar. Múmínsnáðinn og Snabbi leggja af stað í ferð til Einmanafjallanna með það að markmiði að skoða geimrannsóknastöðina og fá að kíkja í stjörnukíkinn. Í Halastjörnunni kemur fram gagnrýni á einangraðan intellektúalisma (sem ákveðnir menn myndu líklega kalla kaffihúsaspeki) sem er stillt upp á móti gjörðum og praktískum framkvæmdum, því að láta verkin tala. Prófessorarnir í geimrannsóknastöðinni vita ekkert hvað muni gerast þegar halastjarnan rekst á jörðina og þeir hafa takmarkaðan áhuga á því. Þeir ætla bara að skrá atburðina mjög nákvæmlega. Tove hafði lesið töluvert af heimspekilegum verkum, hún hafði áhuga á heimspeki og átti á þessum tíma heimspekinginn Atos Virtanen sem kærasta, en hann er talinn er vera fyrirmynd Bísamorottunnar. Í Halastjörnunni sést augljóslega að verið er að gera gys að ákveðnum lífsskoðunum sem eru í nösunum á fólki. Bísamrottan lifir ekki eins og hún lærir, hún segir að sér finnist alveg óþarfi að láta hafa fyrir sér en þiggur samt allt sem henni er boðið og lætur í raun hafa mjög mikið fyrir sér. Hemúllinn sem safnar fiðrildum er önnur persóna sem vert er að gefa gaum. Hann er algjörlega einangraður í eigin heimi og sér veröldina í gegnum afar sjálfmiðaða og einangraða vísindastarfsemi sem gengur bara út á söfnun og flokkun. Þegar Snúður minnist á halastjörnuna er Hemúllinn viss um að hann sé að tala um einhverskonar fiðrildi en nennir ekki að hlusta og fer þegar hann áttar sig á um hvað er að ræða. Hann hefur bara áhyggjur af að lækurinn sem hann fer í fótabað í sé að þorna upp. Þegar athygli hans er vakin á einkennilegum lit himinsins, segir hann: „Mín vegna má himinninn vera hvernig sem hann vill, köflóttur eða mislitur eða hvað sem er. Ég horfi svo sjaldan á hann. Það sem veldur mér áhyggjum er að að þessi indælislækur minn er að þorna upp. Ef hann heldur svona áfram hætti ég að geta kælt fæturna í vatninu.“ Þannig kemur í Halastjörnunni fram beitt gagnrýni á einangraða fræðimenn sem sjá ekki út fyrir sjálfa sig og eigið fræðasvið og hafa enga heildarsýn eða áhuga á umhverfi sínu. Hetjur bókarinnar eru hins vegar þeir sem eru forvitnir um heiminn og vilja vita og skilja hvað sé raunverulega á seyði. Það eru Múmínsnáðinn, Snúður og Snabbi sem leggja upp í ævintýralega ferð til að kynna sér það sem raunverulega er að gerast og þeir lenda í allskonar hremmingum í ferðinni sem síðan endar vel eins og góð ævintýri.

Á ógnartímum atómsprengjunnar
Halastjarnan er algjörlega einstök sem barnabók. Lýst er heimsendaógn, gjöreyðing jarðar vofir yfir. Vel má hugsa sér halastjörnuna sem lýsir upp himinninn spegla atómsprengjuna sem féll í ágúst 1945, sem fyrr segir er bókin skrifuð á árunum 1945-1946. Það er miklu meiri depurð í Halastjörnunni en til dæmis í Pípuhatti galdrakarlsins sem kom út á eftir henni, þó að það sé vafasamt að halda því fram að Múmínálfabækurnar séu dapurlegar yfirleitt. Í Halastjörnunni er mikil lífsgleði þrátt fyrir yfirvofandi heimsendi. Og heimsendir brestur á í bókarlok. Múmínfjölskyldan leitar skjóls í helli og þau bera neðanjarðarsólarolíu, sem Snúður hefur fengið hjá hattíföttunum, á teppi sem hengt er fyrir hellismunnann. Halastjarnan kemur síðan brunandi og slær halanum í jörðina og morguninn eftir heimsendinn mætir múmínfjölskyldunni algjörlega nýr heimur í nýjum litum. Himinninn er blár, hafið sem var þornað upp er komið aftur, fiskarnir skríða upp úr holum og mávar koma fljúgandi yfir sjóndeildarhring. Þau skríða út úr hellinum líkt og endurfædd.

En þrátt fyrir að í öllum Múmínálfabókunum séu náttúruhamfarir stöðug ógn við friðsældina og jafnvægið sem ríkir í Múmíndal er raunveruleg hætta auðvitað aldrei á ferð. Halastjarnan er þrátt fyrir allt líka dæmigert ævintýri þar sem hetjan fær verkefni upp í hendurnar, gengur í gegnum hremmingar og þarf að horfast í augu við ógnir og svartnætti en sigrar allar hættur og snýr aftur sem sigurvegari. Í Halastjörnunni er Múmínsnáðinn, hinn sextíu og fimm ára gamli unglingur, í hlutverki hetjunnar.

Þórdís Gísladóttir

Heimildir:
Jansson, Tove: Halastjarnan. Steinunn Briem Þýddi. Setberg, Reykjavík 1971.
Westin, Boel: Tove Jansson – Ord, bild, liv. Schilts, Finnlandi 2007.

13. júlí 2010

Frá loðnum leggjum til rakaðrar píku

Bókin Female Chauvinist Pigs eftir Ariel Levy kom út árið 2005. Undirtitill bókarinnar er “Women and the Rise of Raunch Culture”, en Levy notar raunch culture til að lýsa menningu sem er gegnsýrð af fagurfræði og gildum kláms/kynlífsiðnaðarins, menningu sem einkennist ekki bara af því að konur eru hlutgerðar, heldur af því að þær eru hvattar til að hlutgera sjálfar sig - og njóta þess.

Levy finnst þessi menning alltumlykjandi. Í sjónvarpinu útskýrir fatafella í g-streng hvernig best sé að fullnægja karlmanni með kjöltudansi. Úti á götu ganga stúlknahjarðir í lágum gallabuxum og flegnum magabol (rassa- og brjóstaskora sjáanleg, helst naflahringur líka) og oftar en ekki stendur PORN STAR á bolnum ef hann skartar ekki Playboykanínunni. Vinkonur höfundar telja það ekki bara sexý og skemmtilegt að horfa á aðrar konur strippa, heldur finnst það frelsandi, tengja það uppreisn og byltingu.

Þetta knýr Levy til að tala við konur og menn sem vinna á blöðum eins og Maxim eða við að gera þætti á borð við Girls Gone Wild (þar sem ungar konur fá stuttermabol og derhúfu í verðlaun fyrir að sýna brjóst, rass eða píku, eða að fara í sleik við vinkonur sínar) og The Man Show. Þá kemst hún að því að þau líta svo á að feministum hafi tekist ætlunarverk sitt, að jafnrétti kynjanna hafi verið náð. Að við séum orðin nógu sterk og nógu frjáls til að taka klámmenningu opnum örmum. Að konur geti loksins verið eins og menn - við erum komin svo langt frá þessu fyrirbæri sem kallast kúgun kvenna að hún er ekki kúgun lengur, heldur bara eitthvað skemmtilegt sem bæði kynin geta notið.

Levy verður ringluð.

Female Chauvinist Pigs er bók sem fer víða í umfjöllun um þessa svokölluðu raunch menningu. Meðal annars veltir höfundur því fyrir sér hvernig hún hafi eiginlega orðið til og í því samhengi lítur hún til kvenfrelsisbaráttu og kynlífsbyltingu sjöunda og áttunda áratugarins. Levy skrifar um það hvernig Hugh Hefner og Playboy studdu feminista í baráttunni fyrir lögleiðingu fóstureyðinga og getnaðarvarnarpillunnar og hún fjallar um klofninginn sem varð svo innan feminismans yfir klámi. Sumir feministar eru með jákvæðara viðhof til kynlífsiðnaðarins en aðrir*, en allir telja sig þó vera að berjast fyrir auknu frelsi í kynferðismálum.

Það sem Levy hefur einna mestar áhyggjur af eru skorðurnar sem kynverund (sexuality) kvenna eru settar af raunch menningu. Ef skilaboð úr öllum áttum (sjónvarp, bækur, tímarit o.s.frv.) segja að g-stengur, sílikonbrjóst eða push-up brjóstahaldarar, rökuð píka, brúnka, gelneglur og súludans (hún fjallar svolítið um súlufimi sem er orðið vinsælt fyrirbæri þegar bókin kemur út) séu það sem æsir karlmenn og það sem sterkar og öruggar konur fíla, þá er lítið um frelsi til að mótast sem kynvera. Manni er þó gefin fölsk tilfinning fyrir frelsi eða vali: þú getur keypt þér latexgalla eða ljósbleikan fjaðrastreng, þú getur bundið manninn þinn niður eða verið tekin í doggy – en þetta er samt sem áður allt sami kynþokkinn. Ef þér finnst þetta ekki sexý, eða þú ert ekki sexý þegar þú skartar öllum þessum táknum kynþokkans, þá er það þitt vandamál. Þetta er samt það sem er sexý.

En hvernig er kvenrembunni, the female chauvinist pig, lýst? Í stuttu máli má segja að kvenremba sé kona sem telur sig „eina af strákunum“. Hún hefur marga eiginleika sem samfélagið metur mikils, en telur þá karlmannlega eiginleika og lítur niður á aðrar konur á sama hátt og karlremban gerir. Levy telur að það að vera kvenremba auðveldi konum að ná árangri á vinnustöðum þar sem mikið er um karla, enda leggur kvenremban áherslu á það að hún sé eins og karlarnir, en ekki tepruleg stelpu-stelpa eða stíf feministakerling. Kvenremban er svo borin saman við aðra týpu af konum sem getur náð langt í karlaheiminum, en það er konan sem staðfestir alla fordóma karla um konur og gerir út á kvenleika sinn.** Báðar þessar gerðir af konum eru „öruggar“og fyrirsjáanlegar.

Nú er kannski rétt að athuga að bókin fjallar að miklu leyti um árin 2000-2005. Dæmin sem Levy tekur í bókinni eru sum hver horfin úr daglegu lífi (það er svolítið síðan ég sá einhvern í porn star bol, en það var ekki óalgengt) og annað komið í staðinn. Það væri rangt að segja að menningin hafi gjörbreyst á fimm árum, að raunch menning sé horfin. Sjónvarpsþátturinn The Girls of the Playboy Mansion og nokkurnveginn allir þættirnir sem sýndir eru á E! Entertainment Television (sem næst í fjölvarpi hér á Íslandi) eru í anda raunch menningarinnar. Heitustu skór sumarsins 2010 eru með himinháa pinnahæla sem ég efast um að hafi sést áður nema á strippstöðum borgarinnar. Mér líður eins og þessi menning sé að einhverju leyti áhrifaminni en áður, en ég veit ekki hversu áreiðanleg sú tilfinning er – á tímabilinu sem Levy leggur áherslu á var ég þrettán til átján ára og varð fyrir sterkari áhrifum frá þessari menningu en nú.

Það gætir stundum nostalgíu í skrifum Levy, einhverri tilfinningu fyrir því að hún telji að allt hafi verið aðeins betra og allt hefði getað orðið betra ef (svona til dæmis) kynfrelsið sem feministar og aðrir unnu svo hörðum höndum að fyrir fjörutíu árum síðan hefði ekki verið gleypt af markaðinum og skrumskælt. En svona hugsanir eru ekki bara ógagnlegar, heldur líka blekking. Svona eins og þegar fólk talar um að allir hafi verið svo róttækir á hipptímabilinu, að allt hafi verið betra þá. Eða að börn hafi verið miklu þægari og heilbrigðari fyrir þrjátíu árum síðan - eða fimmtíu. Það er ekki þannig að einu sinni hafi verið til náttúruleg og góð kynverund sem er núna búið að spilla. Það eru engar „rætur“ sem við þurfum að finna aftur. Það þýðir samt ekki að við þurfum að lifa í þeirri blekkingu að við séum svo frjáls og opin.

Já, ókei, þetta er orðið allt of langt. En að lokum vil ég bara segja ykkur að lesa þessa bók. Hún er skemmtileg.

*Eins og Erica Jong, þekktur “sex-positive” feministi sagði: “The women who buy the idea that flaunting your breasts in sequins is power – I mean, I'm for all that stuff – but let's not get so into the tits and ass that we don't notice how far we haven't come. Let's not confuse that with real power.” (FCP, bls. 76)

** Levy fjallar um tvær týpur af svörtum mönnum í Uncle Tom's Cabin og ber þær saman við þessar kventýpur. Annars vegar fjallar hún um þrælinn George, sem er svo framúrskarandi persóna að hann kemst nálægt því að vera hvítur (“acts white”) - svona eins og kvenremban kemst nálægt því að vera karlmaður. Hins vegar fjallar hún um hinn trygga Tom frænda, sem er þræll með hjarta úr gulli, en seinni kventýpunni má líkja við hann: “An Uncle Tom is a person who deliberately upholds the stereotypes assigned to his or her marginalized group in the interest of getting ahead with the dominant group.” (FCP, bls. 105)

Guðrún Elsa