14. júní 2010

Stikkprufur: viðbót við fyrri færslu

Í skyndilegu dugnaðarkasti (með tilliti til bloggskrifa) eða letikasti (með tilliti til BA-ritgerðarskrifa) ákvað ég að prjóna svolítið aftan við bókabúðarmeðmæli mín hér að framan og kynna tvær stikkprufur úr sarpi St. George´s Bookshop í Berlín, en þær eiga það sameiginlegt að fjalla um þessa miklu sögu- og menningarborg.

Aðra þeirra ætla ég rétt að nefna, en skora á Guðrúnu Elsu sambloggara minn að gera henni rækilegri skil við tækifæri, því hún kynnti mér hana og hefur skoðað hana betur. Bókin heitir Voluptuous Panic – the Erotic World of Weimar Berlin eftir Mel nokkurn Gordon og er einmitt ekki síður fallin til þess að skoða en lesa; auk þess að vera fræðandi er hún kjörin kaffiborðsbók fyrir þá sem eru nógu...jah, smáborgaralegir til að huga að slíku en þó ekki mótfallnir því að gestir þeirra æsist svolítið í kaffiboðinu.



Bókin fjallar í stuttu máli um Weimarlýðveldisárin í Berlín og þá erótík og perversjónir sem þar blómstruðu. Sagt er frá fjölbreytilegum hórdómi, kabarettdönsum, drengjaástum, kvennaástum, klæðskiptum, kvalalosta, kynfræðirannsóknum frumkvöðulsins Magnusar Hirschfeld og hinni stórskemmtilegu (en stundum ögn truflandi arísku) þýsku nektarhreyfingu, svo eitthvað sé nefnt. Bókin er skemmtileg aflestrar og hvað myndirnar varðar er hún hreinasta gullnáma, þær eru svo fallegar og sjúklegar í senn; teikning af berrössuðum dreng sem flengir dúkkurnar sínar með vendi, miðaldra atvinnuflassari með kúluhatt og hálstau flettir frá frakkanum fyrir ljósmyndarann og reynist ber að neðan...

Hin Berlínarbókin sem ég keypti í St. George´s varð sannkölluð biblía mín á gönguferðum um borgina, úttroðin af póst-it-miðum. Hún heitir The Ghosts of Berlin, eftir sagnfræðinginn Brian Ladd, og segir sögu Berlínar frá byggingapólitísku sjónarhorni. Ladd rekur bygginga- og skipulagssögu borgarinnar frá miðöldum til okkar daga og það hvernig pólitískt ástand og hugmyndafræðilegar deilur hafa haft áhrif á uppbyggingu hennar og niðurrif á hverjum tíma fyrir sig. Þetta sjónarhorn hentar sérlega vel fyrir Berlín, jafn hokin og hún er af sögu og pólitík, og gerir bókina að mjög góðri túristabók – hún fókuserar á raunverulega staði sem hægt er að heimsækja og skoða en í stað yfirborðskenndrar staðreyndaupptalningar segir hún sögu átaka og gagnrýni.



Það mætti skipta viðfangsefni bókarinnar í fjóra hluta eftir tíma: heimsborgin Berlín frá 19. öld fram til um 1930, Berlín undir yfirráðum nasista, hin klofna Berlín kalda stríðsins og loks Berlín eftir fall múrsins (bókin er gefin út árið 1997). Kaflarnir vísa þó stöðugt hver í annan og fortíðin rennur saman við samtíðina. Þjóðernis- og sjálfsmyndarpólitískar spurningar eru mjög áberandi – hvaða þýðingu hafði gjörningur listamannsins Christo sem vafði þinghúsið inn í kufl árið 1995? Hvenær hættir það að vera uppgjör að búta niður austurþýskar styttur af Lenín og byrjar að vera tilraun til að þurrka út söguna? Var bygging gyðingaminnismerkisins milli Brandenburgarhliðsins og Potsdamer Platz merki um að Þjóðverjar öxluðu ábyrgð á gjörðum sínum á nasistatímanum eða tilraun til að loka umræðunni, ábyrgðin hefði verið öxluð og þyrfti ekki að ræða það meir?

Saga Berlínar er auðvitað svo mögnuð að skortur á efniviði getur aldrei verið vandamál í metnaðarfullri bók eins og þessari. Saga Potsdamer Platz er gott dæmi; þar voru fjölförnustu gatnamót í Evrópu á fyrstu áratugum 20. aldar, þar var auðn og einskismannsland þegar borginni var skipt upp í kalda stríðinu, gaddavír og varðturnar, nú rísa þar kapítalískir turnar til himna, stórfyrirtæki og rauðir dreglar, ljótari staður en Hamraborgin í Kópavogi. (Hvað ætli gamli maðurinn í Himninum yfir Berlín eftir Wim Wenders segði ef hann væri leiddur þangað núna?)

Ég gæti í rauninni skrifað fjórfaldan pistil um þessa mína uppáhaldstúristabók, en eitthvað verða blogglesendur að eiga til góða. Ég mæli eindregið með því fyrir þá sem langar til að kynnast borginni og sögu hennar umfram hefðbundin bæklingaskrif að næla sér í Drauga Berlínar – maður missir ekki af neinu, Brandenburgarhliðið og Unter den Linden eru líka í þessari bók. Hún er áhugaverð, vel skrifuð og skemmtileg, og það er gríðarlega inspírerandi fyrir Íslending að kynna sér þjóðernis- og sjálfsmyndarpólitík í landi þar sem fólk gerir sér af biturri reynslu grein fyrir mikilvægi sífelldrar gagnrýni og spurninga á því sviði, að maður tali ekki um tilfinninguna fyrir hverfulleika stjórnskipulags og hugmyndafræði.

Kristín Svava

3 ummæli:

bokvit sagði...

úha - en spennandi - mig langar í þessa bók! (og aftur til Berlínar reyndar)

Erna sagði...

Það er greinilegt að ég þarf nauðsynlega að komast yfir Berlínardraugana.

Skellur sagði...

Oj