1. júní 2010

Reyfara maí: Það sem ég sá og hvernig ég laug

imagesÍslenska sumarið loksins komið – steikjandi hiti í stofunni – dáldið kalt í garðinum – börn að leik fyrir utan svefnherbergisgluggann – vespur í vígahug fyrir innan hann og skólabækurnar rykfalla á kantinum á meðan glæpatíðnin ríkur upp – alla vega í sófanum hjá mér!

Nýjasta morðið sem þar var leyst er að finna í bókinni Það sem ég sá og hvernig ég laug eftir Judy Blundell sem Magnea J. Matthíasdóttir þýddi alveg prýðilega. Það er á köflum hreint ekki auðvelt þar sem aðalsöguhetjan, hin fimmtán ára gamla Evie, er oft að vitna í dægurlagatexta og kvikmyndir sem hún skilgreinir líf sitt í gegnum. Það kemur því í hlut Magneu að þýða gamalgrónar klisjur dægurmenningarinnar án þess að þær tapi víðri merkingu sinni. Í þeim tilvikum langaði mig stundum til að komast í „frumtextann“ en þar var ekki við Magneu að sakast – þýðing hennar er ljómandi fín.

Bókin gerist í bandaríkjunum skömmu eftir heimsstyrjöldina síðari. Evie býr með móður sinni og stjúpföður í Queens og dreymir um að eignast það fullkomna líf sem auglýst er í kvikmyndunum: „Við Marge trúðum heitar á tímarit og kvikmyndir en kenningar kirkjunnar. Við vissum að ef við æfðum okkur nógu mikið myndum við einn góðan veðurdag reykja alvöru sígarettu með varalit og naglalakk í stíl frá Revlon á meðan Frank Sinatra syngi í eigin persónu fyrir okkur „Allt eða ekki neitt“.“

Mjög skyndilega fer svo fjölskyldan í frí til Flórída. Þetta er fyrir tíma loftkælingarinnar og því er Flórída bara draugabær á sumrin en gríðarlegur hitinn og lokuð hótel geta hvorki komið í veg fyrir fyrstu ástina né skuggalegt morð. Sagan kallast á við glæpamyndirnar sem Evie talar um og hin ægifagra móðir hennar verður fljótlega hreinræktað femme fatale í huga lesandans – blanda af Lönu Turner, Joan Crawford og Barböru Stanwyck.

Evie er barn að aldri þegar sagan hefst en hún neyðist til að fullorðnast fyrir bókarlok. Það er þó ekki laust við að barnaskapur hennar hafi á köflum verið örlítið þreytandi – það er vandratað einstigi milli þess að gera börn saklaus eða hreinlega heimskuleg. Of oft var lesandinn settur í hlutverk Sherlock Holmes meðan Evie var Dr Watson – lýsandi umhverfi sínu í smáatriðum og sífellt dragandi rangar ályktanir.

Engu að síður er bókin skemmtileg og spennandi þótt það hafi hvarflað að mér að hin glæsilega móðir Evie hefði verið skemmtilegri sögumaður á stundum.

Maríanna Clara

Engin ummæli: