22. janúar 2010

Guðrún Elsa og Kristín Svava fara á fyrirlestur

Þegar við mættum upp í Humboldt-háskóla áttum við í fyrstu erfitt með að átta okkur á því hvar Orhan Pamuk væri nú eiginlega. Fljótlega urðum við þó varar við straum varalitaðra miðaldra kvenna sem voru háfleygar á svip, eins og eitthvað merkilegt væri í vændum. Við eltum þennan hóp, og viti menn, við fundum Nóbelsverðlaunahafann Orhan Pamuk.

G: Fyrstur steig fram Prof. Dr. Dr. h.c. Christoph Markschies, rektor skólans, með heljarmikið bling, og hélt ræðu. Maðurinn talaði vægast sagt undarlega, lagði sérstaka áherslu á ákveðin atkvæði orða sinna og dró sérhljóðana. Ræða hans náði hápunkti þegar hann sagðist hafa sérstöðu meðal rektora í Þýskalandi vegna þess að hann læsi ekki bara bækur um mannauðsstjórnun heldur skáldsögur (og hlýtur því að vera vel til þess fallinn að kynna Orhan Pamuk, sem ætlar að halda fyrirlestur um skáldsögur). Fólk í salnum átti erfitt með að halda niðri í sér hlátrinum og ungi maðurinn við hliðina á mér sagði eitthvað við mig á þýsku hálfhlæjandi og ég brosti og kinkaði kolli. Ég skildi ekki hvað hann sagði, en ég vissi hvað hann átti við.

K: Í kjölfar rektorsins fylgdu ótrúlega margir embættismenn sem fundu sig knúna til að sleikja rassinn á rithöfundinum aðeins áður en hann steig á svið. Að þeim formsatriðum loknum birtist Orhan sjálfur, prakkaralegur jakkafataklæddur maður á miðjum aldri. Erindi hans fjallaði um þá reynslu að lesa skáldsögur og var í sjálfu sér ekki byltingarkennt. Sjálf verð ég að játa á mig nær fullkomið áhugaleysi á formbyggingu skáldsögunnar og því fór ýmislegt í máli (Or)hans inn um annað eyra mitt og út um hitt.

G: Orhan talaði mikið um áhrif sem hann varð fyrir af lestri skáldsagna á sínum yngri árum, en lagði þó sérlega áherslu á það þegar hann las Önnu Kareninu, sem er að hans mati besta bók í heimi. Hann las þá upp kafla úr bókinni þar sem hún Anna er sjálf að lesa skáldsögu, að berjast við að einbeita sér að lestrinum í lest á leið til Pétursborgar. Það sem mér (og flestum áhorfendanna ef marka má undirtektir þeirra) fannst sniðugast, var þegar Orhan talaði um það hversu ánægður lesandinn er með sjálfan sig þegar hann les gáfulegar bækur. Áhorfendur hlógu og klöppuðu ákaft fyrir þessu, en einhvern veginn fannst mér eins og þeir væru að minnsta kosti að hluta til að klappa fyrir sjálfum sér fyrir að vera á fyrirlestri hjá höfundi jafn gáfulegum og Orhani Pamuk.

K: Mér varð þá hugsað til þess manns sem sagt er frá í einhverri af Andrabókum Péturs Gunnarssonar, sem var frægur í bæjarlífinu í Reykjavík sem maðurinn sem hafði lesið Finnegan´s Wake. Þegar Orhan hafði lokið máli sínu steig með honum á stokk einhver bókmenntasinnaður Þjóðverji sem átti við hann samræður um erindið og skáldskapinn almennt. Þær samræður, og svör Orhans við nokkrum misgáfulegum spurningum úr sal, voru mun líflegri en fyrirlesturinn sjálfur, enda hafði höfundurinn sérlega gaman að því að stríða viðmælendum sínum og mótmæla þeim harðlega en þó hálfglottandi. Hápunktur þessara samskipta var í lokin, þegar Þjóðverjinn las kafla úr þýðingu á nýjustu bók Orhans í hægu og virðulegu tempói, en Orhan greip stafræna myndavél úr pússi sínu og fór að taka myndir undir lestrinum, bæði út í sal og af sjálfum sér og viðmælanda sínum.

Í sporvagninum á leiðinni heim drógum við saman helstu punkta og ánægjustundir fyrirlestursins – en frá þeim hefur verið sagt hér á undan. Það má reyndar bæta því við að okkur þykir það vel gert hjá Orhan Pamuk að vera svona ungur og sprækur en vera samt búinn að fá Nóbelsverðlaun.

Kristín Svava og Guðrún Elsa

2 ummæli:

Þórdís sagði...

Þið eruð heppnar að vera á góðum stað þar sem hlusta má á unga og spræka nóbelskalla. Pamuk er líka ágætur höfundur. Svo verð ég að segja að rektorinn með hálsmenið er heldur betur á besta aldri, heilum tíu árum yngri en Orhan, sem þýðir að hann er fæddur 1962!

Kristín í París sagði...

Ég trúi því ekki að enginn sendi athugasemd. Takk fyrir skemmtilega grein en ekki takk fyrir að afhjúpa tilgerðina, vá hvað ég kannast við þetta að flattera sjálfa mig yfir því að vera að lesa eitthvað, haha!