10. ágúst 2009

Lýst er eftir litríku máli …

Ég þarf að gera játningu. Reyndar er það augljós lygi, ég þarf ég þess alls ekki, en hér kemur hún samt:

Stundum uppgötva ég að vikum, jafnvel mánuðum saman hef ég varla lesið almennilega íslensku, a.m.k. ekki langan samfelldan texta. Ekki svo að skilja að ég hafi ekkert lesið nema útlensku. Öðru nær, en allur textinn sem ég les í atvinnuskyni er ekki endilega leiftrandi snilld og þar að auki oftast lesinn með gleraugum sem fókusera á allt sem betur mætti fara. Og svo álpast ég óþarflega oft til að lesa alltof marga slaka reyfara í misgóðum þýðingum þótt ég ætti að vita betur.

Við þessar aðstæður óttast ég gjarnan um máltilfinninguna.

Oft verða þessi lestrarafglöp kringum vinnutarnir, enda er þá auðvelt að missa sjónar á hæfileikanum til að einbeita sér að bitastæðu efni í frístundum. En þegar rofar til verður þörfin fyrir almennilegan íslenskan texta – og mikið af honum – aðkallandi. Hjá mér felst endurnæring eftir annatíma því gjarnan í tilhneigingu til að týna mér í óralöngum bókum eða bókaflokkum. Þar er Dalalíf eftir Guðrúnu frá Lundi ofarlega á blaði, ég þreytist aldrei á frásagnargáfunni að ekki sé talað um persónusköpununa. Kristín Lafranzdóttir eftir Sigrid Undset er líka meðal þeirra bóka sem koma sterkar inn. Margar persónur og mikið drama í báðum tilfellum. Og óteljandi blaðsíður af fallegu máli.

Það er ekki skilyrði að bækurnar gerist í sveit fyrir langalöngu og textinn sé frekar gamaldags. Langlokudoðrantar á litríku máli eru bara ekki á hverju strái.

Akkúrat núna er lengdin reyndar ekki skilyrði. Ég er til í hvað sem er á íslensku, nýtt eða gamalt, langt eða stutt, bundið eða óbundið mál bara ef það er vel og/eða skemmtilega skrifað. Ég hef augastað á ýmsu en er líka forvitin að heyra hvað aðrir hafa að segja. Ábendingar? Meðmæli? Reynslusögur? Eða bara almennt blaður? Látið ljós ykkar endilega skína í kommentakerfinu.

Hvaða fígúrugangur er þetta kona? - Karitasarbækur Kristínar Marju Baldursdóttur

Karitas, án titils og Óreiða á striga eftir Kristínu Marju Baldursdóttur eru miklir doðrantar. Þessar bækur eru svona doðrantar sem mér finnast skemmtilegir. Löng og detaljeruð örlaga- og fjölskyldusaga. Ef ég hugsa bara um ánægjuna af því að innbyrða doðrantinn þá skiptir ekki öllu máli að sagan er svolítið skrítin á köflum, stundum pínu pirrandi, sumir karakterarnir full gróteskir – heildaráhrifin eru þau að mann langar að lesa, og lesa meira. Drekka í sig lýsingar á málverkum, landslagi, innanstokksmunum, tilfinningum, kerlingarugli.

Þessar bækur eru alveg gullnáma fyrir bókmenntafræðinga og aðra slíka – hægt að skoða þær útfrá allskyns sjónarhornum og skrifa lærðar greinar um eitt og annað. Til dæmis væri alveg tilvalið að kíkja á hvernig vatn er notað í textanum – sjór, stöðuvötn, baðvatn, þvottavatn, snjór, jökull . . . Karitas í löngum böðum í balanum, endalausir þvottar á fötum og híbýlum, fiskþvottur og svo framvegis.

Persónan Karitas fer frá því að vera að manni finnst hressilegur unglingur með teiknihæfileika og mikla samskiptagáfur yfir í allt að því einrænan snilling sem lifir fyrir listina. Sálarangistin sem tengist listsköpun Karitasar, og þó kannski ekki síður þeim aðstæðum að finnast hún ekki geta sinnt köllun sinni sem skyldi, er áþreifanleg og átakanleg á köflum. Manni finnst eilítið skrítið að hugsa til þess að konan sem berst við myrkið á Borgarfirði eystri sé sú sama Karitas og fór um Akureyri og kjaftaði til kaupmenn, sjómenn, bakara og smiði í leit sinni að mat og húsaskjóli fyrir systkini sín og móður. Og þó, það gæti sjálfsagt breytt stabílasta fólki að vera settur niður á stað á við Borgarfjörð eystri á á fyrri hluta síðustu aldar, eiginmaðurinn í burtu til lengri og skemmri tíma, eignast barn, missa barn, eignast fleiri börn og missa annað þeirra til stjórnsamrar systur. Vera á sama tíma alltaf að reyna að tjá sig í gegnum listina –vanta öll aðföng en geta ekki hætt. Kannski varla nema von að konan hafi allt að því misst vitið. Það er svo reyndar ekki fyrr en löngu löngu síðar í sögunni að Karitas spáir í hvort það geti verið að hún hafi einhverntíman verið tæp á geði en hugsar um leið að sér hafi alltaf sjálfri fundist hún mjög normal og ekkert skilið í dylgjum fólks um geðheilsu sína.

Systir Karitasar, Bjarghildur, er kapituli útaf fyrir sig. Hún er einhvernveginn yfir og allt um kring í sögunni. Vomar yfir á köflum en kemur svo sterk inn þess á milli. Lýsingarnar á Bjarghildi eru þannig að hún verður á köflum allt að því grótesk. Hún er stór og mikil, fer mikinn og rekur þvílíkt myndarbú að annað eins er vandfundið. Vanþóknun hennar á Karitas og því sem hún stendur fyrir er mikil – henni finnst systur sinni ver nær að halda almennilegt heimili eða að minnsta kosti sjá sóma sinn í því að aðstoða þá sem slíkt gera, ekki vera að einhverju dedúi og fígúrugangi meðan almennilegt fólk vinni fyrir sér. Örlög Bjarghildar blessaðrar eru ekki öfundsverð, en hún þjösnast samt áfram fram í rauðan dauðann og ætlaði sér alls ekki að gefast upp fyrir ómyndinni systur sinni – tórði á hjúkrunarheimili á Króknum lengi vel og spurði alltaf reglulega “Er Karitas dauð?”

Karitas tekst, á sinn hátt, að komast þangað sem hún ætlaði sér, þ.e. að öðlast einhverskonar frelsi og lifa á og fyrir list sína. Leiðin er vissulega þyrnum stráð – eða kannski öllu heldur uppfull af kvenlegum skyldum og verkum, eiginmanni, börnum, þvottum, samviskubiti, þjóðfélagsviðhorfi og öllu þessu stússi sem getur gert bestu konum erfitt fyrir. Fyrir hana var ekkert í boði annað en að fara þessa leið – hún varð að brjótast áfram og tjá það sem innra með henni bjó.

8. ágúst 2009

Stieg Stieg Stieg

Fyrstu dagana sem myndin Karlar sem hata konur var sýnd á Íslandi fóru yfir tíuþúsund manneskjur í bíó til að sjá hana og ég er ein þeirra. Ég er ekki nema mátulega hrifin af myndinni, sé eiginlega smá eftir að hafa ekki hlaðið henni niður ólöglega og sent Evu Gabrielsson, sambýliskonu Stiegs heitins Larssons, pening í pósti fyrir. Allir sem hafa séð heimildarmyndina um Stieg og Millenium-fyrirbærið vita hvers vegna mann langar lítið að styrkja erfingjana. En hvað sem því líður þá halda bækurnar um Mikael Blomqvist og Lisbeth Salander áfram að seljast og von er á mynd númer tvö í haust, hún á örugglega eftir að slá í gegn líka og sömuleiðis sú þriðja.

Fyrr í sumar fékk Stieg Larsson bresk bókmenntaverðlaun fyrir Karla sem hata konur. Bókin, sem á ensku kallast The girl with the dragon tattoo, fékk British Book Awards sem glæpasaga ársins. Meðal annarra British Book Awards-verðlaunahafa er Barack Obama sem fékk viðurkenningu fyrir æskuminningarnar Dreams from my father.

Danska forlagið Modtryk, sem gefur út bækur Stiegs, græðir auðvitað á tá og fingri enda hafa 1,3 milljónir eintaka af bókum hans selst á dönsku. Politiken hafði það eftir forleggjaranum um daginn að gróðinn væri svo mikill að forlagið ætlaði að stofna sérstakt barnabókasysturforlag og nota hluta af millenium-peningunum til að gefa út barnabækur. Gott mál!

Og nú eru víst þrjár bækur UM Stieg Larsson á leiðinni og margir bíða áreiðanlega spenntir eftir þeim. Blaðamaðurinn og rithöfundurinn Kurdo Baksi (hann kemur fyrir í eigin persónu í þriðju bókinni) vinnur að bók sem á að koma fljótlega út hjá Norstedts í Svíþjóð. Sú bók hefur vinnuheitið Vinur minn Stieg. Þar segir höfundurinn frá góðum og slæmum hliðum Stiegs og langvarandi vináttu þeirra tveggja. Forleggjari bókaforlagsins Ordfront, Jan-Erik Pettersson, vinnur líka að bók um Stieg Larsson, það verk á að vera hefðbundin ævisaga byggð á heimildum. Loks er sambýliskonan, Eva Gabrielsson, sem fær ekki krónu af öllum peningunum sem flæða inn, líka að skrifa bók en hún vill ekki ræða hana í bili.