30. júní 2009

Hinn margumræddi Adolf

Í bókabúð í krúttbænum Lundi í Svíþjóð keypti ég fyrir skömmu nýlega ævisögu hugsanlega mestumræddasta manns síðustu aldar, sem ég er nú búin að lesa. Um Adolf Hitler hefur auðvitað verið skrifað gríðarlega mikið en fæst mun það þó vera beinlínis um hann sem persónu. Yfirleitt er sjónum beint að hlutverki hans sem "Foringjans" og myndin af honum er oftast bleksvört; Hitler var djöfull í mannsmynd, ómennskur alveg inn að beini. Á þessu eru þó undantekningar, mig minnir til dæmis að endurminningar Traudl Junge, eins ritarans hans, gefi dálítið aðra mynd af honum.

Í ævisögunni, sem er eftir Bengt Liljegren, sænskan sagnfræðing og pönktrommara, er karlinn á margan hátt afdemóniseraður. Það kemur fram að Hitler var ástríðufull sætabrauðsæta sem oft grét úr hlátri, hann vildi láta setja merkimiða á sígarettupakka um að reykingar væru krabbameinsvaldandi, hann dáði mjög myndina um King Kong og átti það til að berja sér á brjóst eins og hann, hann var lítið fyrir líkamlegt samneyti við konur, fór bara einu sinni á fyllerí, gekk ekki með peningaveski heldur hafði hann seðlana lausa í vasanum og hann skeindi sér óvart á stúdentsprófsskírteininu sínu!

Í sögunni er farið yfir ævi Adolfs Hitlers í tímaröð, leitað fanga í allskonar heimildum, rangfærslur og gamall misskilningur leiðréttur og sagt frá hinu og þessu sem tengist foringjanum en skiptir kannski ekki beinlínis neinu máli, t.d. kemur fram að nánustu ættingjar hans á lífi eru tveir barnlausir bræður sem eru garðyrkjumenn á Long Island, sá yngri er fæddur 1965.

Eftir lesturinn las ég gagnrýni um bókina í sænsku dagblaði þar sem rýnirinn segir höfundinn gera Hitler of mannlegan. Ég er ekki sammála honum, hvað sem fólk segir þá var Hitler þrátt fyrir allt manneskja eins og við öll en ekki bara sígargandi og andsetinn fábjáni. Í bókinni les maður um manninn Adolf (en ekki bara klikkhausinn Hitler), sem situr í sófanum sínum með asnalega yfirskeggið sitt og japlar á dísætum kökum og talar um ömurleika yfirstéttarinnar, fáránleika trúarbragða, Þýskaland framtíðarinnar, Wagner, arkitektúr og myndlist. Bókin fjallar voða lítið um pólitíkusinn og hugsuðinn Adolf Hitler, hún fjallar um mann sem minnir á einhverskonar Jekyll og Hyde-persónu án þess að það þurfi að skýra nánar.

Við lesturinn spurði ég mig auðvitað (eins og ég geri reglulega og örugglega þið líka) hvað hafi eiginlega gerst, hvernig gat þessi einkennilegi maður náð svona brjálæðislegum völdum og hvernig gat hann fengið allskonar fólk til að fylgja sjúkum skipunum sínum og síðan honum sjálfum í dauðann? Ég ætla ekki að fara nánar út í þær pælingar (þá gæti ég dottið í að fara að skrifa eins og stebbifr) en mæli með bókinni, þ.e.a.s. fyrir þá sem lesa sænsku og geta reddað sér eintaki.