3. apríl 2009

Sögusteinsverðlaunin veitt á alþjóðlegum degi barnabókarinnar

Sögusteinn, barnabókaverðlaun IBBY á Íslandi, voru afhent í þriðja sinn í gær 2. apríl, á alþjóðlegum degi barnabókarinnar. Verðlaunin, sem eru 500 þúsund krónur, skal veita rithöfundi, myndlistarmanni eða þýðanda sem með höfundarverki sínu hefur auðgað íslenskar barnabókmenntir. Í þetta sinn veitti Frú Vigdís Finnbogadóttir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur verðlaunin við athöfn í Borgarbókasafninu.
Var það einróma álit valnefndar, sem skipuð var Önnu Heiðu Pálsdóttur, bókmenntafræðingi, Ármanni Jakobssyni, bókmenntafræðingi og Rögnu Sigurðardóttur, myndlistarkonu og rithöfundi, að Kristín Helga Gunnarsdóttir skyldi hljóta verðlaunin að þessu sinni. Í greinargerð valnefndar segir meðal annars:
„Á þessum tólf árum sem rithöfundarferill Kristínar Helgu spannar hefur hún skrifað hátt á annan tug bóka, að minnsta kosti eina á ári og stundum tvær. Oft hafa mikil afköst vera talin skerða gæðin: að rithöfundur gefi sér ekki tíma til að vanda til verka. Kristín Helga hefur margsannað að það er bara goðsögn.
Binna, Hekla, Mói hrekkjusvín, Silfurberg-þríburarnir, og síðast en ekki síst Fíasól, eru persónur sem barnið í okkar húsi og barnabarnið í næsta húsi hafa alist upp með, svipað og eldri kynslóðin á Íslandi í dag ólst upp með Línu Langsokk og Önnu í Grænuhlíð. Mjög sennilega munu þau tala um Fíusól með sérstakan glampa í augunum eftir tíu, tuttugu eða þrjátíu ár. Í Fíusól hefur Kristín Helga skapað persónu sem er íslensk, sjálfstæð, skapandi og frumleg en um leið afar trúverðug.
Undirliggjandi boðskapur bóka Kristínar Helgu er krafa um að hugsa sjálfstætt og að vera góð og heilsteypt manneskja, en þessi boðskapur kemur hvergi fram á of opinskáan hátt. Kristín Helga hefur eingöngu skrifað barnabækur og hún hefur sannað að góður barnabókahöfundur getur skipað sér í fremstu röð íslenskra rithöfunda.“

Engin ummæli: